Ferill 145. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 145 . mál.


161. Tillaga til þingsályktunar



um frekari útfærslu landhelginnar og réttindi Íslendinga á úthafinu.

Flm.: Steingrímur J. Sigfússon, Jóhann Ársælsson, Guðrún Helgadóttir,


Kristinn H. Gunnarsson, Margrét Frímannsdóttir, Ólafur Ragnar Grímsson,


Ragnar Arnalds, Svavar Gestsson, Þuríður Backman.



    Alþingi ályktar að kjósa sjö manna nefnd skipaða fulltrúum allra þingflokka til að kanna möguleika á frekari útfærslu íslensku efnahagslögsögunnar. Nefndin geri einnig tillögur um hvernig afla skuli ýtrustu réttinda Íslendingum til handa á hafsvæðum sem liggja að íslensku efnahagslögsögunni og á úthafinu og hvernig þeirra verði best gætt.
    Nefndin hafi í störfum sínum náið samráð við ráðuneyti og stofnanir sem málið varðar, svo og við utanríkis- og sjávarútvegsnefndir Alþingis. Nefndinni verði heimilt að ráða sér starfsmann tímabundið auk þess sem ráðuneyti og opinberar stofnanir aðstoði hana eftir þörfum. Kostnaður af störfum nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.
    Nefndin skili áliti í formi skýrslu til Alþingis og ríkisstjórnar svo fljótt sem við verður komið og eigi síðar en 1. mars 1994.

Greinargerð.


    Allt frá tímum hinna stóru áfanga í útfærslu landhelginnar á áttunda áratugnum hafa af og til verið uppi umræður um frekari skref í réttindabaráttu Íslendinga gagnvart aðliggjandi hafsvæðum. Lítið hefur þó gerst og kemur þar margt til, m.a. sú staðreynd að enn hefur hafréttarsáttmálinn ekki formlega öðlast gildi þar sem fjöldi ríkja, sem hefur fullgilt hann, er ekki nægur, nágrannaríkin hafa reynst treg til viðræðna og síðast en ekki síst höfðu Íslendingar næg verkefni innan eigin lögsögu fyrstu árin eftir útfærsluna. Nú er öldin önnur. Hvort tveggja hefur gerst að með niðurskurði aflaheimilda á hefðbundnum miðum og ört vaxandi nýtingu þeirra tegunda, sem áður gátu tekið við aukinni sókn, svo sem rækju, hafa íslensk skip sótt í auknum mæli út fyrir landhelgina, og sókn erlendra skipa á hafsvæðin umhverfis íslensku efnahagslögsöguna hefur stóraukist. Nægir þar að nefna úthafskarfaveiðar á Reykjaneshrygg og veiðar á blálöngu, búra, langhala og fleiri tegundum suður af landinu. Veiðar á rækju, karfa, kolmunna, loðnu, síld o.s.frv. í nágrenni við lögsögumörkin vestan, norðan eða austan við landið. Flestir þessara stofna eru að minnsta kosti að hluta til uppvaxnir eða dveljast innan íslensku lögsögunnar og eykur það enn á mikilvægi þess að tryggja réttarstöðu okkar gagnvart verndun og nýtingu þeirra.
    Veiðar íslenskra skipa á fjarlægari miðum á alþjóðlegum hafsvæðum, svo sem undan strönd Kanada og í Smugunni í Barentshafi, hafa svo vakið upp umræður um hagsmuni Íslendinga sem úthafsveiðiþjóðar.
    Nú stefnir í það að aflaverðmæti íslenskra skipa af veiðum utan efnahagslögsögunnar verði af stærðargráðunni 2,5–4 milljarðar kr. á þessu ári, þ.e. 1 milljarður kr. eða meira úr Smugunni í Barentshafi, 0,5–1 milljarður kr. frá rækjuveiðum undan strönd Kanada og 0,5–1 milljarður kr. af Reykjaneshrygg. Þeir sem mest hafa beitt sér á þessu sviði, svo sem hópur útgerðarmanna skipa sem veitt hafa í Smugunni er fundað hefur um möguleika á úthafsveiðum, telja að fjölmargir möguleikar komi til greina. Til viðbótar þeim möguleikum, sem nú eru nýttir, hafa þar verið nefndar veiðar á Hatton-Rockall svæðinu utan 200 mílna marka frá ströndum Bretlandseyja, veiðar á grálúðu og fleiri tegundum, öðrum en rækju, á svæðum milli lögsögumarka Íslands, Grænlands og Kanada suðvestur í höfum, veiðar við Svalbarða o.s.frv.
    Að því er best er vitað hafa nú 56 þjóðir fullgilt alþjóðahafréttarsáttmálann en hann mun fyrst ganga í gildi og verða bindandi sem alþjóðalög fyrir samningsaðila ári eftir að 60 ríki hafa fullgilt hann. Í ljósi þess að nú vantar aðeins herslumuninn eða fjögur ríki er meira en tímabært að huga að því af auknum krafti hver geti orðið næstu skref í réttindasókn Íslendinga á þessu sviði samtímis því að nú hillir undir að hafréttarsáttmálinn öðlist gildi. Ýmis ákvæði samningsins, ekki síst VI. hluti hans um landgrunnið og rétt strandríkja ásamt þeirri þróun sem orðið hefur í alþjóðarétti, gefa tilefni til að fara yfir málin á nýjan leik.
    Markmið allra aðgerða af Íslands hálfu hlýtur að vera það að tryggja okkur ýtrustu réttindi gagnvart skynsamlegri meðferð og nýtingu auðlinda hafsins. Til þess höfum við sem fiskveiðiþjóð í úthafinu, algerlega háð sjávarfangi um okkar afkomu, sterkan siðferðilegan og pólitískan rétt. Í ljósi þess ástands, sem nú ríkir á hafsvæðunum umhverfis íslensku efnahagslögsöguna, hlýtur frekari útfærsla að koma til álita, a.m.k. meðan ekki líta dagsins ljós neinir samningar um nýtingu sem tryggja nauðsynlega vernd fyrir rányrkju og taka eðlilegt og sanngjarnt tillit til hagsmuna nálægra strandríkja.
    Óþarfi er að fjölyrða um gildi þess að um mikilvæg og vandasöm hagsmunamál af þessu tagi sé sem breiðust pólitísk samstaða. Það er m.a. með það að leiðarljósi sem lagt er til að undirbúningur og athugun málsins verði í höndum sérstakrar þingkjörinnar nefndar sem skipuð verði fulltrúum allra flokka þannig að koma megi frá upphafi í veg fyrir hættu á flokkadráttum og pólitískum ágreiningi.
    Flutningsmenn leggja einnig áherslu á að við meðferð málsins verði hugað að samræmingu þess starfs sem fram fer á vegum stjórnvalda og þessu máli tengist, sbr. störf nefndar sjávarútvegsráðherra að endurskoðun laga um veiðar utan landhelgi, og annars tillöguflutnings, sbr. þingsályktunartillögu Eyjólfs Konráðs Jónssonar og fleiri á yfirstandandi þingi um hafsbotnsréttindi.
    Sem fylgiskjöl með tillögu þessari eru birt ýmis gögn um fiskstofna og veiðar umhverfis íslensku efnahagslögsöguna.



