Vegalög

140. fundur
Mánudaginn 25. apríl 1994, kl. 15:47:44 (6550)


[15:47]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Þetta frv. til vegalaga er komið til 3. umr. og hér er kynnt brtt. sem ég ætla ekki að gera sérstaka athugasemd við. Efni greinarinnar er skynsamlegt sýnist mér og tímabært en þar er verið að flytja til gildistökuákvæði sem kannski er ekkert óeðlilegt miðað við efni máls.
    En það sem ég vildi gera að umtalsefni er frekar það sem ég vakti athygli á við 2. umr. málsins, atriði sem ég hafði vænst að hv. samgn. mundi taka til endurskoðunar eða a.m.k. rökstyðja frekar, hvers vegna hún ekki kveður öðruvísi á um heldur en frv. gerir ráð fyrir samkvæmt brtt. nefndarinnar. Fyrsta atriðið varðar III. kafla frv. þar sem verið er að taka upp nýja skilgreiningu og ný heiti á flokkun þjóðvega eftir tilteknum reglum sem markaðar eru skv. 8. gr. Ég verð að segja að mér finnst það afskaplega óheppilegt þegar verið er að grauta í málum af þessum toga með þeim hætti sem hér er gert og breyta um nafngiftir eins og hér er lagt til, sérstaklega með tilliti til þess að þetta eru mál sem verulegur áhugi er á hjá fólki, a.m.k. í dreifbýli og á því sem við köllum landsbyggð, þ.e. vegamálin, fjárveitingar til þeirra og hvernig þokar fram. Það er illa til fundið að vera að breyta til um nafngiftir og flokkun á vegum vegna þess að það gerir lítið annað en að rugla fólk í ríminu. Þá á ég við ef það er gert að þarflausu og ekki er betra ef valdar eru þær nafngiftir sem eru að mínu mati næsta órökréttar miðað við efni máls. Mér finnst að það hafi ekkert verið ofætlan hv. samgn. að fara yfir það efni og koma fram með skynsamlegri tillögur því í samgn. er mikið úrvalslið úr öllum þingflokkum sem hefði áreiðanlega ekki orðið skotaskuld úr því ef nefndin hefði viljað fara yfir málin út frá þessu sem ég er að ræða og reyna að komast að skikkanlegri niðurstöðu en er að finna samkvæmt þessum tillögum.
    Ég ætla aðeins að fara frekar yfir þetta, virðulegur forseti, um leið og ég minni á að sú flokkun sem við höfum notað hingað til, aðalflokkun á þjóðvegum í stofnbrautir og þjóðbrautir, er fólk í landinu svona rétt að átta sig á á hverju byggir, þeir sem á annað borð láta sig vegaframkvæmdir og vegamál einhverju varða.
    Í 8. gr. er gerð tillaga um að þjóðvegum skuli skipað í stofnvegi, tengivegi, safnvegi og landsvegi. Í fjóra flokka. Það væri fróðlegt að spyrja hv. þm. að því hvernig þeir telji að aðalbrautir og hliðarvegir og útskot í landinu flokkist eftir þessum nafngiftum. Það væri gaman að gera hér, án þess að menn hefðu frv. fyrir framan sig, könnun á því í hvaða flokka menn mundu raða þeim vegum sem hingað til hafa verið flokkaðir með öðrum hætti samkvæmt vegáætlun og gildandi lögum. Ég er hræddur um að ekki mundi allt lenda í þann flokk sem frv. gerir ráð fyrir og kæmi þá í ljós hversu órökrænt er hér haldið á máli að því er þetta varðar.
