Stjórn fiskveiða

149. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 10:35:54 (7093)


[10:35]
     Hjörleifur Guttormsson :
     Virðulegur forseti. Hér er til 2. umr. frv. til laga um stjórn fiskveiða. Heitið er gamalkunnugt frá fyrri þingum og oft sem þreyttar hafa verið langar umræður um þetta efni sem gjarnan er skipt í þætti fyrir og eftir kvóta, þ.e. frá því að núv. fiskveiðistjórnunarkerfi var upp tekið 1984 og það stjórnkerfi sem áður var notað í því sambandi.
    Ég ætla, virðulegur forseti, þar sem ég hef ekki tekið þátt í umræðu um þetta mál áður að fara yfir nokkra þætti þess, tengsl þess við stöðu atvinnumála í landinu og atvinnuleysið sem hér ríkir, stöðuna að því er varðar ástand fiskstofnanna og spurninguna um fiskvernd, stöðuna út á við gagnvart Evrópusambandinu og þau miklu tíðindi sem voru að gerast um síðustu helgi á miðstjórnarfundi Framsfl. í þeim efnum. Þau tíðindi tengjast þessu máli beint þar sem það kerfi sem við búum við í stjórn fiskveiða varðar samskiptin út á við, spurninguna um það hvernig það fellur inn í samninga við aðrar þjóðir, ekki síst spurninguna um samskiptin við Evrópusambandið sem er nú að fá á sig verulega aðra mynd eftir það sem gerðist um og fyrir síðustu helgi og túlkað hefur verið síðan sérstaklega af nýrri forustu í Framsfl.
    Hér eru á ferðinni, virðulegur forseti, tengt þessu máli og enn frekar spurningunni um samskipti við Evrópusambandið, veðrabrigði í íslenskum stjórnmálum sem gæta kann lengi. Það hefur verið boðað af fleiri en einum forustumanni stjórnmálaflokka að þetta hljóti að verða meginefnið í komandi alþingiskosningum sem menn eru, virðulegi forseti, að biðja um sumir hverjir að fari fram þegar á komandi hausti þó margir hefðu vafalaust kosið að þær kæmu fyrr.
    Það er því, virðulegi forseti, af nógu að taka í sambandi við umræður um þetta mál eins og þau standa. Ég ætla fyrst að fara yfir nokkur atriði sem snúa beint að frv. og því stjórnkerfi fiskveiða sem verið er að festa í sessi áfram, kvótakerfið, þó með þeim takmörkunum sem tillögur standa um að settar verði inn í þetta kerfi til vissrar hömlunar sem geta verið álitaefni í sambandi við afgreiðslu þessa máls.
    Við alþýðubandalagsmenn vorum andstæðir þessu stjórnkerfi eins og það var sett fram 1984 af þáv. ríkisstjórn og þáv. hæstv. sjútvrh. og börðumst gegn margvíslegum ágöllum á því og settum fram okkar tillögur um það efni. Í því sambandi minni ég á tillögur flokksins um byggðakvóta til þess að koma í veg fyrir að grundvelli yrði kippt undan heilu sjávarplássunum í landinu. Það var um 1987 sem þær tillögur voru settar fram og við erum enn með það á stefnuskrá okkar og í tillögum okkar að andæfa gegn mörgum þáttum í þessu stjórnkerfi, þeirri markaðsvæðingu sem það felur í sér með þeim hrikalega afleiðingum sem það mun hafa fyrir sjávarútveginn í landinu og byggðina í landinu ef það færi að þróast áfram með þeim hætti sem efni standa til samkvæmt ákvæðum þessa stjórnkerfis.
    Ég vil taka það fram, virðulegur forseti, að það er auðvitað hægt að hugsa sér margháttuð kerfi

í sambandi við takmörkun á hámarksafla og hámarkssókn í fiskstofna við landið. Ég hef ekki hafnað því að menn geti notast við aflamarkskerfi og að skipta afla niður á veiðiskip til þess að ná þessum markmiðum. Það var lengi vel meginaðferðin að því er varðaði botnfiskveiðarnar í stjórnkerfi fiskveiða á árunum fyrir 1990 á meðan framsalsheimldir í þessu stjórnkerfi voru takmarkaðar mjög verulega og áður en opnað var fyrir þær með þeim hætti sem gerðist 1990. Þá breytti þetta kerfi með vissum hætti um eðli og síðan hefur það verið að mala undir sig. Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að eftir fáu sé ég eins mikið og því að láta mig hafa það að ljá þessum breytingum atkvæði mitt 1990 þegar við alþýðubandalagsmenn áttum sæti í ríkisstjórn og mjög var að okkur sótt í sambandi við þetta efni og sá sem hér stendur hafði margan málstað að verja og taldi ekki á það bætandi í þeirri stöðu sem var í stjórnarsamstarfinu vorið 1990, að mig minnir, sem þetta uppgjör fór fram. Þá voru hlutirnir þannig, og það segi ég vegna þess sem hér hefur verið rifjað upp í umræðunni, varðandi aðstöðu þingsins til að ræða þessi mál að ég held að menn ættu að fara yfir þær aðstæður sem mönnum voru búnar og skilyrði í neðri deild Alþingis þar sem 2 / 3 hlutar alþingismanna sátu á þeim tíma áður en sameinað var í eina málstofu. Þetta frv. kom úr efri deild þingsins þar sem það fékk sína mótun og afgreiðslu í rauninni og staldraði við í einn og hálfan sólarhring í þingsölum neðri deildar sem þá sat í þessum virðulega þingsal. Sjútvn. neðri deildar þingsins held ég að hafi fjallað um þetta mál með þeim afdrifaríku breytingum sem þá fóru fram í einn og hálfan klukkutíma. Hv. þm. Einar Guðfinnsson man þetta kannski betur því að ég held að hann hafi verið einn af mörgum sem áttu sæti í sjútvn. þingsins þá. ( EKG: Því miður ekki.) Það er misskilningur, en hv. þm. sat þá á þingi, man ég eftir, og var eins og fleiri og sá sem hér stendur ekki ánægður með þau vinnubrögð sem okkur voru búin í sambandi við þetta afdrifaríka mál.
    Deilurnar sem staðið hafa um þetta stjórnkerfi hafa verið margvíslegar og það eru, virðulegur forseti, engin tök á því að vera að rifja það upp í einstökum atriðum í umræðum um þetta mál en ég vil nefna meginásteytingsefnin síðari árin eftir að þetta stjórnkerfi var sett á 1984. Það hefur öðru fremur varðað veiðar smábáta, aðstöðu smábáta til sóknar á miðin og veiðiheimildir til þeirra og það hefur varðað framsal aflaheimilda. Það eru í rauninni stóru deiluefnin hin síðari árin sem varða þetta stjórnkerfi fyrir utan þá sem hafa viljað slá aflamarkskerfið af sem slíkt og mælt með upptöku á gerbreyttri stýringu á veiðunum. Síðan, virðulegur forseti, hefur bæst við deilan um hlutaskiptin, það sem kallað er í daglegu tali kvótabrask, og þær tilraunir útgerðarmanna og fyrirtækja í sjávarútvegi til þess að fara fram hjá hlutaskiptakerfinu, hlunnfara sjómenn, gera þá að þátttakendum í kvótakaupum og það er vissulega ríkur þáttur þess máls sem við erum að ræða nú, virðulegur forseti. Það eru þessi þrjú atriði sem ég vil minna alveg sérstaklega á í sambandi við þessa umræðu.