Fylgiskjal I.


Páll Þórhallsson:

Landnám í djúphafi.


(Úr Morgunblaðinu 12. september 1993).



    Margir fiskstofnar virða ekki 200 mílna efnahagslögsögu.
    Ísland í forustu strandríkja en rennir hýru auga til úthafsveiða.
    Hver er munurinn á Jan Mayen, Hvalbak, Kolbeinsey og Rockall?


    Þótt efnahagslögsaga Íslands takmarkist við 200 sjómílur er ekki þar með sagt að við getum ekki gert tilkall til nýtingar og stjórnunar auðlinda víðar. Verður hér gefið yfirlit yfir þau hafréttarlegu álitamál sem við blasa utan 200 mílnanna og þá hagsmuni sem kunna að vera í húfi. Kemur þar fram að hafréttarsáttmálinn frá 1982 er það grundvallarplagg sem stefna Íslendinga miðast við. Á grundvelli hans hafa Íslendingar helgað sér landgrunn út fyrir efnahagslögsöguna, allt suður á Hatton-Rockall-banka. Íslendingar hafa verið í forustu strandríkja sem hafa beitt sér fyrir að relgur yrðu settar um ábyrga nýtingu auðlinda á úthafinu, reglum hafréttarsáttmálans til fyllingar. Ýmsar fisktegundir veiðast bæði innan og utan íslensku efnahagslögsögunnar og kann að skipta miklu að skera úr hvort þar sé um „íslenska“ stofna að ræða. Slíkt styrkir nefnilega stöðu okkar í samningaviðræðum við aðrar þjóðir um stjórnun veiðanna.
    Sú meginregla gildir að veiðar á úthafinu utan 200 mílna lögsagna ríkja eru frjálsar. Samkvæmt hafréttarsáttmálanum frá 1982 hvíla þó tvær skyldur á þeim sem veiðir. Annars vegar að hafa samráð við önnur ríki sem stunda sömu veiðar og við það ríki úr hvers lögsögu fiskstofn kemur ef því er að skipta. Hins vegar að ganga ekki nærri auðlindinni sem nýtt er. Ákvæði hafréttarsáttmálans um þetta efni eru þó fremur loðin. Auk þess gengur hafréttarsáttmálinn ekki í gildi fyrr en ári eftir að 60 ríki hafa undirritað hann. En nú hafa 56 ríki gert það.
    Eftir Ríó-ráðstefnuna um umhverfismál á síðasta ári varð til hópur um 55 ríkja sem vilja standa vörð um réttindi strandríkja. Ísland er eitt fimm ríkja sem veita hópnum forustu. Hin eru Argentína, Kanada, Chile og Nýja-Sjáland. Þessi ríki hafa beitt sér mjög á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um veiðar á úthafinu en haldnir hafa verið tveir fundir á vegum hennar, sá síðari nú í júlí sl. í New York. Ísland lagði drög að alþjóðasamningi um úthafsveiðar fyrir fimm ríkja hópinn og byggði sá hópur sínar tillögur að alþjóðasamningi á íslensku drögunum. Á fundi, sem íslensku fulltrúarnir áttu með fulltrúum frá Skandinavíu, kom fram gagnrýni á Íslendinga frá öðrum en Norðmönnum fyrir að stefna gangi ráðstefnunnar í voða með því að leggja fram drög að alþjóðasamningi. Á þessum fundi gagnrýndu Danir einnig Norðmenn fyrir að túlka hafréttarsáttmálann að geðþótta og ætla að gera kröfur utan 200 mílnanna.
    Samningurinn um úthafsveiðar, sem Íslendingar kepptu þarna að, hefur að markmiði að koma á fót virku stjórnkerfi við veiðar á deilistofnum (fiskstofnum sem veiðast bæði innan fiskveiðilögsögu og utan) og flökkustofnum. Ekki segir þar að strandríki hafi rétt yfir deilistofni heldur að samræmi eigi að vera milli þeirra verndarreglna sem beitt er innan og utan fiskveiðilögsögu. Enn fremur að veiðar úr stofni utan efnahagslögsögu megi ekki hafa slæm áhrif á þann hluta hans sem er innan lögsögu. Skylt verði að beita svokallaðri varúðarreglu á úthafinu. Hún felur í sér að menn skuli hafa varann á og forðast að telja skort á vísindalegum upplýsingum um ástand fiskstofna rök fyrir veiðum. Gert er ráð fyrir svæðisbundinni stjórnun. Slíkar svæðisstofnanir eiga að hafa alþjóðlega viðurkenndar verndarráðstafanir að leiðarljósi. Eiga þær m.a. að meta ástand fiskstofna og setja reglur um hámarksafla og möskvastærð. Þær eiga að hafa í sinni stofnskrá ákvæði um skyldubundna og bindandi úrlausn þriðja aðila í deilumálum. Og þær eiga að vera opnar öllum þeim ríkjum sem æskja þess að veiða á svæðinu. Heimilt verði að takmarka réttindi nýrra meðlima t.d. með því að veita þeim ekki kvóta ef stofnar eru fullnýttir.
    Athyglisvert er að lítil sem engin umræða hefur verið innan lands um þessa stefnumótun í úthafsréttarmálum.