    Landsvegir. Ætli það væri ekki að mati alþýðufólks, alþýðu manna, taldir aðalvegirnir sem bæru það heiðursheiti að teljast landsvegir, meginbrautirnar. Við skulum athuga hins vegar hvert innihaldið er samkvæmt greininni. Ég leyfi mér, virðulegur forseti, að vitna til frv.:
    ,,Til þessa vegflokks skal telja þjóðvegi sem ekki tilheyra neinum af framangreindum vegflokkum.``
    Þetta er sem sagt úrkastsflokkur, það sem ekki passar inn í annað. --- ,,Þar er um að ræða vegi yfir fjöll og heiðar, þar á meðal vegi sem tengja saman landshluta,`` --- yfir fjöll og heiðar, mitt innskot, ,,vegi innan þjóðgarða og vegi að fjölsóttum ferðamannastöðum.``
    Það eru landsvegir, hv. formaður samgn., sem ber ábyrgð á þessum tillögum frá nefndinni. Þetta eru landsvegir. Vegarstúfurinn innan þjóðgarðsins í Skaftafelli, virðulegur forseti, frá afleggjaranum að þjónustumiðstöð og upp að hæðum í Skaftafelli er samkvæmt þessum tillögum orðinn landsvegur. Það er nú ekkert minna, hann er orðinn landsvegur. Við skulum ætla að ýmsir kynnu að gleðjast því það væri þá von til að eitthvað meira fjármagn kæmi þennan veg og hann er þá í sama flokki og allt sem við höfum talið til fjallvega hingað til. Það sem við höfum talið til fjallvega eru orðnir landsvegir. Kjalvegur sem hv. formanni samgn. eflaust er kær leið og mörgum fleiri. Mér hefur þótt hann að vísu heldur ófríður nyrðri parturinn, ekki sérstaklega fríður. Þar sem kemur yfir í kjördæmi formanns samgn. finnst mér ekki mjög svipmikið landslag, en hins vegar þegar sunnar kemur gleður það meira augað heldur en ræktarlendur Landsvirkjunar í 600 m hæð á heiðunum sem við ræddum mikið um í gamla daga, bæði utan þings og innan, þegar við hv. formaður samgn. sátum saman í ríkisstjórn og rætt var um virkjanir. En ég ætla ekki að ræða það frekar í tengslum við þetta frv., virðulegur forseti.
    Ég vildi vekja athygli á þessari kostulegu nafngift sem samgn. leggur til, að tillögu Vegagerðar ríkisins væntanlega og hæstv. samgrh., sem er ekki viðstaddur hér þessa umræðu en hefði verið fróðlegt að vita hvort hann hefði komið að þessu máli. Ég hef litið svo til að hæstv. samgrh. hefði áhuga á íslensku máli einnig í tengslum við sinn málaflokk. Ég spyr hæstv. samgrh.: Finnst honum skynsamlegt að setja vegi og vegstúfa í þjóðgörðum landsins undir heitið landsvegir? Veginn innan þjóðgarðsins í Skaftafelli, frá afleggjara að þjónustumiðstöð og upp í hæðir, líklega tæpa 2 km. Það er orðinn landsvegur samkvæmt þessu frv. sem og allir fjallvegirnir.
    En ekki tekur mikið betra við þegar litið er til annars flokks sem heitir safnvegir. Hvaða vegir skyldu það vera, hæstv. samgrh., sem heita safnvegir? Það fyrsta sem manni dettur í hug í sambandi við þá nafngift, virðulegur forseti, er að þessir safnvegir séu fornar götur, fornar reiðgötur trúlega sem samgn. sé að leggja til að haldið verið til haga sem safngripum. ( GunnS: Er það ekki ágætt?) Hér kallar fram í hv. 5. þm. Austurl., séra Gunnlaugur Stefánsson, hv. þm. kallar fram í og telur þetta eðlilegt en ég er ekki alveg viss um að formaður heilbrn. hafi sett sig inn í málið sem er til umræðu. Ég er ekki alveg viss um það ef marka má hans frammítöku en það getur vel verið að hann hafi skoðun á þessu og vilji flytja brtt. við málið og þá hlýtur hún að koma fram undir umræðunni. En það er ekki svo að safnvegir séu fornar reiðgötur eða fyrstu akslóðar, sem vissulega gæti verið full ástæða til þess að vernda því það eru síst ómerkari minjar en margt það sem menn eru að taka til sérstakrar verndunar. Vegna hv. 5. þm. Austurl. má minna á mjög merkar minjar eftir fyrstu vegina innan hans sóknar sem lagðir voru í kringum 1890 af þeim mikla vegmeistara, Jóni Finnbogasyni, sem verkstjóra á póstleiðinni gömlu yfir Breiðdalsheiði og Berufjarðarskarð. Ég veit ekki hvort hv. þm. hefur lagt það á sig að kanna þær vegghleðslur, sem enn standa frá þeim tíma og gætu sem best fallið undir safnvegi, við Heiðarvatn á Breiðdalsheiði og í Kinninni norðan í leiðinni upp í Berufjarðarskarð. Þær væru ágætt dæmi um raunverulega safnvegi. Ég legg til að hv. þm., sóknarprestur, leggi það a.m.k. á sig að kanna þessar hleðslur þegar snjóa leysir þar eystra.