    Þessu tengist síðan það stóra mál sem snertir 1. gr. gildandi laga um stjórn fiskveiða og sem snertir aðrar greinar og þróun þessa máls skattalega, út frá eignarréttarviðhorfum, spurninguna um raunverulega sameign þjóðarinnar á fiskveiðiauðlindinni og hins vegar yfirráð þeirra sem fá úthlutað eða kaupa sér aflaheimildir í raun yfir fiskveiðiauðlindinni og, eins og það hefur verið hjá okkur, án sérstaks endurgjalds en þar standa uppi deilur eins og menn þekkja. Umræðan snýst um ýmsa þætti, veiðileyfagjald og fleira sem ég hef ekki verið talsmaður fyrir eða ekki mælt með að upp yrði tekið.
    Við alþýðubandalagsmenn höfum frá því að þessi umræða hófst fyrstir manna á Alþingi og sá sem hér talar var fyrstur til þess að taka þetta mál upp í sambandi við fyrsta kvótafrv. sem hæstv. fyrrv. sjútvrh., Halldór Ásgrímsson, mælti fyrir snemma á fyrri hluta síðasta áratugar. En þá var ekkert ákvæði í 1. gr. frv. um sameign þjóðarinnar og það má Alþfl. eiga, þó að fátt mæli hann nú af viti í þessum efnum, þá tók hann undir þetta þegar hann kom í ríkisstjórn 1987 og átti hlut að því við endurskoðun laganna þá að inn var tekið í þríhöfða stjórninni, þriggja flokka stjórninni sem þá sat, þetta ákvæði í 1. gr. Síðan horfa menn hins vegar upp á það að raunverulegt inntak þessa ákvæðis er sáralítið, er afar veikt, svo ekki sé fastar að orði kveðið og þó hefur verið reynt að styrkja það frá endurskoðun til endurskoðunar. Menn hafa út af fyrir sig fallist á vissar breytingar sem áttu að vera til styrktar en hin raunverulega meðferð málsins er þannig að það er lítt sannfærandi, virðulegi forseti, fyrir þá sem skoða málið og fylgjast með þróun þessa kerfis að þetta ákvæði hafi eitthvert raunverulegt inntak og þó er ég síður en svo að mæla gegn því að það sé þarna. Ég vil miklu frekar styrkja það eins og brtt. okkar alþýðubandalagsmanna við þetta frv. sem hér liggur fyrir standa til um. Þar gerum við tillögu um það að reyna að styrkja þetta ákvæði til þess að halda umræðunni við á Alþingi, til þess að reyna að andæfa gegn því sem er að gerast í praxís í sambandi við yfirráðin yfir kvótanum og það framsal sem þar á sér stað fram og aftur með aflaheimildirnar og sem er að færa yfirráðin og valdið yfir auðlindinni á færri og færri hendur, hvað svo sem menn segja um að þeim fjölgi eitthvað sem eiga einhvern smáhlut í fyrirtækjum, sem skiptir auðvitað engu hvað snertir yfirráð í raun.
    Og það er Framsfl. sem er meginhöfundur þessa kerfis. Það má Framsfl. eiga. Og hann stendur í því mjög strítt á Alþingi að gæta þess og hefur notið til þess nokkuð dyggs stuðnings hluta af Sjálfstfl. og þeim sem með völdin fara þar til að halda verndarhendi yfir þessu kerfi. ( StG: Og Alþb.) Og Alþb. hefur meira að segja látið sig hafa það, virðulegi forseti, að hlaupa undir með Framsfl. þegar lagst hefur verið á það að mundanga þessu máli fram í þingsölum við þær aðstæður sem ég rifjaði upp í upphafi fyrr í ræðu minni.
    Það eru víða tvö höfuð á skepnunni, virðulegi forseti. Þau koma víða við sögu í þessu. Það er tvíhöfða nefnd sem undirbýr endurskoðun á lögunum og þá vil ég biðja virðulegan forseta að kanna hvar annað þessara tveggja höfða, sem stundum skýtur upp kollinum á Alþingi, muni vera statt, virðulegur forseti. Ég á við hv. þm. Vilhjálm Egilsson sem ég veit ekki betur en sé talsmaður þessa hér og ég vildi gjarnan að væri viðstaddur þessa umræðu. ( StG: Höfuðið er ábyggilega á þingmanninum.) ( JÁ: Frsm. meiri hluta.) Frsm. meiri hluta málsins.
    ( Forseti (VS) : Hv. 5. þm. Norðurl. v. er í þinghúsinu og mun forseti láta hann vita að hans sé óskað.)
    Þá vildi ég gjarnan biðja hann um að vera hér svo það hilli aðeins undir þennan koll af þeim tvíhöfðanum. En tvíhöfðarnir eru sem sagt fleiri því að núv. sjútvrh. og fyrrv. sjútvrh. eru nokkuð samgrónir í þessu máli eins og menn hafa tekið eftir og fylgst með og það er ekki dónalegt innlegg inn í það sambýli sem verið er að innrétta fyrir þessa dagana. Það sem á að taka við þegar þeir verða hlaupnir sitt hvoru megin út úr bólinu sem nú verma það, forustumenn núverandi stjórnarflokka. Það er þegar farið að búa upp um og ekki skaðar það að núv. hæstv. sjútvrh. og fyrrv. eru í einni sæng nú þegar í sambandi við þetta mál og hafa verið það því að hæstv. núv. sjútvrh. hefur lítið gert annað en að stúdera fræðin frá forvera sínum og gæta þess með vaktmönnum kvótakerfisins, sem eru víða úti í samfélaginu og þarf ég engin nöfn að nefna, að svokallaðir valdsmenn, sem fara með málin hverju sinni, spilli nú ekki þessu ágæta kerfi.
    Virðulegi forseti. Ég ætla að koma hér að einum veigamiklum þætti frv. og breytingum við það sem varðar veiðar smábáta. Það hefur með mjög sérkennilegum hætti verið þannig búið um hnútana að það hefur aldrei verið reynt að koma þessum smábátaveiðum þannig fyrir í eða til hliðar við stjórnkerfi fiskveiða að í því væri í rauninni nokkurt vit, hvað þá nokkurt öryggi fyrir það fólk sem stundað hefur þá útgerð. Þess hefur alltaf verið gætt að hafa einhverjar þær smugur á að það væri hægt að segja: Þetta gengur ekki, þetta er ótækt. Og enn eru menn að búa þannig um hnútana í þessu frv. að það eru ekki miklar líkur á að það geti staðið til mikillar frambúðar.