Stefnubreyting?
    Við veiðiför íslenskra skipa norður í Smuguna í Barentshafi vaknaði sú spurning hvort Íslendingar væru að taka upp nýja stefnu og tileinka sér rök úthafsveiðiríkja og grafa undan hagsmunum strandríkja. Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra rökstyður afstöðu íslenskra stjórnvalda, sem gerðu ekkert til að stöðva veiðiförina, með því að benda á að ekki sé hægt að taka af íslenskum sjómönnum þann rétt sem þeim ber til úthafsveiða samkvæmt þjóðarétti. Norðmenn hafa sakað Íslendinga um tvöfeldni í þessu máli og vísa til úthafsveiðiráðstefnunnar í New York. Jón Baldvin hafnar því að Norðmenn hafi á fundi í Stokkhólmi með íslenskum ráðamönnum lagt fram tillögur um skipan úthafsveiða sem væru byggðar á málflutningi Íslendinga í New York. Þess í stað hafi Norðmenn gert ráð fyrir að strandríki setji einhliða reglur um stjórnun og verndun fiskstofna á úthafi, utan lögsögu sinnar, en önnur ríki skuldbindi sig til þess að virða þær, hverjar sem þær séu.
    Sú spurning vaknar í framhaldi af þessu hvort eftir miklu sé að slægjast fyrir Íslendinga við úthafsveiðar. Vissulega eru smugurnar víðar en fyrir utan lögsögu Noregs. Almennt má þó segja að alls staðar í heiminum séu stofnar, sem allir hafa aðgang að, ofnýttir. Bætir ekki úr skák að tækni til fiskveiða hefur fleygt fram, veiðigeta í heiminum er mun meiri en auðlindir sjávar geta staðið undir auk þess sem verð á fiskiskipum hefur farið lækkandi. Hins vegar er ekki ljóst að hve miklu leyti við Íslendingar eigum möguleika á veiðum innan lögsagna annarra ríkja með samningum. Má þó í þessu sambandi nefna þá nýjung að Íslendingar hafa í sumar stundað rækjuveiðar í flæmska hattinum sunnan Grænlands og austan lögsögu Kanada.

Eitt af fáum dæmum.
    Ef við lítum okkur nær þá hefur um árabil verið í gildi samningur milli Íslands, Noregs og Grænlands um loðnuveiðar. Þessi samningur er öllum til hagsbóta að því leyti að væri hann ekki fyrir hendi þá gætu Norðmenn t.d. keppst við að veiða sem mest af loðnu á meðan stofninn er innan norskrar lögsögu og lítið verið eftir handa Íslendingum þegar hann kæmi inn á okkar svæði. Loðnusamningurinn er eitt af fáum dæmum í heiminum um að nágrannaríki semji um nýtingu úr fiskstofni sem gengur á milli lögsagna — án þess að beitt sé hótunum um viðskiptaþvinganir og annað slíkt eins og stórveldi þessa heims hafa getað tíðkað — og í samræmi við tillögur fiskifræðinga en Evrópubandalagið t.d. hefur ekki getað uppfyllt síðara skilyrðið. En loðnusamningurinn sýnir einnig hve erfitt er að semja um nýtingu auðlinda af þessu tagi því það tók um áratug að ná þríhliða samningum.
    Íslendingar og Grænlendingar hafa verið að veiða rækju úr sama stofni á Dohrn-banka. Ljóst þykir að rækjuveiðin hafi gengið nærri stofninum sem sést á því að veiðar Grænlendinga nú eru ekki nema svipur hjá sjón miðað við það sem var. Vísindanefnd Norðvestur-Atlantshafsfiskveiðiráðsins hefur mælt með kvóta á þessar veiðar en Grænlendingar hafa við sínar kvótaákvarðanir farið allnokkru ofar. Vegna þess að veiðisvæðið er aðallega Grænlandsmegin miðlínu hafa Íslendingar ekki veitt nema 10–30% af heildaraflanum og er það mat manna að takmörkun veiða af okkar hálfu væri því til lítils. Fulltrúar landanna hafa rætt um takmörkun veiðanna en án árangurs.
    Úthafskarfi veiðist innan lögsögu Íslands og Grænlands og langt suður um höf. Lengi voru Rússar og aðrar Austur-Evrópuþjóðir næstum einráðar við þessar veiðar en það hefur breyst. Nú stunda Íslendingar, Norðmenn og þýsk skip, að hluta í eigu Íslendinga, þessar veiðar. Innan Norðaustur-Atlantshafsnefndarinnar hefur verið rætt um að takmarka þær en ekki náðst samkomulag þar um. Ástæðan er m.a. sú að óvissa er um heildarútbreiðslusvæði og stærð stofnsins. Mælingar á honum hafa verið misvísandi. Þó hallast menn að því að stofninn sé ekki ofnýttur. Búið er að skipuleggja auknar rannsóknir á næsta sumri. Jón B. Jónasson, starfsmaður sjávarútvegsráðuneytisins, segir að karfaveiðar Norðmanna séu ekki sambærilegar við þorskveiðar Íslendinga í Smugunni að því leyti að ekki er kvóti á karfanum og stofninn er vannýttur að mati fiskifræðinga.
    Frakkar hafa verið að veiða blálöngu sunnan við íslensku lögsöguna. Fiskifræðingar eru ekki vissir um hvort þar er um sama stofn að ræða og þann sem veiðist innan okkar lögsögu.
    Vaxandi áhugi hefur verið á búraveiðum enda fæst hátt verð fyrir hann. Íslendingar hafa aðallega veitt búrann innan lögsögunnar en skip frá öðrum ríkjum hafa einnig veitt búra sunnar. Enn sem komið er er afar lítið vitað um búrann. Norðmenn eru nú að gera út rannsóknarleiðangur til að finna hrygningarslóð búrans en mikil leynd hvílir yfir förinni, líklega til að koma í veg fyrir að Íslendingar og Frakkar verði einhvers vísari. Norski togaraflotinn bíður eftir niðurstöðum rannsóknanna reiðubúinn að fara á miðin.
    Til eru karfastofnar, djúpkarfi og gullkarfi, sem finnast í íslensku, grænlensku, færeysku og e.t.v. norsku lögsögunni. Nokkrar rannsóknir hafa verið gerðar á þeim en ekki verið samið um veiðar.
    Minna er af kolmunna í íslensku lögsögunni nú en áður. Það hefur í sjálfu sér ekki komið að sök því okkur hafa boðist veiðiheimildir hjá Færeyingum. En kolmunnaveiðar hafa samt lítið verið stundaðar héðan. Enn fremur eru rækjumið á mörkum lögsagna Færeyja og Íslands.
    Nú gera menn sér vonir um að síldarstofninn norðaustur af landinu sé að braggast og vart þætti Íslendingum gott til þess að vita ef hann yrði þurrkaður upp í smugunni milli lögsagna Íslands, Grænlands og Noregs, sbr. það sem sjávarútvegsráðherra, Þorsteinn Pálsson, sagði hér í blaðinu 25. ágúst sl.: „Ef [norsk-íslenski síldarstofninn] vex eins og spár gera ráð fyrir mun hann fara um alþjóðlegt hafsvæði og það ríður á miklu að við náum samkomulagi við Norðmenn um nýtingu á honum.“
    Árið 1982 voru allar laxveiðar í Norður-Atlantshafi utan tólf mílna bannaðar nema við Færeyjar og Austur-Grænland. Sett var á laggirnar alþjóðastofnun (NASCO) sem hefur séð um ákvörðun hámarksafla á þessum tveimur stöðum. Að frumkvæði Orra Vigfússonar hafa þessir kvótar Færeyinga og Grænlendinga verið keyptir. Nú eru svo til engar laxveiðar stundaðar utan tólf mílna. Undanfarin ár hafa verið stundaðar veiðar utan 200 mílna af skipum undir hentifána. Þessar veiðar hafa einnig verið stöðvaðar.

