Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1991 og 1992

92. fundur
Fimmtudaginn 17. febrúar 1994, kl. 12:08:56 (4285)


[12:08]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það var sá þáttur í máli hv. síðasta ræðumanns sem varðar flutning ríkisstofnana út um landið sem fékk mig til að biðja um orðið. Ég tel það vissulega gott og gilt markmið að dreifa opinberri þjónustu víða með skynsamlegum hætti. En þær tillögur sem síðast liggja fyrir í þessu efni af hálfu stjórnvalda virðast ekki komast langt ef marka má það sem fram kom í máli síðasta ræðumanns og það sem við raunar vitum um þetta mál hér á Alþingi. Það sér afar lítið hilla undir það að staðið verði við það sem stjórnskipuð nefnd lagði til í þessum efnum og við ræddum hér fyrir nokkru síðan á Alþingi.
    Ég held að það þurfi að fara af skynsemi og yfirvegað í flutning heilla stofnana frá höfuðborg landsins og það verk þarf að vanda þegar það er gert. Ég hef haft meiri trú á því að við næðum árangri með því að flytja þjónustuþætti sem varða landshlutana sjálfa, alla landshluta, út til svæðanna, út í kjördæmin, efla þar þjónustu sem varðar þau svæði, þó svo við héldum ákveðinni miðstöð í höfuðborg landsins svona til samtengingar. Þarna hefðu menn þurft að taka miklu betur á heldur en verið hefur fram til þessa og þetta skiptir alla landsmenn mjög miklu máli, að á þessu sviði verði vel unnið. Á það skortir og ég tel að þeirri áherslu þurfum við að halda til haga á Alþingi. Minnst var á að tekin hefði verið tekin ákvörðun um eina stofnun, embætti veiðistjóra. Ég hef heyrt aðeins af því máli. Því miður virðist mér sem þar hafi verið heldur óhönduglega staðið að undirbúningi þó að markmiðið sé ágætt. Ég harma það að í því efni skulið málið ekki hafa verið kynnt bæði þeim sem í hlut eiga og öðrum hlutaðeigandi, þar á meðal hér á Alþingi áður en menn tilkynna ákvarðanir um slík efni.