Fullgilding ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um bókun 47

158. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 12:25:30 (7952)


[12:25]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það er mjög eðlilegt að umræða um þá till. til þál. sem hér er á dagskrá tengist því sem hv. 8. þm. Reykn. ræddi um og ekki síður hæstv. forsrh. Þó að ég ætli að koma að meginmálinu í minni ræðu, þá vil ég fara nokkrum orðum um það sem kom fram hjá hæstv. forsrh. í sambandi við stöðu samskipta okkar við Evrópusambandið. Ég tel vel að það skuli koma til umræðu fyrir frestun á fundum Alþingis þannig að menn leggi kannski svolítið nær um sjónarmið út í umræðuna sem hlýtur að fara fram í þjóðfélaginu á næstu mánuðum. Ef farið væri að vilja sumra og raunar nýbakaðs formanns Framsfl., þá væri verið að leggja þar upp í umræðu í aðdraganda alþingiskosninga sem sá ágæti hv. þm. hefur sett fram að ættu að fara fram þegar á næsta hausti og inntakið í þeirri baráttu af hálfu Framsfl., ef marka má formanninn, ætti að vera afstaða til Evrópumálanna.
    Ég tel að það sem kom fram hjá hæstv. forsrh. hafi verið athyglisvert og treysti því að orð hans

í sambandi við viðræður við Evrópusambandið í framtíðinni ætti að ganga út frá þeim grundvelli að Ísland væri ekki að leita eftir aðild að Evrópusambandinu heldur einvörðungu að bregðast við breytingum sem hugsanlega koma upp vegna þess að grundvöllur samningsins um Evrópskt efnahagssvæði væri hruninn með einhverjum hætti við inngöngu EFTA-ríkjanna margra í Evrópusambandið. Það skiptir meginmáli út frá hvaða sjónarhorni Ísland á hlut að viðræðum við Evrópusambandið og þó að ég sé andstæðingur samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði og telji hann hafa verið mjög ófarsælan gjörning, óviturlegan og ástæðulausan miðað við íslenska hagsmuni, þá þurfum við að sjálfsögðu að skoða landslagið út frá því á meðan sá samningur er í gildi.
    Ég fagna því að hæstv. forsrh. lýsir því yfir að umsókn um aðild að Evrópusambandinu sé ekki á dagskrá og hæstv. forsrh. meti það svo að ekki sé þörf á því miðað við íslenska hagsmuni eins og hann lítur til þeirra að breyta þeirri afstöðu og ég vona að sem lengst verði haldið við það sjónarmið. Hitt dylst engum að mjög er knúið á um það að allvíða í samfélaginu, kannski ekki af mjög mörgum en hins vegar nokkuð valdamiklum aðilum, að þarna verði breyting á. Ég er ekki í vafa um það að innan Sjálfstfl. mun þess þrýstings gæta áframhaldandi eins og hann hefur verið um alllangt skeið, að ekki sé nú talað um hinn stjórnarflokkinn, Alþfl., sem hefur verið að gæla við það leynt og ljóst undanfarið, og reyndar alllengi ef litið er til einstakra þingmanna flokksins og ummæla þeirra á Alþingi, að venda kvæði í kross og komast alla leið eins og það er kallað, sækja um aðild að Evrópusambandinu. Við þetta heygarðshorn eru menn nú þessa dagana og þarf ekki annað en fletta flokksmálgagninu, Alþýðublaðinu, og líta í leiðara þar til þess að sjá hvert verið er að stefna, í hvaða átt er talað. Það mun væntanlega skýrast innan skamms á flokksþingi Alþfl. hvort Alþfl. í heild sinni tekur upp nýja stefnu að þessu leyti, innsiglar það sem forustan hefur verið að gæla við leynt og ljóst undanfarið og er þess ekki langt að bíða að menn sjái betur á þau spil.
    Ég er út af fyrir sig ekki undrandi á því að þessar raddir skulu vera komnar fram hjá Alþfl. í þetta ríkum mæli því að það hefur blasað við mjög lengi að það væri viðmiðunin, það væri áttavitinn sem siglt væri eftir og þarf ekki að koma mjög á óvart. Ég nefndi það að innan Sjálfstfl. hefðu komið fram raddir í þessa veru m.a. frá ráðherrum í ríkisstjórninni. Nægir að minna á ummæli hæstv. menntmrh. 4. mars sl. við fjölmiðla þar sem hann útilokaði ekki að sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu, eins og hann orðaði það við fjölmiðla, þó ekki væri nema til að kanna með fullri vissu hver verða skilyrðin sem við verðum að sæta. Þetta er búningur sem málið er stundum klætt í en öllum ætti að vera ljóst að um einhverja slíka tilraunaumsóknaraðild getur ekki verið að ræða. Sú umræða fór fram á Norðurlöndunum og var alls staðar vísað frá af stjórnmálamönnum sem vildu láta taka sig alvarlega að menn mundu ekki fá nein viðbrögð af hálfu Evrópusambandsins við slíkum sýndartilraunum til umsóknar eða aðildar að Evrópusambandinu.
