Fjárlög 1994

73. fundur
Þriðjudaginn 21. desember 1993, kl. 02:05:10 (3265)

[02:05]
     Guðmundur Bjarnason :
    Hæstv. forseti. Tvær næstu tillögur hér á undan, nr. 23 og 24, svo og nokkrar sem koma hér á eftir, fjalla um það að falla frá hugmyndum sem áður voru boðaðar um það að breyta verulega hvað varðaði skipun sýslumannsembætta í landinu, svo og héraðsdómstóla á Norðurlandi. Þessar tillögur sem hér eru lagðar fram og við framsóknarmenn munum styðja hafa vissulega í för með sér nokkurn útgjaldaauka. Til að mæta þeim útgjaldaauka er lagt til að dregið verði úr fjárveitingum til nokkurra stofnkostnaðarliða og viðhaldsliða innan dómsmrn. og ég legg til að við framsóknarmenn munum einnig samþykkja þá liði.