Ferill 23. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 23 . mál.


23. Tillaga til þingsályktunar


um flutning verka Þjóðleikhússins og Sinfóníuhljómsveitar Íslands í ríkissjónvarpinu.

Flm.: Stefán Guðmundsson.


    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að leita leiða til að flutningur verka Þjóðleikhússins og Sinfóníuhljómsveitar Íslands geti hafist í ríkissjónvarpinu á árinu 1994. Jafnframt verði athugað með hverjum öðrum hætti starfsemi þessara stofnana og annarra hliðstæðra geti sem best náð til allra landsmanna.

Greinargerð.

    Árlega gengst Þjóðleikhúsið fyrir fjölda leiksýninga, jafnt á innlendum sem erlendum verkum. Sinfóníuhljómsveit Íslands heldur og á ári hverju marga tónleika. Flutningur þessara menningarverka á sér þó oftast stað í Reykjavík enda er Þjóðleikhúsið þar og Sinfóníuhljómsveitin er með starfsaðstöðu sína í borginni. Aðrir landsmenn en þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu eiga því erfiðara um vik að njóta þeirra sýninga og tónleika, sem í boði eru, í jafnríkum mæli og æskilegt væri. Með flutningi þingmáls þessa er lagt til að menntamálaráðherra verði falið að leita leiða til að landsmenn allir geti sem best notið listflutnings Þjóðleikhússins og Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Flutningsmanni er ljóst að hér er ekki um það að ræða að ríkissjónvarpið flytji öll verk sem þessir aðilar flytja á ári hverju en einhver þeirra skulu þó ætíð flutt.
    Ríkisútvarpið er sjálfstæð stofnun í eigu íslenska ríkisins, sbr. 14. gr. útvarpslaga, nr. 68/1985. Þá er Þjóðleikhúsið eign íslensku þjóðarinnar, sbr. 1. gr. laga nr. 58/1978, og greiðist kostnaður af rekstri þess úr ríkissjóði, sbr. 18. gr. laganna. Ríkissjóður greiðir 56% rekstrarkostnaðar Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Ríkisútvarpið 25%, sbr. 3. gr. laga nr. 36/1982. Hlutur Ríkisútvarpsins greiðist af menningarsjóðsgjaldi sem leggst á allar auglýsingar í útvarpi, sbr. 11. gr. laga. nr. 68/1985.
    Forsvarsmenn Þjóðleikhússins og Sinfóníuhljómsveitarinnar hafa eftir megni reynt að sinna öllum landsmönnum, t.d. með leikferðum, sbr. 15. gr. laga nr. 58/1978, og tónleikahaldi um land allt. En betur má ef duga skal. Allir landsmenn eiga rétt á að njóta verka þessara aðila. Það má m.a. auðveldlega gera með því að sjónvarpa frá leiksýningum og tónleikum þeirra. Til þess er ríkissjónvarpið rétti aðilinn, enda í eigu allra landsmanna. Slíkar sjónvarpssendingar tíðkast víða í nágrannalöndum okkar og hafa gefist vel. Þá hefur ríkissjónvarpið lítillega reynt fyrir sér á þessu sviði með góðum árangri.
    Ríkisútvarpið–sjónvarp hóf útsendingar sínar 30. september 1966 og hefur því starfað í 27 ár. Starfsemi þess hefur tekið miklum breytingum frá upphafi og er í stöðugri þróun enda háð tíðaranda hverju sinni. Ríkissjónvarpið hefur miklum skyldum að gegna við fólkið í landinu enda sameiginleg menningarstofnun þjóðarinnar. Því er eðlilegt að það sjái um flutning verka Þjóðleikhússins og Sinfóníuhljómsveitarinnar í sjónvarpi. Rétt þykir einnig að fela menntamálaráðherra að athuga með hverjum öðrum hætti starfsemi Þjóðleikhússins og Sinfóníuhljómsveitar Íslands geti náð sem best til allra landsmanna, svo og starfsemi annarra hliðstæðra stofnana, t.d. Íslensku óperunnar og Leikfélags Reykjavíkur.
    Hér mætti nefna fleiri til. Það er skoðun flutningsmanns að verði þessi þingsályktunartillaga samþykkt verði þeir fjölmiðlar, sem hér eru nefndir, vakandi yfir því hlutverki sínu að opna möguleika fyrir sem flesta til listflutnings í ríkisfjölmiðlunum. Verði svo er tilgangi þessarar þingsályktunartillögu náð.