    Það var varað við því, virðulegur forseti, oft þegar við ræddum um samninginn um Evrópskt efnahagssvæði að þau öfl sem vildu fara alla leið mundu reyna að nýta þá stöðu sem þá kæmi upp til þess að knýja á um aðild og það hefur raunar komið á daginn eftir að samningurinn var gerður og lögfestur hér á Alþingi að sú er raunin þó að enn sé mikill meiri hluti hér á Alþingi og þeir sem mæla hér fyrir hönd flokka sem mæla gegn slíku. Og það er ánægjulegt á meðan sú staða helst. En hver er þá staðan að því er varðar hið Evrópska efnahagssvæði og líkurnar á því að þær aðstæður skapist að EES-byggingin hrynji til grunna? Ég er sammála þeim sem segja sem svo að það sé of snemmt að fullyrða nokkuð um það hver verði niðurstaðan í þjóðaratkvæðagreiðslum Norðurlandanna þriggja sem sótt hafa um aðild að Evrópusambandinu. Það er allt of mikið gert af því að ganga að því sem gefnu að það verði farið að ráðum ríkisstjórna þessara landa sem gert hafa samninga um aðild við Evrópusambandið og í rauninni full ástæða til að gagnrýna það með hvaða hætti hefur verið haldið á málum af ríkisstjórnum Norðurlanda. Þá er ég ekki að tala um íslensku ríkisstjórnina heldur aðrar ríkisstjórnir Norðurlanda, að breyta grunni Norðurlandasamvinnunnar, Norðurlandasamstarfsins út frá þeirri forsendu að þetta verði staðreynd. Og á sama hátt tel ég að undirbúningur eða breytingar á norrænu samstarfi og störfum innan t.d. hins Evrópska efnahagssvæðis sem gangi út frá því að þetta verði staðreynd, sé ótímabært og raunar mjög ólýðræðislegt að það sé gengið út frá því sem gefnu að sú verði niðurstaðan.
    Ég veit auðvitað ekkert meira en aðrir um það hvað gerist í þjóðaratkvæðagreiðslum í þessum löndum síðast á árinu. Það er aðeins sjónarmið sem maður getur leitt að líkum út frá stöðu í löndunum. En menn sjá sem horfa á mælingar skoðanakannana að andstaðan er mjög eindregin, mjög mikil og eindregin innan landanna, í Noregi sérstaklega, í Svíþjóð raunar einnig þannig að alls ekki er hægt að fullyrða að þessi lönd bæði hafni inni í Evrópusambandinu að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu og gæti sem best gerst að þau bæði yrðu utan við og þá er auðvitað staðan allt önnur heldur en menn hafa verið að ganga út frá, allt önnur. Þessi andstaða sem hæstv. forsrh. minnti á hér í Noregi er svo rótgróin og liggur svo djúpt í norsku samfélagi að það á mikið eftir að ganga á áður en einhver sátt tekst þar í þjóðfélaginu um það jafnvel þó það tækist að mundanga því máli í gegn með þeim aðferðum sem nú eru í gang þar sem verið er að reyna að dagsetja þjóðaratkvæðagreiðsluna þannig að þetta megi takast. Þessi aðferð er kennd við dómínó, þetta púsluspil ríkisstjórna Norðurlandanna, byrja á Finnlandi, síðan í Svíþjóð og að lokum í Noregi vegna þess að menn hafa metið að andstaðan væri í þessari röð, þyngdist eftir því sem aftar drægi í þessari rök sem ég nefndi, svo að það er nú rétt að bíða og sjá hvað þarna gerist. Að mínu mati er það mikið aðdáunarefni talað út frá sjónarhóli þeirra sem eru andstæðir því að ganga inn í Evrópusamrunann,

