Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

145. fundur
Föstudaginn 29. apríl 1994, kl. 15:00:11 (6842)


[15:00]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Fyrir rösklega einu ári segir hv. þm. í 1. umr. um þetta mál, ég leyfi mér að vitna til þess:
    ,,Það er svo að víða er ekki gripið til ráðstafana á þessu sviði``, þ.e. í sambandi við vernd dýrastofna, ,,fyrr en það er orðið heldur seint. Ég hef átt þess kost að kynnast svolítið veiðum á fuglum og spendýrum erlendis og þekki nokkuð til þeirra mála, t.d. í Frakklandi og það verður að segjast eins og er að þar er hið ömurlegasta ástand. Þar er búið að ganga svo nærri fjölmörgum stofnum fugla og dýra að það verður að flokkast undir meiri háttar slys. Það er með öðrum orðum ekki nógu gott að bíða þar til menn standa frammi fyrir slysinu og reyna þá að grípa til aðgerða. Það er rétti tíminn að grípa til aðgerða meðan ástandið er tiltölulega viðunandi.``
    Þetta er rökstuðningur fyrir þeirri stefnu sem fram kemur í frv., skýr rökstuðningur, og ég hlýt að vekja athygli á þessu. Ég mun síðar í umræðunni ræða frekar þau sjónarmið sem fram koma í nál. minni hlutans en ég undrast það nokkuð að það skuli af stjórnarliða vera snúið svo við blaði á tveimur árum í þýðingarmiklu máli eins og hér um ræðir þar sem um er að ræða undirstöðuatriðið í frv.