Hvalveiðar

87. fundur
Fimmtudaginn 10. febrúar 1994, kl. 10:56:57 (3950)


[10:56]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Oft er það nú svo að við sem erum í stjórnarandstöðu hér á þingi erum ekki að tvínóna við það að gera ríkisstjórninni lífið leitt ef efni stendur til. Það væri út af fyrir sig freistandi að hefja hér umræðu um þetta mál og hafa uppi gagnrýni á þá dæmalausu málsmeðferð sem lýsir sér í flutningi þessarar tillögu í samhengi við málsmeðferð ríkisstjórnarinnar að öðru leyti. Ég hef hins vegar kosið að biðja um orðið í formi andsvars við hv. 1. flm. þessarar tillögu til að undirstrika það að ég ætla ekki og tel ekki eðlilegt, ekki tímabært fyrir Alþingi að fara að hefja víðtæka umræðu um þessi mál eins og þau nú standa. Og ég vil ekki vera að kasta olíu á þann eld sem varðar þessi mál með því að eiga hlut að slíku. Ég varð satt að segja alveg dolfallinn þegar ég sá að inn í þingsali kom frá tveimur hv. þm. Sjálfstfl. tillaga um hvalveiðar, sú sem hér er á dagskrá og hér er rædd, á sama tíma og eftir að hæstv. sjútvrh. hafði skipað fulltrúa frá öllum þingflokkum í nefnd, að því er ég skildi, með það að markmiði að reyna að ná þokkalegri samstöðu hér á Alþingi um stefnu í þessu máli.
    Mér finnast þetta slík endemis vinnubrögð af hálfu Sjálfstfl., sem birtast í þessari málafylgju, að ég á tæpast orð til að lýsa því, í svo stóru máli sem þessu, sem hvalveiðarnar eru fyrir okkur Íslendinga. Og ég vil lýsa andúð á þessum vinnubrögðum. Ég vil lýsa andúð á því viðhorfi að það geti líka bara verið ein nefnd, nýtingarnefndin, sjútvn., sem eigi að fjalla um þetta mál. Auðvitað varðar þetta mál ríkisstjórnina og forustu hennar númer eitt og síðan ýmsar nefndir þingsins sem þurfa að koma að því að skoða þetta mál.