Frestun á fundum Alþingis

73. fundur
Þriðjudaginn 21. desember 1993, kl. 02:52:16 (3288)


[02:52]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég verð að lýsa vonbrigðum mínum með svar hæstv. forsrh. Mín spurning var

skýr. Hún var á þá leið hvort hæstv. forsrh. væri reiðbúinn að gefa þá yfirlýsingu hér að teldi ríkisstjórnin nauðsynlegt að setja lög á þessum frestunartíma þá mundi hún kalla þingið saman. Ég var ekki að spyrja að því hvort ríkisstjórnin hefði nú uppi einhverjar ráðagerðir um að setja bráðabirgðalög. Ég taldi óþarfa að spyrja að því. Það er þess vegna miður að forsrh. skyldi ekki treysta sér að gefa þá yfirlýsingu hér að hann mundi kalla þingið saman ef ríkisstjórnin teldi nauðsynlegt að setja lög. Þar með liggur það nokkuð ljóst fyrir að bráðabirgðalagasetningin vofir nú yfir á þingfrestunartímanum af hálfu hæstv. forsrh. Ef hæstv. forsrh. gefur ekki skýrari svör hér þá sé ég ekki hvernig við fyrir okkar leyti a.m.k. getum stutt þá tillögu sem hann hefur lagt fyrir þingið. Ég teldi æskilegra að ríkisstjórnin ætti þá samvinnu við þingið að skilja hér áður en við göngum til jólahátíða á þann veg að við vissum öll hvað til stæði en með yfirlýsingunni hefur hæstv. forsrh. skapað óvissu og það tel ég miður. Ég skora því enn á hæstv. forsrh. að gefa skýra yfirlýsingu um það að ríkisstjórnin muni kalla þingið saman ef hún telur tilefni til lagasetningar á þessum frestunartíma. Ef slík yfirlýsing kemur ekki þá treystum við okkur ekki til að greiða þessari tillögu atkvæði.