Fríverslunarsamtök Evrópu 1993

97. fundur
Fimmtudaginn 24. febrúar 1994, kl. 16:16:05 (4467)

[16:16]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að fjölga þessum efum sem hér voru uppi. Þau voru svo mörg í sambandi við Fríverslunarsamtök Evrópu. Eins og málum er nú háttað er ansi mikil þoka fram undan og kannski var þetta ein síðasta skýrslan sem flutt verður hér um EFTA sem samtök sem höfðu verulega þýðingu í okkar stöðu ef illa færi að því er Norðurlönd varðar. En við skulum samt vona að svo fari ekki og að Norðurlandaríkisstjórnirnar fái þau svör hjá þjóðum sínum sem nægi og verðug væru í sambandi við inngöngu í Evrópubandalagið. Það er skoðun sem tengist óvissri framtíð.
    Eitt atriði vildi ég nefna hér til viðbótar sem tengist skýrslunni. Það er undir liðnum Annað. Þar er vikið að hinu svokallaða kengúruhóp eða ,,The Kangaroo Group, The Movement for Free Movement`` --- sem er eitt sérkennilegasta heiti sem ég hef heyrt á samtökum --- og vinnur að frjálsum flutningum á sem flestum sviðum innan Evrópu. Þetta er greinilega hin athyglisverðustu samtök og hafa ekki lítið starfssvið. Þar er vikið að ráðstefnu sem haldin var hér í maí á liðnu ári og segir um það orðrétt: ,,Kengúruhópurinn hélt mjög vel heppnaða ráðstefnu í Reykjavík . . . ``
    Ég vil bara nefna það að ég heyrði það eftir á á erlendum aðilum sem tengdust þessum fundi að þeir hefðu talið að í rauninni hefði áhugi á þessari ráðstefnu af Evrópubandalagsins hálfu verið afskaplega lítill og voru að harma það. Það getur verið að ráðstefnan hafi borið sig uppi sjálf þrátt fyrir þetta og þetta hafi allt saman verið mjög vel heppnað. Ég vildi aðeins geta um þetta vegna þess að svona sterkt er til orða tekið um þessa ráðstefnu kengúruhópsins.