Mótmæli Íslendinga við THORP-endurvinnslustöðinni

123. fundur
Miðvikudaginn 06. apríl 1994, kl. 13:57:27 (5812)


[13:57]

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ja, voru það nú viðtökur sem hæstv. umhvrh. fékk við málstað okkar á breskri grund. Var ráðherranum ljóst að í þetta stefndi þegar hann þiggur að fara í opinbera heimsókn til Bretlands og fær ekkert nema snurpur og neikvæðar undirtektir við lífshagsmunamáli Íslendinga? Það sem hæstv. ráðherra segir okkur hér er að hann hafi skrifað og skrifað, fengið neitandi svör og það sé ekkert annað að gera en halda uppi hefðbundnum þrýstingi. Mér finnst satt að segja heldur lítið leggjast fyrir hæstv. umhvrh. í þessu máli. Ég er ekki að gera lítið úr þeirri viðleitni sem uppi hefur verið höfð, en ég tel að nú séu þáttaskil í þessu máli og íslenska ríkisstjórnin verði að taka til annarra ráða heldur en að senda bréf og taka við neikvæðum svörum. Ég minni á samhljóða ályktun Alþingis Íslendinga 17. des. sl. í þessu máli og ég geri kröfu til þess að hæstv. umhvrh. manni sig upp og geri aðrar tillögur til ríkisstjórnarinnar um málið. Og ég treysti því að ríkisstjórnin, og ef ekki umhvrh. þá aðrir í ríkisstjórninni, sjái til þess að á þessu máli verði tekið í ljósi þeirrar stöðu sem nú er uppi.