Þjóðminjalög

118. fundur
Fimmtudaginn 24. mars 1994, kl. 11:03:50 (5623)


[11:03]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Við heyrum hér frá hæstv. ráðherra að hann hefur í rauninni enga stefnu varðandi þetta efni hvenær nýta ætti heimildirnar sem verið er að leita eftir innan rammans til ársloka 1997. Það kallar enn frekar á það að þingið kveði með skýrum hætti á um þessi efni, hvernig þessi stefna skuli útfærð því að þetta var að mínu mati eitt af þýðingarmestu atriðunum í endurskoðun þjóðminjalöggjafarinnar síðast. Það var að tryggja að í skilgreind minjasvæði kæmu menntaðir starfsmenn sem hefðu þau verkefni að vinna þar að þjóðminjavörslunni og það er í rauninni alveg dæmalaust að nú eftir að þessi lög hafa verið í gildi í nokkur ár skuli ekki hafa verið ráðið í eina einustu stöðu. Ekki í eina einustu stöðu.
    Menn eru hér oft að tala um að flytja verkefni út á land og belgja sig út með tillögum og fyrirheitum um þau efni hér á Alþingi. En hvað þegar til kastanna kemur? Og hvað er eðlilegra sem verkefni heldur en þetta menningarsvið sem hér um ræðir sem verkefni úti í hinum dreifðu byggðum? Því hvet ég eindregið hv. menntmn. og hæstv. ráðherra meðan hann gegnir sínu embætti til að ráða á þessu bót og sýna hug í verki að því er snertir þjóðminjavörsluna innan skilgreindra minjasvæða. Ég held út af fyrir sig að það væri eðlilegt markmið að miða við kjördæmi í aðalatriðum. Ég geri mér ljóst að höfuðborgarsvæðið er svolítið öðruvísi vaxið og mætti kannski hafa það með eitthvað öðrum hætti, en í aðalatriðum að miða við kjördæmi. Ég spái því að ef menn ætla að fara að halda þessu opnu þá verði uppi kröfurnar um minni einingar í þeim efnum og fleiri minjaverði heldur en því nemur og þá gæti orðið drátturinn á að fá starfsmenn.