    Þó vil ég taka það fram, virðulegur forseti --- og fagna ég því að hér hillir undir tvíhöfða, einn af fjórum sem ég nefndi til sögunnar --- að í þessu frv. eru ákvæði sem varða smábátana sem er veruleg breyting frá upphaflegum tillögum tvíhöfða nefndarinnar. Þar var hugmyndin að færa kvótakerfið yfir allar fleytur, afnema það sem kallað er kvótakerfi, afnema aðgengi minnstu báta að miðunum við landið og loka þessu kerfi sem er óskastaðan og fremsta óskin hjá þeim sem hafa borið þetta fram því að þeir eru sannfærðir um að kerfið sé svo fullkomið að það verði yfir alla að ganga. En vegna mjög eindreginna og ákveðinna mótmæla gegn þessari fyrirætlun tvíhöfða nefndarinnar var dregið í land og búið um hnútana eins og við sjáum í þessu frv. sem tryggir það út af fyrir sig að krókaveiðar báta undir 6 tonnum geta haldið áfram með þeim miklu takmörkunum sem á þær eru settar og þeirri sérkennilegu skiptingu ársins sem annar hv. tvíhöfði, hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, er sérfræðingur í. Hann er orðinn sérstakur sérfræðingur í rímfræði og þessi skipting í sambandi við smábátana, þessi fjórhólfun, tengist því nýja rími sem hv. þm. er talsmaður fyrir og hefur flutt meira að segja tillögur um á Alþingi. Gæti ég trúað að ef vitringar sem spá í himintunglin mundu skoða rímfræði smábátaveiðanna þá mundi hún ekki fá miklu mildari dóma en tillögur og hugmyndir hv. þm. Vilhjálms Egilssonar hafa fengið um að færa til ekki aðeins klukkuna og helgidaga í landinu, heldur gera afar róttækar breytingar, eins og menn þekkja, til hagræðingar, ekki síst fyrir viðskiptalífið. Því að vissulega má framkvæmdastjóri Verslunarráðsins eiga það að hann er trúr köllun sinni og því verkefni sem hann hefur tekið að sér. Fyrir utan það að sitja á Alþingi sem fulltrúi Norðurlands vestra gætir hann hagsmuna Verslunarráðsins í hvívetna, einnig í sambandi við tímatalið.
    Í þeim ákvæðum sem eru innleidd í frv. varðandi smábáta finnst mér vera, þó að þau séu til verulegra bóta og allt annars eðlis en það sem lagt var upp með, geysilegir annmarkar sem varða m.a. það fasta banndagakerfi sem þar er innleitt. Það hefur sína stóru annmarka ekki síst þegar litið er til breytileikans á fiskislóðinni við Ísland, hinna mjög ólíku aðstæðna sem þar eru. Síðan það að ekki er verið að setja nein takmörk á fleyturnar. Þær geta athafnað sig eins og þær mögulega geta að veiða í þessa potta sem síðan á að taka til endurmats og endurskoðunar árið eftir eins og búið er um hnútana í frv. Ég verð að segja það að ég hefði talið miklu skynsamlegra og einnig fyrir hagsmuni smábátaútgerðarinnar í landinu að það yrði sett ákveðið þak á veiðar hvers báts, þokkalega rúmt þak í staðinn fyrir að láta menn vera að veiða í einn pott í þessu kerfi sem er í rauninni sama gildran, ef ég les rétt í þessi fræði, og búin var til 1990. Þá fengu menn þriggja ára möguleika til að veiða innan krókaleyfiskerfisins en ef aflinn færi yfir ákveðið mark, þá yrði skellt í lás. Það er sá lás sem menn horfðu á, var fram undan ólokaður 1. sept. 1994 þegar átti að loka þessu að gildandi lögum.
    Þetta er ekki fallegur arfur sem fyrrv. ríkisstjórn og stjórn sjávarútvegsmála í þeirri ríkisstjórn skildu eftir sig að því er varðaði smábátana og gátu auðvitað allir séð í hvað stefndi að því leyti. Hér hafa menn þó heykst á því að yfirfæra blessunina á þessar minnstu fleytur og ég fagna því, virðulegi forseti.
    Það er alveg með eindæmum í rauninni hvaða skilningsleysi blasir við og birtist í orði, m.a. og ekki síst úr röðum margra sem stunda sjávarútveg og ráða yfir stærri fleytum, gagnvart smábátaútgerðinni í landinu og þeim ofsjónum sem margir útgerðaraðilar sjá yfir þeim aðgangi sem smábátarnir þó hafa haft til veiða við landið. Það mætti stundum halda að þetta væri höfuðandstæðingurinn. Mér finnst satt að segja að margt í þeim málflutningi sé þannig að varla geti siðlegt talist. Auðvitað er það hlutverk okkar hér á Alþingi að gæta þess að hákarlarnir fari ekki offari eða hafi möguleika til að gleypa þessa minnstu fiska

í útgerðinni við Ísland upp til agna, eins og þeir hafa verið að gera, þá sem hafa haft framseljanlegan kvóta og hafa neyðst til að selja sinn kvóta eða séð sér hag í því, sem völdu aflamarkið fyrir smábátinn sinn 1990. Margir þeirra, þeir skipta hundruðum, hafa ráðstafað því til stærri útgerða sem hafa keypt það upp innan þess kerfis sem Framsfl. er flokka sælastur yfir og má helst ekki sjá hróflað í hinu minnsta nema helst að færa það til enn frekari markaðsvæðingar ef nokkuð er.
    Hið opna markaðskerfi og óhefta markaðskerfi er að verða í dag fagnaðarboðskapurinn einnig á því heimili og hefði einhvern tíma til tíðinda talist. Fjórfrelsið, framsal veiðiheimilda og opið óheft markaðskerfi er að verða aðalflaggstöngin einnig hjá Framsfl. Það er ekki bara Alþfl. og drjúgur hluti Sjálfstfl. sem ber þetta merki. Nú geta þeir einnig flaggað með Framsókn. Og Framsókn er orðin svo áköf í þessu að hún lítur á það sem aðalmál á Íslandi að komast til áhrifa í Brussel eins og það heitir, komast inn í ráðherranefndirnar í Brussel. Það verða fallegar sendinefndirnar, hæstv. utanrrh. Jón Hannibalsson, og verður kannski orðinn fyrrv., þegar verðandi utanrrh. þeirrar tvíhöfða stjórnar sem verið er að búa upp um núna, virðulegur forseti, fer í leiðangrana til Brussel með þeim sem ætlar sér að vera áfram í forsrn. og hefur þegar boðað för sína þó að ekki sé búið að dagsetja hana. Hér spyr hv. þm. Gísli Einarsson hvort tvíhöfða forustan fái ekki að skjótast með og halda á töskunni fyrir einhvern af þessum höfðingjum. Ég er ekkert frá því að það geti farið svo að þeir fái að vera þar og minni á að hinn tvíhöfðinn er aðstoðarmaður núv. hæstv. utanrrh. og býsna vanur töskuburði geri ég ráð fyrir. Það er því ekkert ólíklegt að þessi sveit, sem ætlar að banka upp á og reyna að smeygja sér inn fyrir í ráðherranefndum Evrópusambandsins, hafi nokkurt fylgdarlið. Svo mikið er víst að þar ytra bíður stækkandi sveit hálaunaembættisliðs sem hefur verið raðað að kjötkötlunum, hefur verið raðað í verkefnin í Brussel og hefur það svona til viðbótar við hið fastbundna dagsverk að skrifa heilsíðugreinar í Morgunblaðið, sem er ein aðallesning þjóðarinnar, um nauðsynina að fara alla leið fyrr en seinna og láta ekki einangra sig, við vesalingarnir hér í útnorðri, að passa það að binda okkur rækilega aftan í þennan vagn.