    En þeir vegir sem hér um ræðir samkvæmt frumvarpstexta í 8. gr.: ,,Safnvegir tengja einstök býli, stofnanir o.fl. við tengivegi eða stofnvegi.`` Tengja stofnanir við stofnvegi. Hver á að botna í þessu, virðulegur forseti? Vegir sem tengja stofnanir og fleira við tengivegi og stofnvegi. Ég fer fram á það við hv. formann samgn. og hæstv. samgrh. að þeir reyni að hafa fyrir því að fara yfir texta og flokkun af þessu tagi áður en þetta er borið upp til lokasamþykktar á Alþingi þó samgn. hafi af einhverjum óskiljanlegum ástæðum ekki séð ástæðu til að fara yfir þetta efni eftir þær athugasemdir sem ég gerði, í stuttu formi að vísu, við 2. umr. málsins. ( EKG: Hún hlýtur að hafa skilið textann.) Hv. 3. þm. Vestf. ályktar sem svo að samgn. hafi betri skilning á þessu máli en sá sem hér talar og getur vel verið að hv. þm. vilji treysta nefndinni fyrir málinu og greiða sér blindandi atkvæði um þetta. Ég veit ekki hvort hv. þm. hefur haft fyrir því að fara yfir þessa flokkun.
    En síðan segir til frekari skýringar, og það er þá að átta sig á því, virðulegur forseti, með leyfi forseta:
    ,,Til safnvega teljast: Vegir að öllum býlum sem búseta er á og ekki eru tengd með stofnvegi eða tengivegi. Vegur samkvæmt þessum lið skal þó aldrei teljast ná nær býli en 50 m ef hann endar þar eða vera inni í þéttri byggð ef vegakerfi þar er styttra en sem svarar 50 m fyrir hvert býli eða íbúð.``
    Það er auðvitað dagljóst fyrir hv. 3. þm. Vestf. hvað hér er á ferðinni með þessum safnvegum sem enda þar, sem mega aldrei teljast ná nær býli en 50 m ef hann endar þar eða vera inni í þéttri byggð ef vegakerfið þar er styttra en sem svarar 50 m fyrir hvert býli eða íbúð. --- Hæstv. samgrh., það væri ágætt ef framkvæmdarvaldið reyndi að lesa með mér í þennan texta, reyndi að hjálpa til að sá sem hér talar mætti öðlast þann skilning sem hv. 3. þm. Vestf. virðist hafa í þessu vandasama máli til þess að upplýsa okkur, a.m.k. þann sem hér stendur, þannig að hann megi sjá það ljós sem ég hef ekki séð í þessu máli.
    Svo segir til viðbótar um safnvegi, því ekki er allt upp talið, virðulegur forseti:
    ,,Vegir að kirkjustöðum, opinberum skólum og öðrum opinberum stofnunum í dreifbýli og í þéttbýli með minna en 200 íbúa.``
    Það eru líka safnvegir samkvæmt þessum texta. ( JGS: Það hljóta að vera guðsvegir.) Það er alveg hárrétt sem hér er gripið fram í til skýringar af hv. 6. þm. Norðurl. e. að við erum sennilega að nálgast það sem kallaðir eru guðsvegir í sambandi við þetta en hvort samgn. hefur fundið þeim stað í sinni flokkun virðist mér ekki ljóst af þessum texta sem við höfum hér.
    En aðalflokkurinn eru stofnvegir. Það er það sem við höfum kallað stofnbrautir og ég ætla út af fyrir sig ekki að gera sérstaka athugasemd við að það sem við höfum kallað brautir sé nú farið að skýra sem vegi, stofnvegi, en síðan kemur flokkurinn sem ég hef þá ekki getið um sem eru tengivegir. Hvaða vegir skyldu það vera? Það eru vegir, virðulegi forseti, og nú vitna ég orðrétt:
    ,,Vegir sem tengja safnvegi við stofnvegi og ná að þriðja býli frá vegarenda þar sem búseta er. Þetta ákvæði gildir þó ekki ef um er að ræða veg í kaupstað eða kauptúni.`` --- Það er sem sagt vegur að íbúð samkvæmt hinni skilgreiningunni um safnvegi sem eru vegir að íbúð. Það er ekki um að ræða veg í kaupstað eða kauptúni. --- ,,Einnig má telja tengiveg að innsta býli þar sem landsvegur liggur úr byggð.`` --- Og það eru vegirnir, landsvegir eru vegirnir innan þjóðgarða og yfir fjöll og heiðar.
