Varnir gegn mengun hafsins

116. fundur
Miðvikudaginn 23. mars 1994, kl. 14:05:16 (5571)

[14:05]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil á sama hátt og hv. 15. þm. Reykv. þakka hæstv. utanrrh. fyrir viðbrögð hans hér við mínu máli að því er snertir viðbrögð af hálfu íslenskra stjórnvalda við THORP-endurvinnslustöðinni. Ráðherrann sagði eitthvað á þá leið að þetta mál væri mjög alvarlegt milliríkjavandamál og það er ekki of fast að orði kveðið. Og þegar slík mál eru uppi þarf að sjálfsögðu að taka á þeim með viðhlítandi hætti. Ég skil vel að menn noti tækifærið þegar hæstv. umhvrh. er í opinberri heimsókn til þess að taka þessi mál upp við bresk stjórnvöld og ég treysti því að í framhaldi af heimsókn hæstv. utanrrh. og heimkomu, þá taki íslenska ríkisstjórnin, hæstv. utanrrh., hæstv. umhvrh. og aðrir sem í ríkisstjórninni sitja á málinu í ljósi þeirrar stöðu sem fyrir liggur eftir heimkomu umhvrh.
    Ég tók eftir því að á þingi Norðurlandaráðs, sem ég gat lítillega um, en þar bar þessi mál talsvert á góma og við tveir þingmenn úr Íslandsdeildinni, eins og hún er kölluð, tókum þessi mál með fyrirspurnum, en þess utan ræddi hæstv. forsrh. málið sérstaklega í ræðu sem hann flutti þar áður en hann hélt heim á leið. En við sem hlýddum á ræðu hæstv. forsrh. fyrir hönd forsætisráðherra Norðurlanda tókum eftir því að ekki var vikið að þessari stöð sérstaklega heldur mjög almennt að hættunni af endurvinnslu á kjarnorkuúrgangi. Og það má segja að á þinginu í gegnum ræðuhöld og svör við fyrirspurnum koma þær brotalamir í ljós sem eru milli Norðurlanda í þessu alvarlega máli og sem raunar hafa áður komið fram að því er varðar afstöðu til kjarnorkuiðnaðar og endurvinnslu og mengunar vegna kjarnorkuvinnslunnar. Það er dapurleg staðreynd en við Íslendingar hljótum engu að síður að verja okkar þjóðarhagsmuni og leita liðsinnis við okkar málstað hvar sem er. Og eins og fram kom hjá hv. 15. þm. Reykv. hér áðan, þá var svona smáundanlát að merkja í svari danska umhverfisráðherrans, Svends Aukens að því er varðaði hugmyndina um sérstakan aukafund í Parísarnefndinni um þetta mál þar sem ekki var lokað leiðum á að ríkisstjórnirnar sem leitað var eftir stuðningi hjá við fyrirspurninni kynnu að meta málið þó að ekki væri um jákvætt svar að ræða á þeirri stundu.
    Ég ætla, virðulegur forseti, ekki að segja meira um þetta mál. Það hlýtur að bera hér á góma fljótlega á ný á Alþingi. Ég met það svo að þess sé að vænta að íslensk stjórnvöld taki þetta mál í ljósi þeirrar alvöru sem að baki býr.