Lyfjalög

142. fundur
Miðvikudaginn 27. apríl 1994, kl. 15:37:57 (6674)


[15:37]
     Hjörleifur Guttormsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegur forseti. Það verður að reyna að venjast nýjum siðum og það virðist vera hér upp tekinn siður að ráðherrar sem starfa í viðkomandi málaflokkum séu farnir að beita sér í sambandi við spurninguna um það hvernig við óbreyttir þingmenn stöndum að málum og hvernig þingstörfum er hagað í málum sem þeir hafa lagt fram í frumvarpsformi til þingsins. Ég tel að þetta sé í rauninni ráðherra sem slíkum óviðkomandi, enda hefur hæstv. ráðherra e.t.v. verið að tala í gervi þingmannsins.
    En ég sé alveg sérsaka ástæðu til þess að mótmæla málflutningi hæstv. heilbr.- og trmrh. Hann staðhæfði hér í ræðustól áðan að ég hafi á síðasta fundi sl. nótt verið að biðjast undan því að málið væri rætt. Ég held að hann hafi orðað það eitthvað svoleiðis, vegna þess að þrek mitt væri þrotið. Hvar eru skilningarvitin hjá hæstv. ráðherrum ef þetta er sýnishorn af því þar sem mínum málflutningi var þó þveröfugt háttað og ég lýsti mig reiðubúinn til að ræða þetta mál ( Gripið fram í: Í nótt.) í nótt og hvenær sem væri svo fremi að ég næði eyrum þeirra sem hefðu forræði á málinu og hefðu skilað því hér inn, formanni heilbr.- og trn. Mér var ekkert að vanbúnaði. Svo kemur ráðherrann hér og blandar sér í þetta mál til þess að segja ósatt um minn málflutning. Mér finnst þetta alveg dæmalaust ef menn standa þannig að máli hér að geta ekki flutt rétt eftir innan sama sólarhrings. Það verður að sjálfsögðu að virða almennar leikreglur í þinginu, að það sé ekki verið að ræða hér mál að formönnum nefnda sem skila inn álitum fjarstöddum. (Forseti hringir.)
    Ég ætla að sjálfsögðu ekki að fara að koma í veg fyrir það, virðulegur forseti, að málið verði rætt þegar hv. þm., formaður heilbr.- og trn. er kominn til þings á ný, væntanlega kemur hann aftur og ég er ekkert að efast um að hann geti haft gild forföll. Það er ég ekki að efast um. En jafnsjálfsagt er það að fresta umræðu um málið við þessar aðstæður.