Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

133. fundur
Föstudaginn 15. apríl 1994, kl. 10:46:46 (6370)


[10:46]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Eins og fram kemur í áliti meiri hluta allshn. og minni hluta umhvn. um þetta mál hafa engin viðhlítandi fagleg rök verið færð fyrir þeirri breytingu sem hér er lögð til í sambandi við Hollustuvernd ríkisins og þau málefni sem snerta heilbrigðiseftirlit að flytja það frá heilbrrn. til umhvrn., þar á meðal reglugerðir á þessu sviði sem snerta salerni, gistihús, matsöluhús og veitingastaði, rakarastofur, hárgreiðslustofur, nuddstofur og hvers konar aðrar snyrtistofur og margt fleira sem undir heilbrigðiseftirlit heyrir. Ég undrast það mjög að þetta skuli valið af hæstv. umhvrh. að taka við þessum málaflokki og enn frekar undrast ég að hæstv. heilbrrh. skuli telja það að málefni sem snerta jafnnáið heilbrigði mannsins skuli afhent frá heilbrrn. yfir til umhvrn. Það er margt annað sem þarf að gera til að efla umhvrn. áður en þessi breyting ætti að ná fram að ganga. Ég segi nei við þessu.