Vegalög

140. fundur
Mánudaginn 25. apríl 1994, kl. 16:59:27 (6561)



[16:59]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Mikið gladdi mig að hv. 2. þm. Norðurl. v. skyldi sjá ástæðu til að taka þátt í umræðunni þó hann notaði ekki tækifærið til að skýra það sem ég bætti við í mínu máli sem var í 2. umr. og hefði verið ástæða til fyrir hv. þm. að koma að.
    En ekki tel ég texta betri ef vitlaus er þó hann hafi verið í gildi eða staðið á blaði áður. Mér sýnist það orðalag sem hér er á ferðinni hefði verið mun skýrara ef það hefði verið orðað með þeim hætti sem hv. þm. gerði með eigin orðum þegar hann fór að lesa í textann heldur en það sem hér stendur þar sem segir: ,,Vegur samkvæmt þessum lið skal þó aldrei teljast ná nær býli en 50 m ef hann endar þar eða vera inni í þéttri byggð ef vegakerfið þar er styttra en sem svarar 50 m fyrir hvert býli eða íbúð.`` Þetta er ekki nokkrum manni skiljanlegt orðalag. Og ég verð að biðja hv. þm. velvirðingar á því að það hefur ekki lokist upp fyrir mér sá skilningur sem hann vænti í sambandi við þetta. Ég hefði viljað sjá að þetta væri fært til skiljanlegs máls áður en samþykkt yrði.