    Ég er ekki að segja það, virðulegi forseti, af því að ég tengi þetta þessari umræðu, að það sé uppgert mál í Framsfl. að sækja um aðild að Evrópusambandinu. En það er ansi hætt við því að varnirnar minnki og það þyngist fyrir hjá þeim sem ekki vilja sjá þá niðurstöðu þegar hin nýja forusta Framsfl. er farin að hvetja til sóknar í þeim efnum og lítur á það sem meginmálið, einhverja þriðju leið. Nú er búið að kasta rekunum á leiðina sem hv. fyrrv. formaður Framsfl. hafði uppi. Það var vel um þá hnútana búið. Það var vel skipulögð sú gröf sem tekin var og hjálpuðu til þeir sem nú sitja í Stjórnarráðinu með mjög skýrum hætti til að greiða fyrir þessu. Það er víða ráð í ráðum, hv. þm. Einar Guðfinnsson, það er víða ráð í ráðum þessa dagana og þessa mánuðina. ( EKG: Réð ekki Sighvatur þessu?) Hv. þm. sem mælir hér úr hliðarsal og ég nem orð hans spyr: Réð ekki Sighvatur þessu? Ætli málið sé nú það einfalt? Ætli það sé ekki eitt með því snjallara sem núv. hæstv. forsrh. hefur komið í kring að láta Alþfl. um hina formlegu hlið málsins.
    Virðulegur forseti. Framsal veiðiheimilda --- svo að ég víki frá smábátaveiðunum og eins og um þær er búið hér, eins og kerfinu var breytt 1990 og eins og það hefur þróast orðið svona undirstöðuatriði í stjórnkerfi fiskveiða --- við sjáum í viku hverri úttektir ýmissa sem eru að fara ofan í það hvernig þetta stjórnkerfi virkar á aðgang að aflaheimildum, þróun fyrirtækjanna o.s.frv. Menn greinir þar á. Einna sterkustu stoðirnar á bak við þetta stjórnkerfi er að finna uppi í Háskóla Íslands hjá lærðum mönnum þar sem telja því flest til ágætis vegna þess að það gefur möguleikana til hagræðingar í sjávarútveginum sem sé alveg lífsnauðsyn fyrir okkur, að tryggja hagræðingu í sjávarútveginum og samkeppnishæfni sjávarútvegsins með aðstoð þessa kerfis.
    Virðulegur forseti. Það er margt borið fram þessi árin undir merkjum hinnar hörðu kröfu um hagræðingu, samkeppnisfærni, eða hvað þetta nú heitir á stofnanamáli, atvinnulífsins í landinu. Það er margt borið fram og ég ætla ekki að gera lítið úr því að vandi þeirra sem ráða fyrir fyrirtækjum í sjávarútvegi sem og öðrum rekstri hér á landi er ekkert lítill eins og staðið hefur verið að stjórn efnahagsmála í landinu á mörgum undanförnum árum, með því verði á fjármagni sem hér hefur verið og haldið hefur verið hlífiskildi yfir og tvíhöfða stjórnin 1983--1987 undir forsæti Framsfl. hélt hlífiskildi yfir, þó að hún hafi ekki átt höfundarréttinn, vaxtaokrinu eins og það hefur verið kallað. Það hefur ekkert verið einfalt að reka fyrirtæki hér á landi og það hefur ekkert verið einfalt að reka fyrirtæki í sjávarútvegi með þeirri þróun auðlindarinnar, fiskstofnanna, sem við höfum horft upp á á undanförnum mörgum árum, því miður, þeim gífurlega samdrætti í þýðingarmesta veiðistofni okkar, þorskstofninum, þar sem ráðgjöfin á yfirstandandi fiskveiðiári mælti með því að aðeins yrðu tekin 150 þúsund tonn upp úr sjó af okkur Íslendingum á Íslandsmiðum. Þetta eru auðvitað þannig kostir fyrir þá sem reka fyrirtæki í sjávarútvegi að það er auðskiljanlegt að af hálfu þeirra og þeirra sem þar hafa reynt að róa og sjá fyrir sínum fyrirtækjum, séu uppi harðar kröfur um það: Breytið ekki forsendum í þessu kerfi við þessar aðstæður sem við búum við, við sem erum að berjast í því hörðum höndum að halda okkar fyrirtækjum gangandi. Þetta er ein hlið málsins og á hana verður auðvitað að líta þegar menn standa frammi fyrir ákvörðunum og tillögum um breytingar á þessu kerfi og þeim tillögum sem hæstv. sjútvrh. og þingið og þingnefnd, hv. sjútvn., hefur verið að vinna að með þeim takmörkunum sem kenndar eru við 15% og 50% og annað sem er hér til umræðu í tengslum við fram komnar breytingartillögur við frv. sem lagt var fram fyrir jól. Við verðum auðvitað að taka á þeim málum út frá efnislegum forsendum og stöðunni í sjávarútveginum, meta það sem og spurninguna

sem snýr að sjómönnum landsins og inngripunum í þeirra starfskjör sem hafa farið fram innan þessa kerfis. Þannig getum við hér á Alþingi verið í þeirri aðstöðu að þurfa að taka afstöðu til breytinga og breytingartillagna sem eru langt frá því að varða framtíðarsýn okkar, hvernig æskilegt væri að málin þróuðust til lengri tíma litið. Og við verðum auk langtímasjónarhornsins og þess málflutnings sem við höfum hér uppi að taka afstöðu til tillagna út frá stöðu augnabliksins og hinni mjög tæpu rekstrarstöðu sem er í sjávarútveginum um þessar mundir.