    Virðulegur forseti. Það sem ég er að reyna að vekja athygli hér á í sambandi við 8. gr. er að mér finnst að hér hafi illa tekist til um flokkun vega. Málið er of óskýrt sett fram fyrir a.m.k. þann sem hér talar. Ég hefði talið að það gæti átt við um fleiri og nafngiftirnar einkar illa valdar, nafngiftirnar fyrir þessa flokka. Það er alls ekki boðlegt, finnst mér, þinginu að ætla að afgreiða þetta svona.
    Mér dettur stundum í hug þegar við erum að fara yfir frv. af þessum toga sem kannski eiga rót sína, upptök sín inni í ágætum stofnunum ríkisins að einhverju leyti, að það skortir stundum á að það séu kallaðir til þeir sem nefna mætti málhaga menn og jafnvel úr stofnunum ríkisins, svo ég leyfi mér að kalla það stofnun sem er hin virðulega nefnd Íslensk málnefnd, til þess að fara yfir efni og koma með tillögur í máli af þessu tagi og það hefði betur verið gert hér. En ég hafði lengi vel von um það að hv. formaður samgn. sem hefur sýnt það hér í málflutningi á þingi árum saman, það langt ég man, og honum er annt um íslenskt mál og hefur lagt metnað sinn í það og gert ítrekað aðfinnslur að því þegar hér hafa komið fram þingmál þar sem ekki er þokkalega á máli haldið og skiljanlega. Ég hafði svona vænst þess að hv. 2. þm. Norðurl. v. legði metnað sinn í það að taka á textum af þessu tagi myndarlega með tilliti til eðlilegrar máltilfinningar og þannig að --- ég vil ekki segja það, virðulegur forseti, en mér datt í hug ,,skel hæfði kjafti`` en það passar eiginlega ekki inn í þetta mál sem við ræðum hér sem er frv. til vegalaga --- en þannig að það félli að efni frv.
    Þetta var það sem ég vildi segja varðandi 8. gr. En síðan kemst ég ekki hjá því, virðulegur forseti, að nefna á nýjan leik mál sem ég vakti athygli á við 2. umræðu og varðar 9. og 10. gr. frv., sá kafli sem hefst á þessum greinum ber nú heitið ,,Almennir vegir og einkavegir``. Þar telur samgn. sig með brtt. hafa gert nokkra bragabót og ég vil fara yfir þessar greinar þannig að þingmönnum sé ljóst um hvað hér er að ræða sem ekki hafa frv. fyrir framan sig. 9. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

    ,,Almennir vegir eru þeir vegir sem ekki teljast þjóðvegir en eru í eigu opinberra aðila og eru ætlaðir almenningi til frjálsrar umferðar. Einkavegir eru þeir vegir sem ekki teljast þjóðvegir og eru kostaðir af einstaklingum, fyrirtækjum eða opinberum aðilum.``
    Hér skýrði hv. 2. þm. Norðurl. v., formaður samgn., mál þannig að þessir einkavegir sem kostaðir væru af opinberum aðilum en teldust samt einkavegir væru m.a. vegir að hernaðarmannvirkjum eins og ratsjárstöðvum sem gæti þurft að loka og við könnumst við það. M.a. er einn slíkur vegur í mínu kjördæmi og ég hef komið að honum harðlæstum á fjall sem er nú vel kleift að vísu og menn geta auðvitað lagt á sig að ganga upp á og hefði verið miklu nær að hafa þar ekkert mannvirki uppi og síður en svo að leggja þangað upp veg, upp á sjálft Gunnólfsvíkurfjall ( Samgrh.: Það er oft hvasst þar uppi.) sem er fagurskapað fjall og afar illa til fundið, hæstv. samgrh., að setja þar upp harðljótt mannvirki upp á fjallið í formi ratsjárstöðvar og láta ekki nægja þau hervirki sem unnin voru litlu norðar á Langanesi þegar sett var upp ratsjárstöð á Heiðarfjalli, flestum til ama á þessu landshorni. Og er enn misklíðarefni og deiluefni vegna þeirrar meintu mengunar sem af hefur hlotist og sannanlega er þar í formi alls konar rifrildis sem eftir er af þessu hernaðarvirki á Heiðarfjalli en málaferli og málarekstur og deilur sem m.a. umhvrn. á aðild að eru í gangi vegna ratsjárstöðvar á Heiðarfjalli vegna jarðarinnar Eiðis á Langanesi. Er það kafli sem ég ætla ekki að ræða í tengslum við þetta mál, virðulegi forseti. En þarna kom þó skýring frá hv. 2. þm. Norðurl. v.
