Mótmæli Íslendinga við THORP-endurvinnslustöðinni

123. fundur
Miðvikudaginn 06. apríl 1994, kl. 14:00:19 (5814)


[14:00]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það er annarra að glíma við árangurinn af viðleitni okkar í Alþb. til að ala upp núv. hæstv. umhvrh. og ég vona að þeir gefist ekki upp þrátt fyrir það sem hér hefur verið sagt. En ég vil segja það að ég tel að staða málsins, staða þessa máls, sé slík núna að íslenska ríkisstjórnin og þá aðrir en hæstv. umhvrh., þó treysti ég því að hann taki þar undir með mönnum, taki til ráða sem tekið verður eftir og tekið verður mark á af breskum stjórnvöldum. Og það er ekki með því að senda fleiri bréf og umkvartanir af þessum toga.
    Ég tók eftir því að hæstv. forsrh. sá ástæðu til að fara sérstaklega í stólinn á þingi Norðurlandaráðs vegna þessa máls og minna á það þar. Og ég vænti þess að hæstv. forsrh. eigi eftir að hafa forustu um að það verði tekið á þessu máli af íslensku ríkisstjórninni og þá með fulltingi utanrrh. þegar hann kemur heim eða þess sem er settur í hans stað því það má ekki dragast að tekið verði á þessu máli þannig að bresk stjórnvöld átti sig á því hvað Íslendingar og Alþingi meina með því að um sé að ræða lífshagsmuni þessarar þjóðar.