    Ég segi þetta vegna þess, virðulegur forseti, að t.d. sú tillaga sem fyrir liggur um takmarkanir á framsalsmöguleikum og kennd er við 15% getur verið snúið mál. Hún getur verið þungur baggi og hún getur þýtt erfið inngrip í rekstur einstakra fyrirtækja sem veita mörgum vinnu, sem hafa verið að berjast í bökkum. Ég vil nefna eitt dæmi bara til að skýra og stytta þá mitt mál um þetta, eitt dæmi sem ég tek úr mínu kjördæmi vegna þess að ég þekki það og á það hefur verið bent á í erindum sem fram hafa komið hér, m.a. frá svonefndum atvinnumönnum. Ég vil leyfa mér að tilfæra eitt dæmi sem þar er að finna undir fyrirsögninni: Grundvelli kippt undan endurskipulagningu. Þar eru þeir að andæfa gegn þeim tillögum sem hér liggja fyrir, með leyfi forseta, með þessum hætti:
    ,,Borgey hf. á Höfn er nýlega búin að endurskipuleggja rekstur sinn og fjárhag. Þáttur í því var sala skipa og kvóta. Skipum hefur verið fækkað úr fjórum í eitt. Fyrirtækið á nú kvóta töluvert umfram veiðigetu skipsins. Samstarf hefur náðst um bátaútgerð á Höfn um að veiða þennan kvóta. Með fyrirhuguðum lagabreytingum er forsendum kippt undan þessum ákvörðunum. Afleiðingin er tap fyrir Borgey hf., verkafólk í landi, bátaútgerðina og þá ekki síst fyrir sjómenn. Ákvarðanir Borgeyjar voru teknar á haustmánuðum út frá gildandi lögum um fiskveiðistjórnun og þeim hugmyndum sem uppi voru um breytingar á þeim. Með því að kippa þannig grundvellinum undan hagræðingaraðgerðum fyrirtækisins bregðast stjórnvöld þeirri skyldu sinni að skapa almenn skilyrði rekstrar og festu í þjóðfélaginu.``
    Þetta er mjög skýrt mál sem hér er talað og í rauninni miklu skárra dæmi heldur en mörg af þeim sem þarna eru framreidd, ég tala nú ekki um nokkuð yfirspenntar fullyrðingar á köflum í þessu annars ágæta erindi sem kom frá svonefndum atvinnumönnum. Þar er ég meira að hugsa um almennar áherslur sem þar komu fram þar sem mér finnst hlutirnir sumpart dregnir nokkuð dökkum litum eða réttara sagt, það sé nokkuð yfirdrifið þegar menn eru að meta áhrif þeirra breytinga sem hér er um að ræða á vissa þætti, þar á meðal á sjófrystingu, úthafsveiðar og fleiri þætti af þeim toga. En út í þá sálma ætla ég ekki að fara frekar hér.
    Ég tel, virðulegi forseti, að þessi sérkennilega 15% regla, sem hér er hluti af þessum brtt. og kannski ekki sú sem minnstu skiptir fyrir augnablikið, sé ekki mjög rökrétt. Þetta segi ég um leið og ég er að andæfa og andmæla gegn langtímaáhrifum þessa framsalskerfis í stjórn fiskveiða. Þannig að ég mun ekki treysta mér til þess og mun ekki stuðla að því að þessi breyting nái hér fram að ganga, mér finnst hún það óskynsamleg. Ég tel í rauninni að sjómenn þrátt fyrir allt hafi fengið nokkra viðspyrnu með þeirri tillögu um samstarfsnefnd sem hér hefur verið rædd og mælt fyrir og með þeirri reglu sem kennd er við 50% og tillögur eru um í sambandi við þetta efni þannig að ekki væri kippt grundvellinum undan þeirra málstað þó að þessi tillaga um 15% yrði felld út.
    Ég held að forustumenn sjómanna þurfi einnig að horfa á þetta út frá áhrifum þessara breytinga, tímabundnum áhrifum, áhrifum stundarinnar á atvinnumöguleika sinna umbjóðenda. Ég vænti þess að þeir mundu að athuguðu máli geta unað því að þarna yrði breyting á gerð. Og ég vil hvetja hæstv. sjútvrh. til þess að líta á það efni. Ég geri ráð fyrir því að það gæti orðið til þess að eitthvað skárri samstaða yrði um afgreiðslu mála hér þó að mikill ágreiningur sé um ýmis grundvallaratriði sem snerta kannski ekki nema að takmörkuðu leyti niðurstöðuna í þessu máli. Ég er fyrst og fremst að tala um þetta miðað við þær breytingartillögur sem settar hafa verið fram frá því sem var frá því frv. sem lagt var inn í þingið fyrir jólin.
    Virðulegur forseti. Ég ætla að koma svolítið frekar inn á hagræðingarsvipuna í sjávarútveginum, þá hörðu svipu sem þetta kerfi þjónar, þetta kvótakerfi með sínu framsali, og á að greiða fyrir. Ég held að við þurfum að gæta okkar, gæta vel að því hvert verið er að fara í sambandi við hina stóru drætti í íslenskum sjávarútvegi og þar þurfi menn að horfa til fleiri átta heldur en til hagræðingarmöguleikanna einna saman. Menn þurfa að meta áhrif þeirra á byggðaþróunina í landinu, áhrifin á byggðina í landinu og hvað það kostar þessa þjóð og samfélagið allt að kippa undirstöðum undan fjölda sjávarplássa á Íslandi eins og verða mun niðurstaðan ef þetta kerfi fær að mala áfram samkvæmt markaðseðli sínu þar sem veiðiheimildirnar munu safnast á æ færri hendur. Og við munum hér innan ekki langs tíma sitja uppi með örfá fyrirtæki í sjávarútvegi á Íslandi, teljandi kannski á fingrum annarrar handar. ( StG: Er það síldarvinnslan?) Hv. þm. Stefán Guðmundsson kallar: Er það síldarvinnslan? Og þar kemur nú einmitt að því. Þetta er alveg dæmigerður málflutningur fyrir skammtímasjónarmiðin sem haldið er upp í sambandi við þetta mál. Það á að raða mönnum á einhverja bása út frá viðhorfi til einstakra fyrirtækja í landinu og þau eru nafngreind hér í þingsölum. Ég verð að segja það, virðulegur þm. Stefán Guðmundsson, að ég met þinn málflutning mikils í mörgum málum og ekki síst þegar þú hefur reynt að leiðbeina forustu flokks þíns í sambandi við galeiðuna sem verið er að binda flokkinn á í sambandi við Evrópusambandið, þar met ég málflutning þinn. En ég met það ekki að þú sért að halda því að okkur að við séum að ganga erinda einstakra fyrirtækja hér í landinu, einstakra fyrirtækja, þegar við erum að líta til fjölkerfis í fiskveiðum og megindráttanna í sambandi við atvinnuuppbyggingu í landinu. Þá eigum við þingmenn að geta skoðað þetta óbundnir og frjálst,

horft til lengri tíma og ekki láta binda okkur af einhverjum hagsmunum Péturs eða Páls sem allir eru meira og minna góðs maklegir.
