Héraðsskógar

116. fundur
Miðvikudaginn 23. mars 1994, kl. 14:21:28 (5575)


[14:21]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. landbrh. fyrir það afrek að hafa komið böndum á samstarfsflokkinn í þessu máli þó ekki sé það kannski stórt í sniðum og jafnstórt og önnur efni sem undir hæstv. ráðherra falla, sem hann hefur mátt þreyta glímu út af. En engu að síður er á ferðinni mál sem er mjög gott að er fram komið og væntanlega verður eining um úr því sem komið er að afgreiða og lögfesta hér á yfirstandandi þingi. Þó að þessi breyting, það má kannski segja þessi litla breyting á lögum frá 1991 um Héraðsskóga, láti ekki mikið yfir sér og sé ekki talin hafa kostnaðarauka í för með sér miðað við upphaflega kostnaðaráætlun vegna Héraðsskóga þar sem gert var ráð fyrir því að eyðijarðir féllu undir áætlunina með sama hætti og bújarðir eða jarðir í ábúð, þá getur það eins og hér hefur komið fram haft verulega þýðingu að þarna verði jafnræði á hvað landið snertir og möugleika til að nýta það til skógræktar undir þessum lögum. Og eins og ráðherrann réttilega nefndi í sinni ræðu hefur það auðvitað áhrif á ásýnd landsins og umhverfi að hægt sé að hafa eðlilega samfellu á þeirri ræktun sem efnt er til á grundvelli laganna um Héraðsskóga.
    Það er ánægjuefni að unnið hefur verið á grundvelli gildandi löggjafar, að mörgu leyti þannig að til fyrirmyndar má telja að því er snertir undirbúning og athugun á eðliskostum landsins, umhverfi og öðru sem varðar gott skipulag á framkvæmdum áður en í þær er ráðist. Þannig hefur að ég best veit og eftir því sem ég hef getað kynnt mér verið staðið að málum mjög svo til fyrirmyndar af þeim starfsmönnum sem að verkinu vinna og mönnum sem leitað hefur verið eftir aðstoð hjá sérstaklega með tilliti til landkosta og þeirra atriða sem gefa þarf gaum að áður en skógur er settur niður í land til ræktunar. Því að vissulega er það svo að skógurinn breytir, og yfirleitt má segja að hann breyti til bóta svona á heildina litið. En þarna er ýmissa þátta að gæta þar á meðal menningarminja í landi sem skógur getur auðveldlega raskað þannig að á sjái og ekki sé hægt að varðveita þær eða rannsaka síðar. M.a. hefur verið gefinn gaumur að þessum þætti í undirbúningi að plöntun á vegum Héraðsskóga. Í þessu sambandi má nefna það að svo hefur því miður ekki alltaf verið og er skemmst að leita til sjálfra Þingvalla, í sjálfa þinghelgina okkar þar sem menn settu niður trjáplöntur inn í þinghelgina, innan um fornminjar sem ekki hafa verið rannsakaðar enn í dag, og þar sem augljóst er að þær plöntur og tré sem hafa vaxið þar upp í þinghelginni hafa óhjákvæmilega spillt rústum sem trén standa á og ræturnar leita víða. Ég nefni þetta bara hér til þess að menn átti sig á að þarna er atriði sem gæta þarf að við ræktun, einnig við skógrækt, þ.e. minjaverndin og fornminjar í jörðu. Hef ég raunar komið að því máli á sínum tíma innan Þingvallanefndar og vonandi verður

við því efni brugðist eins og tillögur um skipulag sem samþykktar voru af Þingvallanefnd árið 1988 kveða á um að því er Þingvelli varðar. En þó held ég að það sé ekki samt enn búið að grípa til eðlilegra ráðstafana í ljósi þeirra samþykkta sem þar um ræðir. Um það ætla ég ekki að fjalla hér frekar.
    Ég hlýt að nefna það hér af því að hv. 2. þm. Austurl. vék að sinni lífsreynslu að vera vaxinn úr grasi á berangri, ef ég skildi mál hans rétt, þ.e. í hinum víða Skagafirði þar sem lítið er um skóga. Ég get ekki vitnað með sama hætti. Ég varð þess aðnjótandi að vaxa upp í skóglendi og virða fyrir mér landið út frá þeim sjónarhóli eða út frá þeim aðstæðum skulum við segja og undrast það í æsku að koma út fyrir skóginn og sjá það mjög óeðlilega strípaða land sem þar gaf að líta. Þetta er ólíku saman að jafna og mikil reynsla fyrir hvern sem fyrir verður, ekki síður en fyrir hv. 2. þm. Austurl., sem nú er kominn inn í myrkviðina á Héraði og farinn að njóta þeirrar sældar og skjóls sem því fylgir að vera í skógi eða nærri skógi.
    Nú skulum við vænta þess að sú breyting sem hæstv. landbrh. leggur til með lögunum fái góðan framgang. Og þó að samstarfsflokkurinn hafi þurft svona langan umhugsunartíma til að gefa hæstv. ráðherra grænt ljós þá vil ég ekki trúa því að hann láti sig henda það að standa frekar í vegi fyrir þessu máli heldur en orðið er og skal þá segja sem fornkveðið er að batnandi manni er best að lifa og þyrfti það raunar að vera á fleiri sviðum.
    Um þetta efni mætti vissulega margt segja en ég ætla ekki að lengja mál mitt mikið meira, virðulegur forseti. Ég var á ráðstefnu á mánudaginn var og þar var fjallað um mjög merkt málefni sem Alþingi þarf að láta til sín taka fyrr en seinna, þ.e. um innflutning á plöntum til landsins. Þessi ráðstefna, sem haldin var af nokkrum samtökum, með Líffræðifélag Íslands í fararbroddi, var vörðuð af tveimur ráðherrum, ráðherra umhverfismála og ráðherra landbúnaðarmála. Hinn fyrri setti ráðstefnuna og sá síðarnefndi sleit þinginu. Það er einmitt þannig sem þessir hæstv. ráðherrar þurfa að leggjast saman á árar í sambandi við þá málaflokka sem snerta ráðuneytin bæði. Ég ætla að vona að það láti á gott vita og ekki síður það sem voru lokaorð hæstv. landbrh. á þeim fundi í hans máli, þar sem hann fjallaði um viðfangsefnið og greindi frá sinni sýn til mála og endaði sína ræðu á orðunum: Íslandi allt.