    10. gr. frv. er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Eigendur almennra vega og einkavega hafa veghald þeirra. Á einkavegum, sem opnir eru fyrir almennri umferð, getur viðkomandi lögreglustjóri skyldað eiganda að gera úrbætur og stöðvað vegagerð eða bannað umferð um veginn þar til bót hefur verið á ráðin ef hann telur veghaldi svo áfátt að hætta geti stafað af.``
    Það sem ég vildi efnislega segja, virðulegur forseti, um þessar greinar er að mér finnst illa til fundið að vera að skilgreina opinbera vegi sem einkavegi. Mér finnst það ekki falla að eðlilegum málsskilningi og það er skilgreiningarefni og málnotkunaratriði. Hitt þykir mér öllu verra að hér er ekkert kveðið á um það hvaða skyldur þeir sem halda einkavegi hafa við almenna umferð og hvar eigi að draga mörkin þegar lokað er fyrir almenna umferð um einkaveg. Hér er um að ræða þýðingarmikið atriði sem varðar fjölda fólks sem væri útilokað frá umferð um slíka vegi eftir geðþótta þeirra sem telja sig hafa kostað til þeirra og þá finnst mér að löggjafinn þurfi að skilgreina hvenær þeim sem heldur svokallaðan einkaveg og hefur kostað til hans er heimilt að loka honum fyrir almennri umferð og hvenær ekki. Um það er ekkert getið í þessum texta að ég fæ séð. Ég skal taka dæmi til skýringar. Sumarbústaðahverfi eða sumarbústaðir, ég er ekki að tala um einn einstakan sumarbústað sem er kannski tiltölulega skýrt dæmi um það ef sá sem hann á og hefur reist hann með tilskildum leyfum hefur lagt að honum veg og fengið fyrir því samþykki skipulagsyfirvalda því auðvitað þarf skipulagsyfirvaldaleyfi fyrir slíkum vegum, einnig samkvæmt núverandi löggjöf. Það getur maður út af fyrir sig fallist á að komi til greina að segja, þarna leyfum við ekki almenna umferð. En hvað um það ef um er að ræða þyrpingu sumarbústaða eða hverfi sumarbústaða og eigendurnir koma sér saman um það að loka þessum vegi fyrir almennri umferð, einnig þeim sem telja sig eiga erindi jafnvel við fólk innan þessa hverfis og það er hengt upp skilti og á hlið og lokað og jafnvel læst og stendur ,,einkavegur``. Eigum við að telja þetta eðlilega málsmeðferð? Eigum við að telja það eðlilegt að þannig sé á máli haldið? Mér finnst það ekki. Ef eigendurnir eiga eðlilega kvöð á hið opinbera, virðulegur forseti, um það að taka þátt í kostnaði ef vegurinn er opinn og almenningi er leyfð umferð um hann þá finnst mér að það eigi að vinna það til að ætlast til þess að hið opinbera leggi þar eitthvað til. Ég hef dæmi um svona hverfi, sumarbústaðahverfi, þar sem menn hafa reynt að girða fyrir umferð almennings í mínu kjördæmi. Þar sem um er að ræða veg sem eigendur viðkomandi sumarbústaða hafa kostað til og lagt og ekki að mér vitanlega fengið til þess opinberan stuðning. En innan við, í framhaldi af þessum vegi þar sem sumarbústöðunum sleppir, tekur við það sem mundi heita eftir núverandi skilgreiningu ,,landsvegur``, hæstv. samgrh., það tekur við ekkert minna en landsvegur, þ.e. það er slóði, eins konar fjallvegur sem tekur þar við og endar 10 km innar. Þá gæti samkvæmt þessum texta hér, þeir sem fyrir þessum vegi standa, sumarbústaðavegi, staðið á því fastar en fótum að þar skuli enginn inn nema þeir sem í þessum bústöðum búa og hafa kostað til vegarins og loka fyrir umferð um landsvegi sem tekur við í framhaldinu. Það er ekkert um þetta hér í þessu frv. Málið skilið eftir opið og órætt.
