Hvalveiðar

87. fundur
Fimmtudaginn 10. febrúar 1994, kl. 11:22:07 (3956)


[11:22]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ekki vil ég hafa af mönnum frelsi til að ræða þessi mál í þingsölunum hér og nú ef menn telja að það sé þessum málstað til framdráttar. En mér er enn meiri ráðgáta eftir þær ræður sem haldnar hafa verið hér, eftir ræðu hv. 1. flm. þessarar þáltill., hvert Sjálfstfl. er að fara með þessum málflutningi hér. Hér eru menn að viðra sjónarmið varðandi grundvallarþætti málsins og vegast á um þau, þingmenn Sjálfstfl., sem ber þó að formi til ábyrgð á hvalveiðimálum í Stjórnarráðinu. Hv. 3. þm. Reykv. er að lýsa hér yfir prinsippafstöðu til eins mjög stórs þáttar málsins að því er varðar hvers konar alþjóðasamtök séu bær til þess að bakka upp eða styðja við að við getum hafið hér hvalveiðar og síðan annar þingmaður flokksins sem er að herða á gagnstæðri skoðun í rauninni að því er varðar önnur alþjóðasamtök sem við höfum sagt okkur úr. Halda menn að einhverjum árangri verði náð í þessu máli af Íslands hálfu með svona málafylgju? Halda menn að einhverjum árangri verði náð í þessu máli með því að ábyrgir aðilar í ríkisstjórn Íslands, forsrh. landsins og sjútvrh. landsins, mæla í sína áttina hvor í þessu máli og eru að veifa greinargerðum frá lögfræðingum síns ráðuneytis hvor sem ganga þvert hver á aðra varðandi grundvallarþætti? Halda menn að árangri verði náð fyrir Íslands hönd í þessu máli með því að standa þannig að verki? Svo eru menn að vísa til Noregs og reynslu Norðmanna þar sem norska ríkisstjórnin, með forsætisráðherra landsins í fararbroddi, dregur vagninn í eina átt og hefur tekist að sameina þjóðina að baki sér. Menn ættu að líta þangað til þeirra reynslu og þeirra vinnubragða.