Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

131. fundur
Miðvikudaginn 13. apríl 1994, kl. 22:58:39 (6302)


[22:58]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég dreg ekkert í efa það sem kom nú fram hjá hv. 6. þm. Reykv., þ.e. að allshn. undir hennar forustu hafi lagt sig fram um að líta á málið og kalla eftir sjónarmiðum. En mér fannst búa mjög lítill sannfæringarkraftur á bak við tillögurnar í máli hv. þm. eins og hún flutti það áðan og reyndar fyrr í sambandi við þessa umræðu. Mig grunar að í rauninni sé ekki rík sannfæring hjá þingmanninum og mörgum fleirum sem hafa þó látið sig hafa það að taka undir þessa tillögu sem frá Alþfl. er runnin, alþýðuflokksráðherrunum tveimur.
    Auðvitað mátti heyra áhyggjurnar hjá hv. 6. þm. Reykv. Áhyggjurnar um það hvort hér væri í rauninni verið að stefna í rétta átt. Ég skynjaði það svo og ég deili þeim áhyggjum. En við skulum vona ef þetta verður að lögum að það fari ekki á hinn versta veg. Ég er ekkert að segja að það þurfi að gerast einhver stórslys. En ég tel að það sé afar misráðið sem hér er verið að ákveða.