Náttúruvernd

102. fundur
Fimmtudaginn 03. mars 1994, kl. 17:00:35 (4787)


[17:00]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það var sannarlega vel til fundið hjá hv. síðasta ræðumanni að draga Mahatma Gandhi inn í málið, þar sem hann sat klæðlítill og hugsaði og hafði vissulega sín pólitísku áhrif. En það má segja að það sé skilið ósköp svipað við Náttúruverndarráð og raunar þá sem er ætlað að taka hér á málum að því er varðar aðbúnað, að því er varðar fjármagn, eins og búið var að Mahatma Gandhi á sínum tíma.
    En það sem fékk mig til að koma hér upp vegna ummæla hv. þm. eru furðulegar og staðlausar staðhæfingar hans þess efnis að það sé verið að færa stjórnsýsluþáttinn sérstaklega inn í umhvrn. umfram það sem verið hefur. Það er kannski það verkefni að umhvrh. sjálfur eigi að fara að sinna stefnumótun og að ganga í hólf og gólf frá tillögum um friðlýsingar. Er það það sem þingmaðurinn á við? Að hvaða leyti öðru er verið að færa stjórnsýsluþáttinn inn í umhvrn. frá því sem áður var? Enda er svo sem erfitt að sjá hvernig á að hlaða einhverjum viðbótum á það, samkvæmt því sem stendur hér í mati fjmrn. með uppáskrift hæstv. umhvrh., í sambandi við fjárveitingar. Það er ekki að sjá nokkurn skapaðan hlut til viðbótar, ekki nokkurn skapaðan hlut. Það á að gæta þess að það fljóti ekki króna að auki af borði í þeim efnum.
    Hv. þm. var að tala um Náttúruverndarráð sem fengi þarna aukin áhrif. Hvernig er búið að þessu Náttúruverndarráði? Hvernig er búið að því samkvæmt þessum tillögum? Ég held að þingmaðurinn ætti að skoða þetta efnislega áður en hann kemur hér upp með staðhæfingar af þessum toga.