Bætur vegna samninga um riðuveiki

99. fundur
Mánudaginn 28. febrúar 1994, kl. 15:35:33 (4498)


[15:35]
     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Á þskj. 601 ber ég fram til hæstv. landbrh. fsp. um bætur vegna samninga um riðuveiki 1980--1985. Fyrirspurnin er svohljóðandi:
  ,,1. Getur landbúnaðarráðherra upplýst hvort þeir ábúendur á lögbýlum, sem förguðu sauðfé eða misstu stóran hluta bústofns á árunum 1980--1985 af völdum riðuveiki, hafi sætt öðrum og verri kjörum en síðar varð?
    2. Um hversu mörg tilvik af slíku tagi er ráðuneytinu kunnugt?
    3. Er þess að vænta að landbúnaðarráðuneytið styðji einstaka bændur sem kunna að hafa farið illa út úr samningagerð á þessum árum til að ná rétti sínum?``
    Tilefni þessarar fsp. eru kvartanir sem fram hafa verið bornar, m.a. við þann sem hér talar, um það að misjafnlega hafi verið haldið á þessum málum milli ára á nefndu tímabili og fyrirmæli og ákvarðanir af hálfu landbrn. og hlutaðeigandi stjórnvalda hafi verið mismunandi og óskýr þannig að bændur áttu erfitt með á þessum tíma að átta sig á því í rauninni hver var réttur þeirra. Það virðist svo sem að á þessum tíma hafi verið haldið misjafnlega á málum, jafnvel milli einstakra ára. Ég þekki dæmi um ábúanda sem engar bætur fékk og var ekki ljós neinn réttur í því máli og þegar málið var upp tekið af hálfu hans með millgöngu héraðsdýralæknis þá voru þau svör fram reidd að hann hefði engan rétt í þessu máli, það væri ekkert fyrir hann hægt að gera. Nágranni hans hafði áður fengið bætur, að vísu voru bætur á þessum tíma lakari en síðar varð, hálfar skattmatsbætur eða svo, en það er fyrst upp úr 1987 sem nokkuð fastar reglur fara að gilda um þessi efni og telja verður að sæmilega hafi verið skipt við bændur sem þurftu að farga bústofni sínum vegna riðuveiki eftir þann tíma.
    Ég vænti þess að hæstv. ráðherra geti varpað ljósi á þessi mál og um hversu mörg tilvik landbrn. er kunnugt og alveg sérstaklega hvort ráðuneytið væri reiðubúið til þess að fara ofan í þessum mál með jákvæðum hætti til þess að fá úr því skorið hvort ekki sé réttmætt að veita þeim úrlausn sem illa fóru út úr málum vegna óskýrrar stöðu sinnar á þessu tímabili.