    Hagræðingarkrafan, samsöfnunin á aflaheimildum, samþjöppunin í atvinnu tengdri sjávarútvegi og hin hliðin á krónunni, eyðingin í byggðarlögum, hrunið í fjölda byggðarlaga, í atvinnu undirstöðufyrirtækja, þannig birtast afleiðingar þessa kerfis okkur þessi árin. Það eru kannski ekki stórtíðindi hvern mánuðinn, en þegar menn líta á þetta milli ára og frá ári til árs þá sjá menn í hvað stefnir og menn þurfa að svara því: Ætla þeir að greiða fyrir því að svo fari?
    Ég held að markaðsvæðingin, kennd við nýfrjálshyggju hér áður fyrr en nú orðin eitt af flöggunum í flokkum sem einu sinni kenndu sig við félagshyggju og reyna að gera það enn, m.a. í Framsfl., sem vildi og tók á sem félagshyggjuflokkur í landinu en er nú orðin ein aðaldriffjöðrin í fjórfrelsinu og öllu því sem þar tilheyrir --- þá er ég að tala um forustuna, ekki fólkið sem enn vonar og heldur að einhvers sé að vænta þarna. ( IP: Þetta er sorgleg saga.) Það er sorgleg saga, virðulegur þingmaður Ingibjörg Pálmadóttir, og ég gæti trúað að það ætti eftir að reyna á þolrifin hjá virðulegum þingmanni og ég tala nú ekki um umbjóðendum hennar þegar þetta kerfi sem Framsfl. stendur vörð um í sambandi við stjórn fiskveiða, að ekki sé talað um fjórfrelsisfánann sem nú er veifað hátt af forustu flokksins og ný forusta lítur á það sem fremsta markmið sitt að berja að dyrum hjá ráðherranefndunum í Brussel og reyna að komast inn fyrir, með öllu því sem það mun kosta, sá aðgangseyrir, með þeim aðgangseyri sem þar verður krafist ef menn vilja reyna að fá það sem þeir kalla áhrif, en auðvitað mun ekki þýða nokkurn skapaðan hlut í þá veru fyrir okkur, okkar hagsmuni. Þess vegna er þarna stefnt í ranga átt og mjög háskalegar hugmyndir á ferðinni, virðulegur forseti.
    En hagræðingarkrafan og krafan sem gerð er til sóknar og afla á íslenskum fiskimiðum hefur líka áhrif, virðulegur forseti, á sjálfa undirstöðuna, á sjálfa auðlindina, fiskstofnana við landið og það er þáttur sem við getum og megum ekki ganga fram hjá hér þegar við erum að ræða þetta mál og taka ákvarðanir. Það er ekki skynsamlegt, virðulegur forseti, að ætla að byggja útgerðina á Íslandi og sókn á íslensk fiskimið einvörðungu á togaraflota, einvörðungu á stórum skipum, ég tala nú ekki um á vinnslu á hafi úti sem meginburðarási í fiskvinnslu. Það er ekki sú framtíðarsýn sem ég vil sjá gerast á íslenskum fiskimiðum þar sem þörfin er á blönduðum útgerðarháttum, ekki síður minni báta á grunnslóð sem og stærri skipa sem geta sótt lengra og dýpra. En það er gegn þessu sem þetta kerfi vinnur. Smábátaútgerðin á Íslandi og útgerð minni báta mun heyra sögunni til að mestu leyti, virðulegur forseti, innan ekki langs tíma, ef þetta kerfi fær að malla með sínum ókostum. Ég tala nú ekki um ef það næst í næstu lotu, sem menn ætluðu að ná í þessari, að loka fyrir frjálsar veiðar minnstu bátanna og skila þeim inn í ryksugu hinna stærri. Hér er um að ræða, fyrir utan sóknarmynstur, virðulegur forseti, margháttuð inngrip inn í fiskimiðin og veiðislóðina sem er allt of lítill gaumur gefinn.
    Þróun tækni við veiðar, virðulegur forseti, hefur verið hraðfara og róttæk í þessum atvinnurekstri ekki síður en á öðrum sviðum en virðist dyljast mörgum sem ekki eru þeim mun nátengdari sjávarútvegi hvað þar er á ferðinni, hvaða möguleika menn hafa til þess að elta kvikindin í sjónum og afla þeirra og fanga þau. Hér er beitt, að sjálfsögðu segja menn og kannski með réttu, fullkominni tækni. En fullkomnasta tæknin er mjög hættulegt tæki og vandmeðfarið tæki a.m.k. í samskiptum við lífríkið. Hvaða breytingar halda menn að hafi orðið á botninum á Íslandsmiðum á aðaltogslóðum við landið á undanförnum áratugum á þessari öld? Það væri fróðlegt ef við gætum lyft þessum botni upp eins og hann leit út, hefðum módel, um aldamótin síðustu áður en togveiðar hófust á Íslandsmiðum og bærum það saman við það landslag sem nú er á botni. Ég hugsa að það væri óþekkjanlegt, virðulegur forseti.
    Menn hafa að mínu mati, ekki bara hér heldur á heimsmælikvarða, ekki gáð að sér, ekki gætt þess að stunda a.m.k. rannsóknir, að fylgjast með því sem þarna er að gerast, reyna að átta sig á því inngripi, að mörgu leyti mjög grófa inngripi, sem botnvarpan og önnur botnveiðitæki eru í veiðislóðina og áhrif þess á lífríkið og samspilið við það. Það er fyrst nú á allra síðustu árum, virðulegur forseti, sem menn eru byrja að skoða þessi efni. Alþjóðahafrannsóknaráðið hefur verið að safna gögnum síðan 1990 um þessi mál og þegar menn fara að skoða þetta þá eru spurningarnar fjölmargar og margar grundvallarspurningar sem okkur vantar svar við um áhrif þessara veiðiaðferða okkar. Við bætum ekki um það sem fyrir er en okkur ber skylda til að skýra þessa mynd fyrr en seinna og átta okkur á því að hér getur verið einn þátturinn af mörgum sem veldur rýrnandi uppskeru af Íslandsmiðum.
    Virðulegur forseti. Sem betur fer er vísir að athugun á þessum málum. Fyrsti vísirinn er í gangi hér. Það er hafin könnun á samfélögum botndýra við Ísland og áhrifum botnveiðarfæra á botndýralíf. Það er verið að fara af stað með þessi efni, mjög veikur vísir. Okkur ber skylda til að styrkja þessar athuganir og spara ekki til þess fjármagn eins og gætt hefur varðandi undirstöðuþætti í sambandi við okkar sjávarlíf. Menn hafa verið að fella hér tillögur um smáupphæðir til þess að skoða samhengið í sambandi við hrygningu og klak á aðalnytjastofnum okkar eins og þorskinum. Fella hér á Alþingi tillögur sem sá sem hér talar hefur verið að bera fram og fleiri sem undir það mál hafa tekið, um litlar upphæðir, 5, 10, 15 millj., til þess að fylgjast með hrygningu og klaki þorskstofnsins til að svara grundvallarspurningum sem við þurfum auðvitað að hafa upplýsingar um.
