Norræna ráðherranefndin 1993--1994

97. fundur
Fimmtudaginn 24. febrúar 1994, kl. 14:50:44 (4450)


[14:50]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er vissulega ánægjuefni hvenær sem hv. þm. Björn Bjarnason birtist hér til að lýsa sínum skoðunum á þróun alþjóðamála. Það er sérstaklega upplýsandi fyrir okkur að á Norðurlandaráðsþingi mátti ekki ræða um utanríkis- og öryggismál af tillitssemi vegna þess að menn voru svo hræddir við Rússa. Það var slík hlífð við Finna á þeim vettvangi sem menn voru ekki reiðubúnir til að ræða um utanríkismálin. Þetta eru nokkur tíðindi. Það getur vel verið að einhverjir ráðherrar hafi á bak við tjöldin gengið frá einhverju samkomulagi um slíkt, en ég fullyrði að um þetta var ekkert samkomulag að því er snertir Norðurlandaráðsþing. Það var ekki á þeim árum og það var áður en hv. þm. Björn Bjarnason kom á vettvang og var trúlega aðstoðarritstjóri Morgunblaðsins og iðinn við kolann á þeim vettvangi sem þessi mál voru til umræðu. Þar reiddu menn ekki fram, sem ekki þorðu að blóta á laun einu sinni á vettvangi Norðurlandaráðs, þær skýringar sem hv. þm. kemur upp með í ræðustól á Alþingi Íslendinga í febrúar 1994.