THORP-endurvinnslustöðin fyrir geislavirkan úrgang

101. fundur
Miðvikudaginn 02. mars 1994, kl. 13:54:45 (4706)



[13:54]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. viðbrögð hans og svar við fyrirspurn minni. Ég tel að það sé svo mikið í húfi hér að ekkert annað heldur en mjög hörð og e.t.v. óhefðbundin viðbrögð eigi við. Ég minni í þessu sambandi á grein sem birtist í Morgunblaðinu 29. jan. sl. eftir Davíð Ólafsson, fyrrv. hv. þm. og seðlabankastjóra, þar sem hann ræddi þetta stóra mál og bar það saman við landhelgisdeilu okkar við Breta. Hann sagði í niðurlagsorðum, með leyfi forseta:
    ,,Engin þjóð á eins mikið undir því komið að kjarnorkustöðin THORP verði ekki virk til frambúðar. Hingað til hafa Bretar ekki tekið tillit til mótmæla okkar og nokkurra þjóða sem telja sér hættu búna af þessari starfsemi. Við það má ekki sitja.`` Og að lokum segir hann: ,,Hér er mikið verk að vinna og sú skylda hvílir á okkur sem þeirri þjóð sem mest á í húfi að taka forustuna og fá aðrar þjóðir til liðs við okkur. Þetta er mál sem þolir enga bið.``