    Virðulegur forseti, það má kannski ekki segja það, en það er margt sem mætti segja á þessu afmælisári lýðveldisins, við erum eins og villimenn að mörgu leyti í okkar samskiptum við lífríki hafsins, í

sambandi við sóknina, í sambandi við það alveg sérstaklega hvað við spörum við okkur, hvað við erum sparir á spurningar, að spyrja spurninga og veita fé til að afla svara um þessa undirstöðu.
    Ég nefndi Alþjóðahafrannsóknaráðið og ég hef hér gögn, virðulegur forseti, sem tengjast þeim athugunum sem eru að fara í gang á þeim vettvangi varðandi það sem ég hef verið að koma að hér. Við eigum að fylgjast með hvað er að gerast á alþjóðavettvangi í þessum efnum vegna þess að ég er sannfærður um að það getur varðað miklu fyrir framtíð okkar og undirstöðu okkar efnahagslega sem er sjávarútvegurinn og mun lengi verða.
    Annað er síðan, virðulegur forseti, hvernig við höldum á úthlutun aflaheimilda, hvað við opnum fyrir mikla nýtingu á okkar veiku fiskstofnum, fiskstofnum sem verið hafa sannanlega veikir hin síðari ár. Þar blasir ekki við sérstaklega falleg mynd, virðulegi forseti, litið til síðari ára. Það þarf ekki að fara langt til þess að sjá hvernig gleikkað hefur á milli ráðgjafar vísindamanna og ákvarðana stjórnmálamanna, hvernig við stjórnmálamenn --- ég vil ekki vera að skera mig frá í því mengi stjórnmálamanna --- höfum staðið að málum í sambandi við ákvarðanir á hámarksafla langt umfram vísindalega ráðgjöf. Ég vil þó segja núv. hæstv. sjútvrh. til nokkurs hróss --- ég þarf ekki að segja málsbóta, hann stendur fyrir sínu hæstv. ráðherra, vel meinandi út frá sínum sjónarhóli --- en ég verð að segja honum það til hróss að ég tel að hann hafi staðið sæmilega í ístaðinu gegn kröfum um algerlega óábyrgar ákvarðanir að því er varðar sóknina, varðar hámarksafla, í okkar meginnytjastofn og þar hefur verið knúið á við ríkisstjórnarborð eins og við þekkjum. Og ég vænti þess að hver sem á máli heldur þá færumst við frekar í þá áttina að vera varúðarmegin varðandi þessa undirstöðu og það er alveg sérstök nauðsyn á því í ljósi þeirrar miklu óvissu sem er um samhengið í lífríki hafsins á Íslandsmiðum og þess vaxandi misræmis á milli tæknivæðingar og tæknilegra möguleika og þekkingar okkar á auðlindinni.
    Virðulegur forseti. Ég vék að því að einn þáttur þessa máls og hef reyndar komið aðeins að því, snertir samskiptin út á við í sjávarútvegsmálum. Þar var gerður samningur í tengslum við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, um samskipti Íslands við það sem nú er kallað Evrópusambandið. Það er samningur sem felur m.a. í sér að innan ekki langs tíma, líklega frá miðju sumri, koma fyrstu fleyturnar frá Evrópusambandinu inn á Íslandsmið til þess að keppa við íslenska sjómenn um veiðar úr okkar takmörkuðu auðlind, til að sækja þau 3.000 þorskígildistonn sem þar er opnað fyrir innan ákveðinna svæða. En svo haganlega er um þennan samning búið, eins og flest annað sem lýtur að samskiptum við Evrópusambandið og tengist samningnum um Evrópskt efnahagssvæði, að það er Evrópusambandið sem hefur undirtökin. Því þó að reynt hafi verið að marka þessi svæði af þá eru innbyggðar inn í samninginn sjálfan heimildir til þess að fara út fyrir ef þeir ná ekki sínum afla innan hinna afmörkuðu svæða og veiðarnar reynast óhagkvæmar. Þessi tvíhliða samningur sem þarna er skollinn á, genginn í gildi, er ein af þessum dæmalausu ákvörðunum sem minnir á samskipti nýlenduveldis og hálfnýlendu í sambandi við ákvæði hans.
    Virðulegur forseti, það er gert ráð fyrir því að þessi samningur gildi í 10 ár og hann er nánast að segja óuppsegjanlegur svona eins og reynt er að búa um hlutina. Auðvitað er það sem betur fer svo að það má hrista af sér hlekki ef vilji er fyrir hendi. En þannig er um hnútana búið í þessum samningi, í 12. gr. samningsins við Efnahagsbandalag Evrópu, eins og það hét, í fyrirsögn um fiskveiðimál og lífríki hafsins, með leyfi forseta:
    ,,Þessi samningur skal í fyrstu gilda í 10 ár frá gildistökudegi hans. Ef hvorugur aðili hefur sagt samningnum upp með tillkynningu um uppsögn a.m.k. 9 mánuðum áður en sá tími rennur út`` --- þ.e. þessi 10 ár --- ,,skal hann gilda áfram í 6 ár í senn upp frá því að því tilskildu að tilkynning um uppsögn hafi ekki borist a.m.k. 9 mánuðum áður en hvert slíkt tímabil rennur út.``
    Þetta er svona sýnishorn af þessum hliðarsamningi sem þarna var gerður við Evrópusambandið um fiskveiðimál og lífríki hafsins eins og það heitir. Síðan segir í 2. tölul. sömu greinar, virðulegur forseti:
    ,,Ef samningnum er sagt upp í samræmi við ákvæði fyrri mgr. skulu aðilar hefja viðræður um annan samning til að tryggja lagalegan grundvöll á framkvæmd á samkomulagi því sem felst í erindaskiptum um fiskveiðimál sem voru undirrituð í Óportó 2. maí 1992``, en þar var það sem grunnurinn var lagður að niðurstöðunni í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og þetta er einn af fylgisamningum þess.
    Nú ætla ég ekki að fara út í þennan samning einan sér, virðulegur forseti, en ég vil aðeins áður en ég kveð þetta mál koma frekar að því sem snertir hin nýju siglingaljós sem verið er að draga upp í sambandi við samskipti Íslands og Evrópusambandsins. Það eru auðvitað ekki lítil tíðindi, virðulegi forseti, þegar næststærsti flokkur þjóðarinnar, Framsfl., breytir um stefnu með þeim hætti sem birtist mönnum á miðstjórnarfundi flokksins um síðustu helgi. Tók það sem núv. hæstv. forsrh. landsins kallar vinkilbeygju í áttina að sjónarmiðum sínum, hver svo sem þau nú eru. Þau hafa kannski ekki verið skilgreind mjög nákvæmlega af hæstv. forsrh., hvaða veganesti hann ætlar að vera með í töskunni þegar hann fer í erindreksturinn til Brussel. Þessa ótímasettu ferð sem hann hefur undirbúið án þess að kalla til utanrrh. landsins, því það er ekki hann sem á að vera þar til leiðsagnar, virðulegi forseti, heldur trúlega einhverjir aðrir sem farið er að kalla til. Kannski þeir sem tóku þessa snilldarvinkilbeygju um síðustu helgi í Evrópumálunum.
