Stjórn fiskveiða

149. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 13:03:09 (7104)


[13:03]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það voru hugleiðingar hv. 1. þm. varðandi markaðsbúskap og markaðskerfi sem kölluðu á að ég veitti andsvar.
    Ég er þeirrar skoðunar að það sem varðar þjóðnýtingu á Íslandi sé aðeins spurningin um náttúruauðlindina. Það séu náttúruauðlindirnar sem þjóðin þurfi að eiga sameiginlega, sjávarauðlindirnar, auðæfi í jörðu, landið. Þetta er það sem á að vera sameign okkar. Að öðru leyti eigum við að búa við markaðsbúskap í því formi að fyrirtækin sjái um sig og séu sjálfstæðar einingar en ekki í ríkisrekstri. Þetta hefur lengi verið mitt viðhorf.
    Ég vara hins vegar við óheftum markaðsbúskap. Ég tel að hinum óhefta markaðsbúskap, sem er að færa mjög út kvíarnar þessi árin og stefnir í það sem kallað er alþjóðavæðing undir merkjum GATT og

síðan hinna stóru bandalaga undir fána fjórfrelsisins, tengist slíkar hættur að þeir sem gera sér þær ljósar hljóti að gera kröfur til þess að þar séu settar hömlur. Þessar hættur tengjast í fyrsta lagi umhverfinu og í öðru lagi vinnuaflinu og aðgengi fólks til vinnu. Sívaxandi atvinnuleysi á Vesturlöndum eru afleiðingar af samtvinnuðum óheftum markaðsbúskap og tæknivæðingu sem veldur því að 35 millj. manna, 20 millj. í Evrópu, eru nú skráðar atvinnulausir.
    Það eru þessar hættur sem menn verða að horfast í augu við og gera upp við sig. Ætla þeir að reisa skorður við þessum óhefta markaði eða ætla þeir að færa sig inn á þá slóð? Því miður finnst mér að Framsfl. hafi farið í öfuga átt með því að gerast talsmaður fjórfrelsisins svokallaða, hins óhefta markaðsbúskapar, að undanförnu.