Fjárlög 1994

73. fundur
Þriðjudaginn 21. desember 1993, kl. 02:18:59 (3271)


[02:18]
     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :

    Virðulegur forseti. Í þessu ákvæði er gert ráð fyrir því að framlag til Heilsuverndarstöðvar í Reykjavík lækki um 15 millj. kr. og eins og fram kom hér við 3. umr. fjárlaga er fyrst og fremst um það að ræða að ná þessu af ungbarnaeftirliti og mæðravernd. Nú hefur ráðherra hins vegar flutt hér þá yfirlýsingu að það verði hægt að reka áfram óbreytt ungbarnaeftirlit, mæðravernd og heimahjúkrun í Heilsuverndarstöð Reykjavíkur þannig að þessi niðurskurður verði ekki látinn koma niður þar heldur á yfirstjórninni ef þess er einhver kostur. Náist þessi niðurskurður þar ekki, þá verði þetta bætt á fjáraukalögum. Þannig skildi ég orð ráðherra. Ég tel að þau séu mjög mikilvægt innlegg í þessa umræðu og vil þakka fyrir þau. Engu að síður verð ég, og við munum gera það kvennalistakonur, að greiða atkvæði gegn þessum lið eins og þarna er inni vegna þess að við teljum algjörlega óraunhæft að það sé hægt að ná 15 millj. kr. niðurskurði á Heilsuverndarstöð Reykjavíkur og í rauninni hefði því liðurinn átt að falla burt. En ég tel mjög mikilvæga þessa yfirlýsingu ráðherra.