inn í Evrópusambandið sjálft að sjá hversu víðtæk umræða fer fram í þessum löndum, hversu andstæðingar aðildar þó að þeir hafi mun minna bolmagn áróðurslega með aðgang að fjölmiðlum og ekki sé talað um fjármagn, hversu föstum fótum þeir standa í umræðunni og spyrja spurninga sem auðvitað verður að spyrja þegar verið er að undirbúa uppgjör í svo afdrifaríku máli. Ég held að það væri ástæða fyrir okkur Íslendinga að reyna að sameinast um það að vekja hér upp alvöruumræðu um þessi mál byggða á þokkalegum upplýsingum en ekki bara upphrópunum eins og hefur gætt allt of mikið og hér var minnst á í umræðunni og hefur vafalaust leitt til þess að það hefur gripið um sig ákveðinn ótti hjá fólki, sem kannski setur sig ekki mikið inn í málin. Og það eru eldar, upphrópanirnar um einangrun sem Alþfl. gengur lengst í að kynda og má lesa um í flokksmálgagninu núna síðustu daga enn og aftur. Ég tel að þau sjónarmið sem benda á að hér sé verið að magna upp, gera úlfalda úr mýflugu eigi einnig við um umræðuna í aðdraganda þess að EES-samningurinn var samþykktur, áróðurinn um einangrun Íslands og að við ættum ekki annarra kosta völ. Þá umræðu ætla ég ekki að taka upp hér gagnvart EES-samningnum sérstaklega en minni aðeins á það og því miður fór ekki fram í samfélaginu sú grundvallarumræða um okkar kosti í veröldinni aðra en fara út í þetta Evrópusamstarf í því formi sem var ákveðið af Íslands hálfu fyrir ekki löngu síðan.
    Virðulegur forseti. Þetta ætla ég að láta nægja hér varðandi stöðuna að því er snertir spurninguna um aðild eða ekki aðild. Við hljótum á komandi mánuðum að fylgjast með því hvernig flokkarnir halda á þessum málum, hvernig þeir móta sína stefnu og ég vék hér fyrir fáum dögum sérstaklega að Framsfl. í því efni, þeim nýju siglingaljósum sem þar hafa verið sett upp, þeirri vinkilbeygju, svo ég noti líkingu hæstv. forsrh., sem hinn nýi formaður Framsfl. hefur tekið í sambandi við Evrópumálin og hvað sem líður ummælum formanns þingflokks Framsfl. um að engin stefnubreyting hafi orðið, þá verður þess ekki langt að bíða að það heyrist frá þeim fjölmörgu innan Framsfl. svo það sé nú ekki talað um þá sem stutt hafa flokkinn sem hafa þegar hrokkið við og eiga að ég vona eftir að gera sig nokkuð gildandi þegar tekið er slíkt heljarstökk eins og þarna var gert við forustuskipti í flokknum. En ég ætla sem sagt ekki að fara út í þá umræðu frekar hér, virðulegi forseti, og tel að við þurfum við fyrstu hentugleika sem verða kannski ekki fyrr en að hausti að fara yfir þessi mál og þá kannski með eitthvað skýrari mynd af afstöðu flokkanna í þessum efnum.
    Ég ætla þá að víkja nokkrum orðum, virðulegur forseti, að þessum nær 500 gerðum sem við erum að taka hér inn í íslenska löggjöf eða íslenskan rétt með þeirri þáltill. sem hér liggur fyrir og vekja athygli á nokkrum atriðum sem tengjast þessu máli. Það er ekki að ástæðulausu að Alþb. leggur til að þessu máli verði vísað til ríkisstjórnarinnar vegna þess að það sé ekki tímabært að fara að taka afstöðu til þessa pakka eins og aðstæður hafa verið hér í þinginu frá því að hann var lagður fram og eins og möguleikar hafa verið takmarkaðir til þess að fara yfir þessi efni. Svo það er ekki annað en að endurspegla þær aðstæður sem við leggjum til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar og tekið upp með öðrum hætti og bærilegri fyrir þingið til þess að fjalla um þetta stóra mál sem hér er á ferðinni.