    Það er nefnilega komið á daginn, virðulegur forseti, að Framsfl. hefur gefið þeirri samþykkt sem gerð var á Alþingi Íslendinga í fyrravor, um tvíhliða samskipti við Evrópusambandið, alveg nýtt inntak með þeirri þriðju leið svokölluðu sem nýbakaður formaður flokksins hefur boðað alþjóð og vill að verði eitt aðalátakamálið í komandi kosningum. Í stað þess að Íslendingar leiti tvíhliða samnings utan við Evrópusambandið, standandi utan við Evrópusambandið, þá er það nú boðað að inn í sali ákvarðana þurfum við að komast. Það er stefnan, það er veganestið sem hin nýja forusta í Framsfl. er farin að sýna þjóðinni og ætlar að leggja upp með, e.t.v. til aðstoðar núv. hæstv. forsrh. þegar hann tekur ákvörðun um að fara þessa ferð sem enn er ótímasett.
    Virðulegur forseti. Ég var í hópi þeirra hér á Alþingi, þeir voru nú ekki margir, í fyrravor sem bentu á að það væri heldur ótryggt innihaldið í þeirri samþykkt sem gerð var að tillögu utanrmn. í tilefni þáltill. um tvíhliða samkipti við Evrópusambandið. Ég sagði þegar þessi mál komu til atkvæða hér, ég leyfi mér að rifja það hér upp með þínu leyfi, virðulegi forseti:
    ,,Það er vissulega góðra gjalda vert að á þeirri stundu sem Alþingi samþykkir samninginn um Evrópskt efnahagssvæði skuli ekki fylgja með aðildarumsókn að Evrópubandalaginu,`` --- eins og það hét þá. ,,Það hefur heldur ekki legið í loftinu að slík umsókn yrði send. Sú þáltill. sem hér liggur fyrir frá utanrmn. boðar því út af fyrir sig engin ný tíðindi og sjálf tillagan er með þeim hætti að þeir sem að henni standa geta vísað til margra átta þegar lesið er í tillögutextann. Þetta kom fram þegar hæstv. utanrrh. svaraði fyrirspurnum um það hvernig hann liti á tillöguna, efni hennar. Þetta kom fram af hálfu formanns utanrmn. þegar hann svaraði hliðstæðum fyrirspurnum um málið.
    Tvíhliða viðræður við Evrópubandalagið var tillaga af hálfu Alþb. á sínum tíma sem kostur í staðinn fyrir samning um Evrópskt efnahagssvæði. Ekkert slíkt er á ferðinni með þessum tillöguflutningi. Innihaldið í þessari tillögu er það, með því að reyna að lesa sem jákvæðast í málið, að fari svo að Evrópskt efnahagssvæði liðist í sundur vegna þess að þátttökuríkin gangi í Evrópubandalagið, þá, og þá fyrst, er hugmyndin að taka upp viðræður um samskipti Íslands við Evrópubandalagið, tvíhliða viðræður um samskipti Íslands við Evrópubandalagið.``
    Jafnframt segi ég í þessari atkvæðaskýringu, virðulegur forseti:
    ,,Mér finnst að með þessari tillögu, virðulegur forseti, sé Alþingi Íslendinga að klæðast í sauðargæru, þeir aðilar sem hafa verið að samþykkja hér með beinum stuðningi eða hjásetu samninginn um Evrópskt efnahagssvæði. Og þó að við þykjumst sjá að eyrun standi út fyrir þessa sauðargæru hjá ýmsum og tvö höfuð séu á sumum sem að málinu standa, þá er það svo að ég teldi miklu farsælla að menn kæmu fram hér með skýrum hætti í sambandi við mál sem þetta.``
    Og ætli það sé nú ekki farið að koma í ljós, virðulegur forseti, ( Gripið fram í: Meira en einu sinni.) hvaða sauðargæra það var sem menn voru að smeygja yfir sig, sveipa sig á vordögum í fyrra. Þeir eru að koma undan henni núna, þeir hinir sömu sem gengu undir kjörorðinu: Aldrei í Evrópubandalagið, eins og það hét þá, X-B, fyrir síðustu kosningar. Þeir eru nú komnir fram með það sem fremstu kröfu að komast inn fyrir til áhrifa í ráðherranefndunum í Brussel. Öllu skjótari sviptingar hafa ekki sést í íslenskum stjórnmálum í seinni tíð og satt að segja heldur sérkennilegt að geta ekki beðið eftir því að menn kæmust inn fyrir múra Seðlabankans, þeir sem áður höfðu völdin þar í flokki, þó ekki væri nema af mannúðarástæðum og tillitssemi, áður en þessi nýi boðskapur var fram settur. En það lá svona mikið á.
    Virðulegur forseti. Þetta mál, sem samkvæmt forskrift Framsfl. á að verða helsta kosningamálið fyrr en seinna, varðar það efni sem við ræðum hér, meðferð sjávarútvegsmála, ákvarðanir í þeim efnum, með mjög skýrum hætti. Það stjórnkerfi fiskveiða sem hér var innleitt 1984 og enn frekar eftir að það var markaðsvætt 1990, tengist einnig með beinum hætti spurningunni um samskipti við Evrópusambandið á sjávarútvegssviði, ég tala nú ekki um ef stefna Alþfl. um veiðigjald yrði upp tekin, þannig að útlendingarnir gætu fari að bjóða í þetta og menn gætu haldið því fram, módelið gengi upp: Það er alveg sama hverjir veiða á Íslandsmiðum, alveg sama bara ef þeir borga fyrir það. En þær raddir heyrast einnig í umræðum um þessi mál. Og þá geta menn horft fram hjá þeirri sjávarúvegsstefnu sem gildir samkvæmt Rómarsamningi og getur skollið á hvenær sem er eftir 2002 til breytinga frá þeim óskapnaði sem menn búa nú við og er málamiðlun frá 1982 með breytingum sem teknar hafa verið síðan.
    Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að lengja þetta mál mitt þó að ástæða væri til að víkja að mörgum fleiri þáttum, ekki síst varðandi það málefni sem ég var að koma að hér síðast, þeim veðrabrigðum sem eru orðin á stjórnmálasviðinu á Íslandi nú síðustu dagana, eftir að Framsfl. er búinn að lyfta upp fjórfrelsisflagginu með jafnmyndarlegum hætti og gert hefur verið og setja fram kröfuna um að komast til áhrifa í Brussel. Komast til áhrifa í Brussel. Við skulum vona, virðulegur forseti, að fólkið í landinu beri gæfu til þess að sjá til þess að sú för verði ekki farin sem þarna er verið að efna til. Undir því eru komin örlög þessarar þjóðar sem margir tengja þeim aldamótum sem eru fram undan. Þessu tengjast stærstu spurningarnar um framtíð Íslands.