    Hvernig getur það verið að úrvalssveit eins og hv. samgn. Alþingis hafi ekki vilja til að taka á málum af þessum toga? Ekki aðeins málfarslega heldur hinum beinu efnisatriðum sem varða vegina sjálfa og rétt til umferðar um þá.
    Ég er enn að vona, virðulegur forseti, að hv. nefnd og formaður hennar sjái ástæðu til þess að líta frekar á frv. áður en það verður borið upp til 3. umr. því þetta er auðvitað hið merkasta mál og hið þarfasta mál sem við ræðum hér, endurskoðun á vegalögum. Mjög markandi mál sem ber að vanda til og sem varðar landslýð allan.
    Síðan er það atriði sem ég hef einnig vakið athygli á en ekki fengið áheyrn með, það sem snýr að 52. gr. frv., sem snertir spurninguna: Á það að vera í verkahring Almannavarna ríkisins, virðulegi forseti, að koma saman og grípa í taumana og auglýsa ef hætta er talin á snjóflóðum eða skriðuföllum eða öðru því sem vá getur stafað af og koma því á framfæri við almenning? Hv. 1. þm. Vestf. kannast við slíka

vegi í sínu kjördæmi þar sem snjóflóð eru því miður tíð á fjölfarna vegi og ég þekki marga slíka kafla á svokölluðum vegi 1 og að ekki sé talað um vegi með hærri númerum í Austurlandskjördæmi. Það sem mér finnst í rauninni fráleitt er að það sé ekki sköpuð lagaheimild fyrir Vegagerð ríkisins sem er sá aðili sem fylgist með ástandi veganna, fylgist með því hvenær hættuástand skapast, heldur yfir það sínar skýrslur vegna þess að þar er samviskusamt fólk sem safnar saman upplýsingum og metur aðstæður. En hér var mér svarað til við 2. umr. málsins að þetta væri bara almannavarnarmál. Hvað segir hæstv. samgrh. um það? Finnst hæstv. ráðherra það eðlilegt að það þurfi að vera almannavarnarmál hvort það eigi að setja upp viðvaranir vegna snjóflóða eða skriðufalla eða hruns, steinkasts sem algengt er úr fjöllum þar sem vegir hafa verið lagðir undir skriðum og eins og víða hagar til hér í okkar landi, að það sé almannavarnarmál og það sé ekki sköpuð skýr lagaheimild fyrir Vegagerð ríkisins að annast það og að loka slíkum vegum og fá heimild til þess ef slík hætta er fyrir hendi. Gjarnan má hér vera um að ræða umboð eða tengsl við Almannavarnir ríkisins því ég vil síður en svo draga úr því að einmitt þessar aðstæður sem snerta snjóflóðahættuna, það þurfa auðvitað að vera góð tengsl við Almannavarnir ríkisins vegna þess að oft koma viðvaranirnar sem geta síðan skapað hættuástand í byggð þegar snjóflóð er að falla á þjóðvegum, þá þarf að meta aðstæður og meta mál út frá því.
    En þessu vildi ég nú, virðulegur forseti, koma hér á framfæri við 3. umr. þessa máls og ég trúi ekki öðru en hv. þingmenn í samgn. sem hafa gaumgæft þetta mál hafi lagt eitthvað við hlustir og séu hugsanlega fáanlegir til þess að líta á þetta efni og ég er nokkuð viss um það að hæstv. samgrh. sem elur önn fyrir íslensku máli vill hafa það sem best í hverri grein að hann mun fremur hvetja en letja að þessi ákvæði og flokkun í 8. gr. verði eitthvað skoðuð áður en málið verður tekið til lokaafgreiðslu í þinginu.