    Nú er ekki hægt að fara í umræðu hér við 2. umr. málsins út í það að ræða um þessar 500 gerðir í einstökum þáttum þó að margar þeirra séu á við hin stærstu stjórnarfrumvörp að efnisinnihaldi, umfangi og afleiðingum og væri þess vegna þörf á því að ræða þær. En ég minni í þessu sambandi, virðulegi forseti, á það að hæstv. starfandi utanrrh. fyrir þann sem venjulega er í þeim stóli, hæstv. núv. iðnrh. mælti fyrir þessu máli á 5 mínútum eða þar um bil þegar málið var lagt fyrir þingið. Þær greinargerðir sem við höfum fengið um málið og þau nefndarálit sem fyrir liggja varðandi málið eru ekki sérstaklega upplýsandi og þá á ég sérstaklega við áliti meiri hlutans sem mælir með því að þessi þáltill. verði samþykkt og þessar gerðir verði þar með gerðar að þjóðarrétti a.m.k. og vísar til þess að margt af þeim sé þegar orðið hluti af landsrétti með lögfestingu eða verði það með setningu reglugerðar á grundvelli gildandi laga. Mönnum hættir til þess, virðulegur forseti, í sambandi við þetta mál að segja sem svo: Er þetta eiginlega nokkuð sem kemur okkur við? Er þetta ekki mikinn part eitthvað sem varðar okkur Íslendinga sáralítið og við þurfum ekki að hafa áhyggjur af? Ég verð nú að segja það að svör við þeirri spurningu hafa í rauninni aldrei verið veitt, engin greining hefur farið fram á því af neinum hér í þinginu að ég veit og tel þá utanrmn. með vegna þess að þrátt fyrir yfirferð hennar á nokkrum fundum á undanförnum mánðum á þessum gerðum hafa menn eingöngu verið að styðjast við yfirheyrslur og ummæli embættismanna í stjórnkerfinu og tekið þeirra orð fyrir því og fyrst og fremst út frá því sjónarhorni hvað er nauðsynlegt að lögfesta eða breyta í íslenskum lögum af þessum sökum en ekki til þess að leggja efnislegt mat á þennan pakka í heild sinni og efnisleg áhrif hans á íslenskt samfélag.
    Mér þætti vænt um, virðulegi forseti, ef hæstv. utanrrh. væri viðstaddur þessa umræðu. Ég sé ekki formann utanrmn. í sal en hann mun raunar vera að tygja sig til ferðar sem ég ætla ekki að hafa af honum með því að krefjast nærveru hans en formaður utanrmn. er sá sem af þingsins hálfu hefur forræði fyrir málinu.
    Ég vil fara aðeins yfir stöðuna að því er snertir þessar gerðir allar saman með tilliti til íslensks réttar með spurninguna um landsréttinn annars vegar og þjóðarréttinn hins vegar og hvaða þýðingu það hefur fyrir okkur í rauninni að vera að greina þarna á milli. Í þessum efnum er löggjöfin og lögfestingin á samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði býsna óljós og ógreinileg en að mínu mati liggur málið þannig að þessi pakki allur sem hér er til umræðu, fimm bækur ofan á þessa sem ég held á hér, eru bindandi fyrir okkur Íslendinga þannig að það má ganga út frá því að ef til dómsmála kemur út frá þessum gerðum og málin fara fyrir dóm, þá munu þeir dómstólar sem um þetta fjalla líta fyrst og fremst á þjóðarréttinn eins og frá málinu er gengið en landsrétturinn verða heldur fyrirferðarlítill ef menn á annað borð eru að greina þar á milli.
    Ég vil í þessu sambandi, virðulegur forseti, minna á lögin um hið Evrópska efnahagssvæði, grunnlögin sem staðfesta samninginn. En þar segir í 3. gr. þeirra laga:
    ,,Skýra skal lög og reglur að svo miklu leyti sem við á til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja.``
    Þetta er 3. gr. í lögfestingunni sjálfri. Síðan vísa ég til þess að í 119. gr. samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði eru þessar gerðir allar og þær sem þegar hafa verið afgreiddar með samþykkt samningsins lýstar óaðskiljanlegur hluti hans. Og þar við bætist síðan að í sérstakri bókun sem fylgir samningnum, í bókun 35, um framkvæmd á reglum EES, segir, með leyfi forseta:
    ,,Ef upp kemur misræmi milli EES-reglna sem hafa verið lögfestar og annarra ákvæða í lögum skuldbinda samningsaðilar sig til að innleiða eftir því sem þörf krefur ákvæði í lög þess efnis að reglur EES gildi í því tilviki.``
    Hér er í rauninni búið þannig um hnútana að þjóðarrétturinn er settur ofar landsréttinum að því er samninginn varðar og það alþjóðlega dómsvald sem á að fjalla um ágreiningsefni hefur alla aðstöðu til þess að láta Evrópuréttinn, þennan pakka og þá sem þegar eru komnir vera það sem gildir ef í deilur fer fyrir dómstólum innan þess kerfis sem þarna er byggt á. Það sem verið að reyna af hálfu þeirra sem mundönguðu samningnum um Evrópska efnahagssvæðið í gegn hér á Alþingi var að komast hjá árekstrum við stjórnarskrána og ýmislegt í framsetningu mála var sniðið að því að það stæðist stjórnskipunarlega eða menn gætu með svona sæmilegri samvisku reynt að halda því fram og þá á ég við talsmenn samningsins hér á Alþingi að hann væri ekki brot á stjórnarskránni. Eins og við vitum varð það niðurstaða meiri hluta á Alþingi að hunsa allar aðvaranir í þeim efnum en svo getur auðvitað farið á seinni stigum að á þetta reyni, stöðu samningsins gagnvart stjórnskipun okkar, þ.e. gagnvart íslenskri stjórnarskrá.
