Vegalög

140. fundur
Mánudaginn 25. apríl 1994, kl. 16:52:59 (6559)


[16:52]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það hefur skollið hér á dálítið sérkennilegt þagnarbindindi af ábyrgðarmönnum þingsins. Hv. 2. þm. Norðurl. v., þingskörungur sem ekki verður orðfátt að ég best veit þegar verið er að fjalla um mál sem hann ber ábyrgð á, í þessu tilviki sem formaður samgn., sér ekki ástæðu til þess að svara neinum efnislegum athugasemdum frá þingmönnum og góðfúslegum tilmælum um skýringar. Ég á mjög erfitt með að ráða í þetta, hæstv. forseti, og get heldur ekki beðið um atbeina forseta til að ráða í það, ég býst við að forseti gæti vísað frá beiðni minni með skýrari rökum en hinum fyrri.
    En ég vil þó áður en þessari umræðu lýkur óska eftir því að hv. formaður samgn. skýri fyrir þeim sem hér talar hvað felst í ákveðinni skilgreiningu í 8. gr. frv. Það segi ég með tilliti til þess að skýringar nefndarformanns, auðvitað í framsögu sérstaklega, en þess utan einnig á orðum í frv. og merkingu getur skipt nokkru um framhaldið og hvernig lög eru túlkuð. Hér stendur í 8. gr. undir heitinu ,,Safnvegir``:
    ,,Vegir að öllum býlum sem búseta er á og ekki eru tengd með stofnvegi eða tengivegi. Vegur samkvæmt þessum lið skal þó aldrei teljast ná nær býli en 50 m ef hann endar þar eða vera inni í þéttri byggð, ef vegakerfi þar er styttra en sem svarar 50 m fyrir hvert býli eða íbúð.``
    Ég vil biðja hv. formann samgn. að skýra fyrir þeim sem hér talar og kannski fyrir öðrum sem á hlýða hvernig túlka beri þetta mál sem ég las upp úr 8. gr. ,, . . .  ef vegakerfi þar er styttra en sem svarar 50 m fyrir hvert býli eða íbúð.``
    Í sömu grein var um að ræða eins og hæstv. samgrh. hefur hneppt í bundið mál orðalag sem vísar til safnvega sem tengir stofnanir við stofnvegi. Hér er um að ræða ákvæði þar sem tengja á safnvegi við aðra vegi, stofnvegi eða tengivegi, og inn í það mál koma býli og íbúðir og ákveðnar vegalengdir. Ég treysti hv. formanni samgn. að ráða í þennan texta áður en umræðu lýkur.