Mörk efnahagslögsögunnar.
    Danir og Grænlendingar viðurkenna ekki Kolbeinsey sem grunnlínupunkt þannig að deilt er um hvar miðlínan milli Íslands og Grænlands skuli liggja. Þetta mál er í biðstöðu. Einnig er deilt um miðlínu fyrir suðaustan land vegna þess að Danir og Færeyingar viðurkenna ekki Hvalbak sem grunnlínupunkt. Gjöful mið eru á gráa svæðinu og hafa færeysku skipin verið að færa sig upp á skaftið undanfarna daga. Deilt er um svæðið milli Íslands og Rockall. Fiskveiðilögsaga Íslands var færð út í 200 sjómílur til suðurs árið 1975 án þess að taka tillit til klettsins Rockall sem skert hefði lögsöguna hefði miðlína verið látin gilda.

Landgrunnið.
    Íslendingar gera tilkall til svokallaðrar landgrunnslögsögu út fyrir 200 mílna mörkin. Í henni felst samkvæmt hafréttarsáttmálanum fullveldisréttur að því er varðar rannsóknir á landgrunninu og hagnýtingu náttúruauðlinda þess. Réttindi strandríkis yfir landgrunninu hafa ekki áhrif á réttarstöðu hafsins yfir landgrunninu eða loftrýmisins yfir hafinu. Allt frá árinu 1976 hafa staðið yfir athuganir á hafsbotnsréttindum Íslands til suðurs. Ísland og Danmörk hafa sett reglugerðir um lögsögu á svæðinu og Bretland og Írland hafa samið um skiptingu þess sín á milli. Íslensk stjórnvöld hafa fallist á tvíhliða viðræður við bresk stjórnvöld en telja samt æskilegast að fram fari viðræður milli landanna fjögurrra. Sumarið 1990 var Guðmundi Eiríkssyni þjóðréttarfræðingi og David Anderson þjóðréttarfræðingi í breska utanríkisráðuneytinu falið að gera sameiginlega skýrslu um málið sem hægt væri að miða framhaldsviðræður við. Sú skýrslugerð stendur nú yfir.















Kort — repró.















    Eins og sést á meðfylgjandi korti nær landgrunnslögsaga sú, sem Íslendingar hafa helgað sér, ekki lengra en 350 mílur í suður eftir Reykjaneshrygg. Er það vegna takmörkunar í hafréttarsáttmálanum sem kemur í veg fyrir að eyríki helgi sér svæði langar leiðir eftir neðans[jávarhryggjum]. Ástæðan er sú að samkvæmt hafréttarsáttmálanum má landgrunnslögsagan ekki ná lengra eftir neðansjávarhryggjum. Væru þessi takmörk ekki fyrir hendi gætu Íslendingar nefnilega farið allt suður til Kanaríeyja.
    Ísland hefur fullgilt hafréttarsáttmálann en hann hefur enn ekki tekið gildi og ákvarðast réttarstaðan því af venjurétti, sérstaklega þar sem Danmörk, Bretland og Írland hafa ekki fullgilt samninginn. Reglugerð, sem sett var 1985, byggir á því að landgrunn Íslands sé óslitið beint í suður til Hatton-Rockall. Önnur rök kunna að vega þyngra, sem sé þau að byggt sé á landgrunninu í suðaustur í átt til Færeyja og þaðan aftur í suðvestur. Segja Íslendingar að á þennan veg séu ekki fyrir hendi skýr mörk landgrunns á Íslands-Færeyjahrygg fyrr en komið er að Hatton-Rockall-banka. Hafa menn í þessu efni ekki sett fyrir sig að fara verður yfir miðlínu milli Íslands og Færeyja áður en sveigt er í suðaustur. Íslendingar hafa fremur beitt landmótunarrökum í þessu máli, ef svo má að orði komast, en jarðfræðirökum. Flestir jarðfræðingar virðast nefnilega vera þeirrar hyggju að Færeyjar og Hatton-Rockall séu jarðfræðilega skyld svæði.
    Réttarstaða Bretlands og Írlands er sem hér segir. Samkvæmt 121. gr. hafréttarsáttmálans fá eyjar á stærð við Rockall hvorki landgrunn né efnahagslögsögu. Slík takmörkun á víðáttu landgrunns efnahagslögsögunnar má teljast gildandi þjóðaréttur og getur því réttarstaða Bretlands og Írlands á Hatton-Rockall-svæðinu ekki byggst á eyjunni. Á milli Hatton-Rockall-svæðisins og Írlands/Skotlands liggur svokallað Rockall-trog sem er 3.000 m djúpt þar sem það er dýpst. Tilvera þess veikir mjög kenningar um að Hatton-Rockall-svæðið sé óslitið framhald Írlands og Bretlands. Írsk og bresk stjórnvöld hafa hins vegar haldið því fram að þar sem trogið liggi innan marka efnahagslögsögunnar hafi það ekki áhrif. Dómur alþjóðadómstólsins í Haag í máli Túnis og Líbíu hefur stutt þessa kenningu. Reyndar hefur ríkt tilhneiging í nýlegum dómum hans til að taka ekki tillit til jarðfræðilegra þátta, enda oft talið óvinnandi verk að ráða úr mismunandi túlkunum vísindamanna.
    Danir halda því fram að Hatton-Rockall-svæðið tengist Færeyjum sem „míkró-meginland“. Rannsóknir hafa farið fram til þess að sýna fram á að jarðskorpan á Hatton-Rockall-svæðinu sé sama eðlis og skorpan undir Færeyjum.

