Fjárlög 1994

73. fundur
Þriðjudaginn 21. desember 1993, kl. 01:55:57 (3262)


[01:55]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég vil sömuleiðis taka undir það að hér er nokkuð sérkennilega að verki staðið að manni sýnist. Ári eftir að Alþingi hefur samþykkt sérstaka þingsályktun um að efla beri sérstaklega nám í sjávarútvegsfræðum við Háskólann á Akureyri og byggja upp stofnanir á sviði rannsókna og fræða á því svæði til að byggja þar öfluga miðstöð rannsókna og fræðslu í sjávarútvegi, þá er --- og það nokkuð svo rausnarlega --- lagt nýtt fjármagn í verkefni af þessu tagi sem ugglaust er góðra gjalda vert, en þess sér hins vegar lítinn stað að hæstv. ríkisstjórn taki mark á þessum vilja Alþingis að beina kröftunum að uppbyggingu á Akureyri í samræmi við ályktunina sem hér hefur verið nefnd.
    Ég vil að sjálfsögðu ekki leggja stein í götu þessa verkefnis, þarft sem það má vera, en í ljósi þess hvernig aðstæður allar eru í þessu máli þá kýs ég að sitja hjá við þessa atkvæðagreiðslu.