    Ég er að vekja athygli á þessu hér þegar við erum að fjalla um þessa stóru viðbót sem hér er rædd í Evrópuréttinum sem við erum að innleiða hér og bæta við okkar stjórnskipun eins og um hnútana er búið í þessum efnum og hversu mikið alvörumál er hér á ferðinni efnislega séð og að því er snertir aðstöðu þingsins til þess að fjalla um málið.
    Ég hef minnt á það, virðulegi forseti, eða þarf ekki að rifja það upp hér í mörgum orðum andstöðuna við grundvöllinn sem þessi samningur við Evrópska efnahagssvæðið byggist á, það fjórfrelsi sem er undirstaða hans og ætla ekki að endurtaka það hér frekar. En ég vil vekja athygli á þeirri miklu breytingu sem orðið hefur á aðstöðu þingsins til lagasetningar með þessum samningi og hver gerbreyting í rauninni verður á öllum undirbúningi og lýðræðislegu aðgengi almennings í landinu svo að ekki sé nú verið að tala um okkur þingmenn sérstaklega heldur almennings á Íslandi til þess að hafa áhrif á lagasetningu og mótun löggjafar í landinu. Hvaða umræða hefur farið fram hér í þinginu um þennan stóra pakka? Hún er ekki löng og sú skoðun mála í nefndum þingsins er ekki mikil, hvað þá að það hafi borist almenningi til eyrna hvert er innihaldið í þessum nær 500 gerðum sem hér er verið að gera að þjóðarrétti með þessari þáltill. Það er þessi breyting á lýðræðislegu hlutverki Alþingis, löggjafarvaldsins, sem er kannski það djúptækasta og alvarlegasta í þessari vegferð allri og e.t.v. á tómahljóðið, sem maður finnur í störfum Alþingis á því þingi sem nú er senn að ljúka, rót sína að rekja til þess að lýðræðislegt hlutverk Alþingis sem löggjafarvalds hefur stórlega veikst við gerð samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði og það ferli í löggjafarstarfi sem honum tengist þar sem við fáum frumvörpin að utan, gerðirnar að utan sem við erum að fjalla um hér og lögfesta eða blessa með öðrum hætti og almenningur í landinu stendur álengdar með öllu, getur í rauninni engum sjónarmiðum fram komið og ekki við alþingismenn heldur vegna þess að þetta berst okkur hér sem frágenginn hlutur. Þetta mun halda áfram.
    Alþingi er komið í þá aðstöðu að þurfa að taka við lagasetningu á þýðingarmiklum sviðum þjóðmála, margir mundu segja þýðingarmestu sviðum þjóðmála, að fá þau aðsend og geta í rauninni þar ekki breytt stafkrók, aðeins hafa möguleikana á að hafna slíkri lagasetningu, slíkri reglu utan að frá en með litlum möguleikum í raun til þess að koma þar vörnum við. Ég vil mótmæla þessum vinnubrögðum sem liggja að baki þessari þáltill. sem við ræðum hér og harma það í hvaða aðstöðu við erum komin. Það má vera huggun þegar litið er á þetta mál að samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði er uppsegjanlegur samningur með árs fyrirvara. Ég hef sagt það áður að við því er ekki að búast að á slíkt reyni alveg í bráð eftir að þessi samningur hefur verið samþykktur. Vafalaust vilja flestir læra eitthvað af reynslunni, en aðalatriðið í núverandi stöðu er þó það að festa sig ekki fastar í neti hins evrópska samruna og halda leiðunum til baka opnum og reyna að tryggja á Alþingi og í samfélaginu öllu sem bestar aðstæður til þess að fara málefnalega yfir stöðu Íslands og möguleika Íslands í samskiptum við Evrópu og frá mínum sjónarhóli án þess að ganga þar lengra heldur en orðið er því að það væri skref sem væri enn alvarlegra en það sem þegar hefur verið stigið.