Hafsbotnsréttindi á norðurslóðum.
    Vorið 1987 létu utanríkisráðuneytið og utanríkismálanefnd Alþingis kanna hvaða réttindi ríki við Norður-Atlantshaf, þ.e. Ísland, Noregur og Danmörk vegna Grænlands, gætu hugsanlega helgað sér á svæði milli Noregs og Grænlands sem liggur utan efnahagslögsögu viðkomandi ríkja. Um er að ræða ræmu sem liggur frá 65. gráðu norðlægrar breiddar til 75. gráðu og er 100–300 km breið. Til samráðs var fenginn dr. Manik Talwani sem hafði verið ráðgjafi utanríkisráðuneytisins í sambandi við hafsbotnsréttindi til suðurs. Á fundi fulltrúa Íslands, Danmerkur og Noregs í Reykjavík í janúar 1988 var rætt kort sem Talwani hafði gert. Var það byggt á túlkun á hafréttarsáttmálanum. Samkvæmt því náðu landgrunn ríkjanna víða inn á þetta alþjóðlega svæði. Fulltrúar Íslands vörpuðu fram hugmyndum um að nýta svæðið sameiginlega eða loka því fyrir öðrum þjóðum. Síðan hefur öðru hverju verið fjallað um málið á fundum ráðamanna ríkjanna og síðast gerðist það 18. mars sl. að þjóðréttarfræðingar ríkjanna hittust. Var niðurstaðan svipuð og áður, að hafa áfram náið samband um málið og láta hver annan vita um allt sem þýðingu hefði fyrir frumkvæði Íslands.
Fylgiskjal II.


Dr. Jakob Magnússon,
aðstoðarforstjóri Hafrannsóknarstofnunar:


Vannýttir sjávarstofnar fyrir útgerð Íslendinga.


(Flutt á sjávarútvegsráðstefnu 6. febrúar 1992.)




(Repró 22 síður.)



Fylgiskjal III.


Vilhelmína Vilhelmsdóttir:


Vannýttir djúpsjávarfiskar.


(Úr Sjómannablaði Neskaupstaðar 1992).



    Upp á síðkastið hafa sjónir manna mjög beinst að því hvað sé að finna á djúpslóð og hvað sé bitastætt af því.
    Margar þeirra tegunda, sem nú eru ofarlega á baugi, hafa ekki aðeins verið þekktar um langt skeið, heldur hefur einnig verið bent á þær margar sem fýsilegan kost til fjölbreytni í veiðum. Sem dæmi má nefna að þegar á sjötta áratugnum var bent á tegundir eins og kolmunna, spærling og gulllax sem tegundir sem vissulega mætti nýta.
    Árið 1972 var úthafskarfinn kynntur með nýtingu í huga í ræðu og riti (erindi, útvarp, dagblöð og Ægir). Þá voru langhalar, gulllax og ýmsar fleiri tegundir djúpsjávarfiska kynntar í Sjávarfréttum 1976 og aftur langhalar 1978. Oft var hamrað á þessum og fleiri tegundum, t.d. í viðtölum og erindum.
    En öll þessi viðleitni var eins og hróp mannsins í eyðimörkinni: Ekkert skeði. Ekki heldur með tegundir eins og gulllax og langhala sem nýttar hafa verið af öðrum um langt tímabil, en þessar tegundir teljast enn vannýttar hjá okkur þótt þær séu háðar kvóta á öðrum hafsvæðum. Og maður spyr sig: Hvers vegna er ekkert aðhafst? Ekki veit ég svarið við því. En eitt þori ég að fullyrða að „sökin“ liggur ekki hjá íslenskum sjómönnum sem eru sennilega þeir best upplýstu og duglegustu í heiminum. Ég hef oft sagt áður og segi enn að það mun ekki standa á þeim að leggja sitt af mörkum til að koma með afla að landi svo fremi sem þeir beri eitthvað úr býtum fyrir það.
    Ég tel a.m.k. að hluti vandans liggi í því að magnsjónarmiðið var allsráðandi í fiskveiðum okkar. Fjölmiðlar og aðrir lyftu aflakóngum á stall — sem þeir reyndar verðskulduðu. Daglega mátti fylgjast með hverjir komu með mestan afla að landi. Aflaverðmæti voru minna í sviðsljósinu. Allt kapp var lagt á magnið — gæðin voru ekki eins mikilvæg hjá sumum. Sótt var í tiltölulega fáa stofna sem gátu gefið mikið magn en minna hugsað um hina sem ekki voru eins fyrirferðarmiklir í afla — já, mörgum fiskinum var kastað fyrir borð aftur því ekki var hægt að selja hann þegar að landi var komið.
    Þetta var kannski allt saman gott og blessað á sínum tíma. En þessir tímar eru liðnir. Birgðir náttúrunnar standast ekki þróun þekkingar og tækni, hvorki í hafinu né á landi, ef ekki er höfð fyrirhyggja og aðgát. Mönnum mátti vera þetta ljóst á liðnum áratugum: Með vaxandi veiðiflota með aukinni afkastagetu mundi senn líða að því að samdráttur yrði í „magn“-tegundunum og/eða minna kæmi í hlut hvers og eins úr þessum stofnum. Reyndar kom þessi samdráttur fyrr í sumum tilvikum en menn höfðu búist við. Þá hefðu framsýnir og forsjálir menn getað byrjað að huga að vannýttu tegundunum, finna réttu vinnsluaðferðirnar á þeim og afla markaða. Markaður hlýtur að hafa verið fyrir hendi áður en við „uppgötvuðum“ að við ættum þessar tegundir og hægt væri að selja þær. Sem betur fer er nú vilji fyrir hendi til að nýta þessar tegundir, en allt of lengi þurfti að bíða eftir stofnun eins og Aflakaupabankanum sem er skref í rétta átt.
    Okkur er vissulega vandi á höndum. Við þurfum að byrja á því að breyta um hugsunarhátt og leggja „magn“-sjónarmiðið til hliðar. Ef við höldum áfram að yfirfæra magnhugsunina á vannýttar tegundir á djúpslóðum erum við á villigötum. Hvers vegna er sú ályktun dregin? Til þess liggja tvær meginástæður:
    Með okkar veiðitækni og hæfu fiskimönnum er nær óhugsandi að einhver veruleg „magn“-tegund hafi alveg farið fram hjá mönnum.
    Þeir stofnar vannýttra tegunda á djúpslóð, sem við þekkjum til og höfum fengið veiðireynslu af, eru mjög viðkvæmir. Dæmi: Þar sem óheftar veiðar voru á langhala og gulllaxi datt aflinn mjög fljótt niður, og þegar kvóti var settur á aflaðist ekki einu sinni upp í hann. Svipað virðist nú vera að ske með búrfiskinn við Ástralíu og Nýja-Sjáland.
    Í stað þess að bera sig bara eftir miklu magni af fáum tegundum ættu menn að sækjast eftir fjölbreytni í afla, jafnvel þótt lítið sé af hverri tegund. Merki þess að hugarfarsbreytingin er í gangi er að listi yfir nýtanlegar tegundir hefur lengst á undanförnum missirum.

