Tengsl aðila við björgunaraðgerðir hérlendis

79. fundur
Mánudaginn 31. janúar 1994, kl. 16:09:04 (3602)


[16:09]
     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Ég ber fram fsp. á þskj. 506 til hæstv. dómsmrh. um tengsl aðila við björgunaraðgerðir hérlendis. Fsp. er svohljóðandi:
  ,,1. Hvernig er háttað sambandi við björgunarsveitir og aðra neyðarþjónustu úti um land þegar leitað er aðstoðar björgunarsveitar herliðsins á Keflavíkurflugvelli?
    2. Hvernig er gert ráð fyrir að boðleiðir séu milli aðila þegar skipsstrand ber að höndum og leitað er til björgunarsveitar herliðsins á Keflavíkurflugvelli eins og gerðist við strand Goðans í Vöðlavík?
    3. Telur ráðherra ekki eðlilegt að reglum um Almannavarnir ríkisins verði breytt þannig að kerfi þeirra komi inn í mál sem þessi á einhverju stigi?``
    Tilefni þessarar fsp. eru skipsströnd í Vöðlavík og alveg sérstaklega hið síðara fyrr í þessum mánuði þegar björgunarskipið Goðinn strandaði og með aðstoð þyrlu frá herliðinu á Keflavíkurflugvelli tókst að bjarga sex skipverjum úr sjávarháska af sjö sem um borð voru. Þetta björgunarafrek vakti mikla athygli sem eðlilegt var en hitt vakti einnig athygli að það tengslaleysi sem var á milli aðila við þetta skipsstrand og þessar björgunaraðgerðir tengist ekki einvörðungu sambandi við þyrlu herliðsins heldur raunar einnig fleiri þættir sem ég ætla þó ekki að gera hér að umtalsefni. Það má segja að í ljós hafi komið alveg ótrúlegur skortur á upplýsingum þeirra manna sem voru um borð í þyrlunni sem bjargaði skipverjunum, upplýsingavöntun um aðstæður á landi og vöntun á möguleikum til þess að hafa fjarskiptasamband við þá sem að björgunaraðgerðum unnu í landi.
    Svo dæmi sé tekið höfðu björgunarmenn í þyrlunni ekki annað kort meðferðis heldur en vegakort. Þeir vissu í rauninni ekki hvaða leið væri vænlegust til þess að komast til Héraðs, en þangað ætluðu þeir á flugvöll, vegna þess að þeir höfðu engar upplýsingar um flugvöll í Norðfirði.
    Þetta er aðeins dæmi af fjölmörgu sem nefna mætti úr hrakningum sem þarna urðu eftir að björgun hafði farið fram. Það er alveg ljóst að hér er auðvitað eitthvað meira en lítið bogið við málin. Þess vegna hef ég borið fram þessar fsp. við hæstv. dómsmrh. Þó ástæða væri til er ekki tími til að rekja mörg fleiri sláandi dæmi um alveg ótrúlega vöntun á samræmingu sem ekki einskorðast við björgunarsveit frá Keflavíkurflugvelli, heldur einnig í raun í sambandi við samskipti fleiri innlendra aðila sem að málinu koma.