Varnir gegn mengun hafsins

116. fundur
Miðvikudaginn 23. mars 1994, kl. 13:45:16 (5565)


[13:45]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Með þessari till. til þál. er gerð tillaga um heimild til ríkisstjórnarinnar að staðfesta fyrir Íslands hönd breytingar á samningi frá 1972 um varnir gegn mengun hafsins vegna losunar úrgangsefna og annarra efna í það sem gerðar voru í Lundúnum 12. okt. 1978. Ég vil vekja athygli á því að frá því að þessi breyting er gerð eru liðin ein sextán ár, ef ekki seytján og sýnir það hver seinagangur er í því að afstaða sé tekin til ákvæða alþjóðasamninga sem þessara, eða breytinga á samningum og þetta meginefni sem hér er verið að breyta, eða breytt var 1978, svo sem hæstv. utanrrh. er hér að leita eftir staðfestingu á og ríkisstjórnin, þá eru þar tekin inn ákvæði sem varða deilur, segir í greinargerð sem hæstv. ráðherra hafði nú ekki fyrir að lesa í sinni stuttu framsöguræðu, að breytingarnar feli í sér að 11. gr. samningsins sé breytt þannig að samningsaðilum er gert kleift að vísa deilum um túlkun á framkvæmd samningsins til Alþjóðadómstólsins eða til gerðardóms. Það hefur tekið íslensk stjórnvöld sextán ár að gera það upp við sig hvort það eigi að staðfesta þetta ákvæði frá 1978.
    Þetta er sem betur fer kannski ekki alveg dæmigert fyrir meðferð mála að því er varðar alþjóðasamninga á sviði umhverfismála og heldur hefur það færst til betri áttar hin seinni ár að leitað sé staðfestingar á ákvæðum slíkra samninga, og sem betur fer því að á því er mikil þörf að menn reyni að styrkja alþjóðakerfið að því er þetta varðar.
    Fyrir utan það að vekja athygli á þessu atriði, hæstv. forseti, þá vildi ég af þessu tilefni nefna ákvæði svipaðs eðlis og hér er verið að vísa til og leita eftir staðfestingu á, þ.e. um gerðardóm í deilum út af brotum gegn ákvæðum samninga er varða mengun, vísa til Parísarsamþykktarinnar frá 1974, þar sem er að finna ákvæði um gerðardómsmál en Parísarsamþykktin varðar mengun sjávar frá landstöðvum og hefur verið mjög til umræðu hér á Alþingi og víðar vegna fyrirhugaðrar starfrækslu THORP-endurvinnslustöðvarinnar við Sellafield á Bretlandi. Í þeirri samþykkt er að finna allítarleg ákvæði um gerðardómsmeðferð. Ég tók þetta mál upp í tengslum við þing Norðurlandsráðs sem haldið var fyrir hálfri annarri viku síðan og beindi þar fyrirspurn til umhverfisráðherra Norðurlanda, norrænu ráðherranefndarinnar og umhverfisráðherranna þá sérstaklega, um viðbrögð við THORP-endurvinnslustöðinni og fyrirhugaðri gangsetningu hennar eftir að dómur féll breskum stjórnvöldum í vil þannig að þessi stöð hefur þegar hafið starfsemi eða er í þann veginn að hefja starfsemi. Það var raunar gert ráð fyrir því að það gæti orðið 18. mars. Ég hef ekki aflað mér upplýsinga um það síðustu daga hvort þessi starfræksla er farin af stað.
    En rétt fyrir Norðurlandaráðsþingið þá áttum við hæstv. utanrrh. orðaskipti um það á Alþingi til hvaða ráðstafana íslensk stjórnvöld mundu grípa ef á þetta reyndi og dómur sem höfðaður var gegn stjórnvöldum félli breskum stjórnvöldum í vil þannig að hindrunum væri rutt úr vegi fyrir starfrækslu þessarar stöðvar sem samkvæmt ályktun Alþingis ógnar lífsgrundvelli þessara þjóða. Og á Norðurlandaráðsþingi spurði ég norræna ráðherraráðið um það til hvaða ákveðinna aðgerða það hygðist grípa og hvort það m.a. mundi taka upp eða fara í gerðardómsmál gegn Englandi í samræmi við ákvæði Parísarsáttmálans. Og mér voru það vonbrigði að í svarinu frá ráðherraráðinu töldu þeir sig ekki hafa aðstöðu til þess eða þeir mætu það svo að þeir mundu ekki fara í slíka málssókn samkvæmt Parísarsamþykktinni og báru við að Stóra-Bretland hefði gert fyrirvara við breytinguna sem gerð var á Parísarsamþykktinni á fundinum í Berlín í júní 1993. Með vísan til þess ráða þeir frá þessu. Nú hef ég ekki farið ofan í röksemdir eða fengið nánari röksemdir fyrir þessari niðurstöðu ráðherranefndarinnar og veit ekki hvort um hana var ágreiningur eða samkomulag. Sá sem svaraði, sænski umhverfisráðherrann, Olof Johansson, talaði í nafni umhverfisráðherranna án fyrirvara þannig að ég geri ráð fyrir að íslenski ráðherrann hafi þá staðið að þessu líka.
    En ég vildi nota þetta tækifæri, hæstv. forseti, og vona að það verði ekki talið á svig við þá umræðu sem hér fer fram þar sem um svo náskyld efni er að ræða í rauninni, gerðardómsákvæði í alþjóðasamþykkt sem varðar mengun hafsins að inna hæstv. utanrrh. eftir því hvort hann hafi fyrir sitt leyti lagt mat á þetta efni sem ég vek hér athygli á að því er varðar Parísarsamþykktina og gerðardómsmeðferð. Jafnframt vil ég inna hæstv. ráðherra eftir því hvort hann geti nú sagt Alþingi eitthvað um það hvernig hann hyggist bregðast við í ljósi ákveðinna yfirlýsinga og jákvæðra undirtekta sem komu fram af hálfu ráðherrans snemma í þessum mánuði hér á Alþingi.