Karfategundir.
    Innan íslenskrar lögsögu er að finna 3 tegundir af karfa og tvo stofna af einni þeirra. Nafngiftir hafa verið nokkuð á reiki hvað þetta snertir og orðið karfi oftast notað án tillits til hvaða tegund sé um að ræða. Ein þessara tegunda er litli karfi ( Sebastes viviparus) sem er smávaxinn og enn þá ekki hirtur. Gullkarfi ( Sebastes marinus) hefur fram til þessa verið fyrirferðarmestur í veiðinni. Djúpkarfi ( Sebastes mentella) hefur farið vaxandi í afla togara hin seinni ár. Af þessari tegund eru tveir stofnar, þ.e. hinn eiginlegi djúpkarfi í landgrunnsstöllum og svo úthafskarfi, en hann lifir uppi í sjó úti í reginhafi og kemur sjaldan í kantana.
    Tvær þessara tegunda flokkast enn þá undir vannýtta djúpsjávarfiska og ætla ég að gera þeim hér nokkur skil, þ.e. litla karfa og úthafskarfa.
     Litli karfi er mjög algengur hér við land, einkum sunnan lands og vestan. Þetta er smár fiskur, stærð hans í veiði er algengust um 18–25 sm. Hann er að finna á svipuðum slóðum og gullkarfa en grynnra og er í raun eina karfategundin sem á það til að ganga á grunnslóð þótt ekki sé það í miklum mæli. Þar sem hér er um smáan fisk að ræða er að sjálfsögðu takmarkað hvað kemur upp af honum við gullkarfaveiðar vegna stærðar möskva. Svo virðist sem litli karfi hafi „lagt undir sig“ að verulegu leyti veiðisvæði þar sem áður var mikið mikið um gullkarfa, þ.e. veiðar á gullkarfa hafa sums staðar rutt litla karfa braut.
    Litli karfi er góður matfiskur eins og aðrar karfategundir. Það hefur í raun aldrei reynt á það hvort þessa tegund mætti veiða í nokkrum mæli, en verulegum vandkvæðum ætti það ekki að vera bundið að veiða töluvert af honum með þéttriðnari vörpu. Það þyrfti að stunda tilraunaveiðar á honum og kanna markaðssetningu. Mér skilst að það sé lítið mál að stilla vissar Baader-flökunarvélar svo að flaka megi litla karfa. Hins vegar er einnig vitað að fiskur af þessari stærð er vinsæll á mörkuðum í suðlægari löndum og þá auðvitað seldur óslægður.
     Úthafskarfi. Eins og getið var hér að framan er úthafskarfinn talinn sérstakur stofn þótt ýmislegt bendi til að hér gæti verði um aðskilda tegund að ræða. Það er eitt og annað sem einkennir þennan stofn, en það verður ekki fjölyrt um það hér, enda því verið lýst annars staðar (t.d. í Ægi, 1. tbl. 1990).
    Úthafskarfi heldur sig tiltölulega ofarlega í sjónum borið saman við karfategundir almennt. Eftir gangi veiða að dæma og samkvæmt nýlegum bergmálsmælingum heldur hann sig að mestu leyti fyrir ofan 300 m dýpi á fæðutímabilinu að goti loknu. Mest virðist um hann á 100–200 m dýpi þegar nokkuð er liðið frá goti og hann kominn á fullt í æti. Um gottímann er hann hins vegar mun dýpra, en svo virðist sem það kunni að vera nokkuð breytilegt.
    Útbreiðslusvæði úthafskarfa er ekki skýrt afmarkað. Í stórum dráttum má segja að það sé allt Grænlandshaf frá ca, 65 * N og þaðan suðvestureftir, langt suður í haf. Rússar hafa komist í tæri við hann suður af Hvarfi, allt suður á 53 * N. Yfir gottímann — en hann er einkum í apríl–maí eins og hjá karfa almennt — er mest um úthafskarfa á austanverðu útbreiðslusvæðinu. Eftir gotið leitar hann vestur eða suðvestur á bóginn og er því síðsumars mest um hann í vestanverðu Grænlandshafi og þar suður af.
    Fyrstu hugmyndir um karfa í úthafinu vöknuðu við seiðarannsóknir dr. Tånings 1949. Í sameiginlegum þýsk-íslenskum rannsóknum árið 1961 var uppgötvað að karfi gyti í Grænlandshafi. Í tengslum við fjölþjóðarannsóknir árið 1963 var staðfest með athugunum frá veðurskipum á stöðinni Alfa að karfa var að finna í úthafinu árið um kring. Það er svo í leiðöngrum Hafrannsóknastofnunar árið 1972 og næstu ár þar á eftir að gengið var úr skugga um að stóran stofn uppsjávarkarfa væri að finna í Grænlandshafi. Ljóst var þá þegar að öflugt skip með stóra vörpu þyrfti til að sannreyna hvort fýsilegt væri fyrir veiðiflotann að sinna þessu. Veiðitilraunum var þá hætt. Áhugi fyrir þessum fiski var ekki það mikill að til marktækra veiðitilrauna yrði stofnað, enda þótti fiskurinn heldur óhrjálegur á að líta og nýting hans heldur léleg, m.a. vegna þess að hann var mjög settur snýkjudýrum. Það er svo ekki fyrr en 1982 að Sovétmenn hefja veiðar af miklum krafti úr þessum stofni. Ásamt þeim tóku þátt í veiðum ýmsar Austur-Evrópuþjóðir, svo sem Austur-Þjóðverjar, Búlgarar og Pólverjar. Þótt veiðar sumra þessara þjóða hafi verið umtalsverðar, þá yfirgnæfðu veiðar Sovétmanna. Eins og sjá má af súluriti (sjá mynd 5 í fskj. II) voru veiðarnar á bilinu 60–70 þús. tonn fjögur fyrstu ár veiðanna en komust í um 106 þús. tonn árið 1986. Í tvö ár þar á eftir var aflinn um 90 þús. tonn en hrapaði í um 37 þús. tonn árið 1989 og var ekki nema rúm 23 þús. tonn árið 1991. Hinn mikli samdráttur í afla frá árinu 1988–1989 er fyrst og fremst vegna miklu minni sóknar Sovétmanna. Afli á sóknareiningu (kg/togt.) var mestur hjá þeim fyrsta ár veiðanna (tæp 2 tonn á togtíma) en fór smá minnkandi með hverju ári, en var þó sá sami árin 1988 og 1989 eða um 1 tonn á togtíma.
    Íslendingar hófu veiðar úr þessum stofni árið 1989, Norðmenn ári síðar og nú hafa Færeyingar bæst í hópinn. Afli Íslendinga var kominn í tæp 10 þús. tonn (upp úr sjó) árið 1991 og þar með voru Íslendingar orðnir stórtækastir þeirra sem stunduðu þessar veiðar það ár. Gagnstætt því sem gerðist hjá Sovétmönnum hefur afli á sóknareiningu aukist hjá Íslendingum. Samkvæmt nýjustu upplýsingum hafa Sovétmenn óbreytt veiðarfæri öll árin, en Íslendingar breyttu sínum veiðarfærum og stækkuðu.
    Aukin áhersla er nú lögð á að reyna að mæla þennan stofn með bergmálsaðferðum, líkt og t.d. síld og loðnu. Rússar hafa verið með bergmálsmælingar í gangi í mörg ár, en af ýmsum ástæðum hafa þær ekki þótt ábyggilegar, m.a. vegna víðáttu svæðisins. Íslendingar gerðu smátilraun í maí 1990 og endurtóku hana í júní 1991. Seinni tilraunin tókst vel. Alþjóðahafrannsóknaráðið legggur áherslu á auknar rannsóknir á þessu sviði og hvetur til aukinnar þátttöku þjóða í þessum efnum. Þannig var nýlega á vegum þess gengið frá samræmingu og samvinnu Íslendinga og Rússa í leiðöngrum þessara þjóða nú í júní–júlí.
     Keila, langa og blálanga eru tegundir af þorskfiskaætt sem oft eru nefndar í sömu andránni. Þær hafa veiðst hér um langt árabil en lengst af sem aukaafli með öðrum veiðiskap. Allt eru þetta tegundir sem sjálfsagt þyldu nokkru meiri veiði en verið hefur og þar með sennilega ekki fullnýttar.
     Keila er heldur hægvaxta fiskur sem hrygnir í fyrsta sinn þegar hún er um 8–9 ára gömul. Hún er þá um 50–60 sm löng og vegur á bilinu rúmlega 1–2 kg. Töluvert er um eldri keilu í afla og t.d. er 14 ára keila um 70 sm að lengd og vegur rúm 3 kg. Keila hrygnir einkum sunnan og suðvestan lands á 200–400 m dýpi, í 5,5–9°C heitum sjó. Hún veiðist að langmestu leyti á línu og hefur aflinn því sveiflast nokkuð á liðnum árum eftir því hve línuveiðar hafa verið stundaðar stíft. Á tveimur síðustu árum hefur keiluafli Íslendinga aukist verulega frá því sem var, þ.e. frá því að farið var að stunda sérstakar keiluveiðar og er nú kominn yfir 6.000 tonn. Umtalsverð keiluveiði hefur verið út af Suðausturlandi.
    Ekki er vitað hve mikið álag keilustofninn þolir án þess að bíða varanlegt tjón. Það er því ekki vitað um viðbrögð keilustofnsins við svo skyndilega aukinni veiði. Talið er að keilustofninn við Ísland sé ekki mjög stór. Þar sem hér er um hægvaxta fisk að ræða ber að gæta varúðar við að auka veiðina mikið frá því sem nú er ætli menn sér á annað borð að stunda keiluveiðar til frambúðar.
    Langa er heldur hægvaxta eins og keila. Hún hrygnir í fyrsta sinn um 7–9 ára og er þá um 70–80 sm að lengd og vegur um 2–3 kg. Hún hrygnir heldur grynnra og seinna en keilan, þ.e. á um 150–300 m dýpi, einkum í maí–júní, mest út af Suðurlandi.
    Langa veiðist í flest veiðarfæri þó mest hafi veiðst í botnvörpu og net. Lönguafli hefur aukist verulega tvö síðustu árin og var aflaaukningin einkum á línuna sem tengist beint keiluveiðunum.
     Blálanga er í ýmsu frábrugðin hinum tveimur tegundunum. Þetta er hægvaxta fiskur sem fullvaxta lifir á mun meira dýpi en hinar tegundirnar. Hængarnir verða kynþroska um 9 ára aldurinn og eru þá um 75 sm langir, en hrygnurnar verða ekki kynþroska fyrr en um 11 ára og eru þá orðnar nær 90 sm að lengd. Blálanga getur orðið stór fiskur. Stærsta blálanga sem við höfum vegið vó næstum 15 kg og var 145 sm löng en sú stærsta sem við höfum mælt var 153 sm og veiddist undan Suðausturlandi. Í meðfylgjandi töflu, sem var gerð fyrir nokkrum árum, má sjá aldur, meðalþyngd og meðallengd blálöngu hér við land.

Lengd

Þyngd


Aldur (ár)

(í sm)

(í kg)



5
               55 ,7 0 ,62
6
               60 ,7 0 ,80
7
               65 ,7 1 ,11
8
               70 ,4 1 ,40
9
               75 ,5 1 ,68
10
               81 ,4 2 ,18
11
               85 ,2 2 ,53
12
               91 ,9 3 ,19
13
               99 ,3 4 ,12
14
               105 ,3 5 ,04
15
               112 ,7 6 ,02
16
               120 ,7 7 ,75
17
               124 ,9 8 ,99
18
               129 ,6 9 ,89
19
               136 ,5 11 ,66
20+
               138 ,5 10 ,93

    Blálangan hrygnir á miklu dýpi, 800–1.000 m, við Færeyjar, Shetland og Ísland. Hér við land er aðeins vitað með vissu um einn stað þar sem blálanga hrygnir, en það er á mjög takmörkuðu svæði suður af Vestmannaeyjum.
    Við nánari athugun höfum við dregið þá ályktun að blálanga, sem veiðist við Ísland, sé af tveimur stofnum. Þótt við höfum hér við land sérstakan blálöngustofn bendir ýmislegt til þess að hluti af stofninum við Færeyjar slæðist upp að Austurlandi. Hinn mikli stærðarmunur á blálöngu eftir svæðum við Ísland rennir nokkrum stoðum undir þessa skoðun. (Sjá meðfylgjandi mynd.) Svo virðist sem Færeyjahryggurinn myndi í þessu tilliti nokkurs konar
























(Mynd, repró.)



Blálanga. Hlutfallsleg lengdardreifing eftir svæðum


í leiðöngrum Hafrannsóknastofnunar.



mörk fyrir útbreiðslu íslenska stofnsins til austurs. Úti af Austurlandi hefur eingöngu fengist mjög stór blálanga og engin smá svo vitað sé. Sýnin, sem við höfum frá suðaustursvæðinu eru öll tekin vestan við hrygginn, en þar ber nokkuð á smárri blálöngu. Með tilliti til þessa þykir líklegt að blálangan úti fyrir Austurlandi (og sennilega að hluta við Suðausturland) eigi rætur að rekja til aðalstöðva blálöngunnar við Færeyjar, en talið er að blálangan við Noreg sé einnig að mestu frá hrygningarstöðvunum við Færeyjar (Rollefsen, 1960). Íslenski blálöngustofninn virðist því vera ríkjandi frá Suðausturlandi og vestur og norður um. Aðaluppeldisstöðvar blálöngunnar hér við land virðast vera úti fyrir Suðvesturlandi. Sú blálanga, sem fæst við Austur-Grænland, á sennilega líka uppruna sinn í íslenska stofninum.
    Blálanga er aðallega veidd í botnvörpu. Síðustu árin hefur blálönguafli á Íslandsmiðum svo til eingöngu verið viðbót við aðrar veiðar. Meðalafli áranna 1985–1991 hefur verið um 2.000 tonn. En á um fimm ára tímabili þar á undan (1980–1984) voru stundaðar blálönguveiðar stuttan tíma ár hvert á smásvæði suður af Vestmannaeyjum, en þá komst afli Íslendinga í um 8.000 tonn í tvö ár (1980 og 1981). Þarna hrygndi blálangan og stóð þá þétt en hefur ekki sótt þangað í verulegum mæli til hrygningar síðan. Það kann því að virðast þversagnarkennt að tala um blálöngu sem vannýttan stofn hér við land og kannski er það rétt. Hitt er svo annað mál að önnur einkenni ofnýtingar höfum við ekki orðið vör við. Og enn er blálöngu það víða að finna að við teljum að hún eigi sér einnig aðra hrygningarflekki þótt þeir hafi ekki fundist enn þá.
    Þetta leiðir hugann að búrfiski sem þekktur varð hér á landi „yfir nótt“. Við á Hafrannsóknastofnun höfum að vísu fengið hann annað slagið í leiðöngrum þegar djúpt var togað hér sunnan og suðvestan lands, aldrei þó nema lítið af honum í einu, oftast einstaka fiska, mest fáeina fiska í einu togi. Veiði á honum er því mjög athyglisverð, en þó er rétt að hafa í huga að enn þá er ekki um mikinn afla að ræða í heildina. Hermann Kristjánsson, skipstjóri á Klakki, hefur útvegað okkur sýni úr veiðum. Þetta voru allt stórir fiskar. Meðallengd hrygnanna var um 59 sm og þyngdin um 3,4 kg, en hængarnir voru nokkru minni. Meðallengd þeirra var um 55 sm og þyngdin um 2,7 kg. Enginn smár búrfiskur var í sýnunum og reyndar ekki heldur í veiðinni. Af sýnum þeim sem við höfum fengið og af viðtölum má ráða að búrfiskurinn hrygnir hér að vetri til. Sú staðreynd að hann hrygnir hér við land skiptir sköpum því þá er ekki um flökkufisk að ræða. Einkenni kringumstæðna við hrygningu, eins og þeim er lýst í nýsjálenskum og áströlskum tímaritum, eru ekki ósvipuð og hjá blálöngu hér við land í svipuðu ástandi. Hrygningartími er stuttur, dýpið er mikið (800–1.000 m) og fiskurinn stendur þétt á mjög takmörkuðu svæði við hól eða tind. Í Norður-Atlantshafi er fyrst vitað um meiri háttar afla vestur af Bretlandseyjum í byrjun áttunda áratugarins. Hann fékkst við togveiðitilraunir á miklu dýpi. Á árunum 1978 og 1979 lönduðu þýskir togarar nokkrum tugum tonna af búrfiski í Þýskalandi og fengu gott verð fyrir. Þennan búrfisk veiddu þeir í tengslum við blálönguveiðar á 800–900 m dýpi í „vestur-evrópska landgrunnshallanum“ eins og þeir orðuðu það. Í togveiðitilraunum á miklu dýpi (1.000–1.500 m) á Rockall-Porcupine-svæðinu árin 1983 og 1984 varð vart við búrfisk, en aðeins fáeina fiska, 11–36 sm SL að lengd. Frakkar hófu búrfiskveiðar á árinu 1991, sennilega á þessu svæði. Athyglisvert er að búrfiskurinn, sem veiðist sunnan og vestan Írlands, er mun smærri en sá sem veiðst hefur við Ísland hingað til.
    Nokkuð hefur verið skrifað um búrfiskinn við Nýja-Sjáland og Ástralíu. Veiðarnar í Kyrrahafi hófust fyrir um áratug. Aflinn við Nýja-Sjáland var á bilinu 40–50 þús. tonn á árunum 1986–1989 en hefur dalað verulega síðan. Veiði þar er nú háð kvóta, og það er hún við Ástralíu einnig, en þar hefur aflinn komist mest í 36 þús. tonn. Kvótinn hefur nú verið minnkaður til muna á báðum svæðum.
    Samkvæmt þessum heimildum er þetta mjög hægvaxta fiskur. Í nýjustu grein um hann er gefið upp að fiskur 38–40 sm SL sé milli 77 og 149 ára gamall og að hann verði ekki kynþroska fyrr en um 32 ára (32 sm SL). Við á Hafrannsóknastofnun höfum rýnt aðeins í kvarnir og getum staðfest að hann sé mjög hægvaxta, þó sennilega ekki eins og við Nýja-Sjáland. Það má vel vera að búrfiskurinn hér við land hafi annan vaxtarhraða en frændi hans í Kyrrahafi. Fiskurinn þar er líka miklu smærri en sá sem hefur veiðst hér. Það er þannig greinilegt að veiðin við Ísland hefur aðeins náð til hluta af eldri og stærsta fiskinum í stofninum.
    Ástralíumenn og Nýsjálendingar fengu mestan afla á hrygningartímanum sem er mjög stuttur (ca. þrjár vikur). Sá afli, sem fæst á þessum tiltölulega stutta tíma, er uppistaðan í ársaflanum. Svipað virðist vera uppi á teningnum hér.
     Langhalar eru allfjölskrúðugur flokkur djúpsjávarfiska með víðáttumikla útbreiðslu. Til eru margar tegundir af langhölum hér við land en aðeins tvær þeirra eru taldar nýtanlegar, þ.e. slétti langhali og snarpi langhali. Útbreiðsla beggja þessara tegunda er svipuð en útbreiðsla snarpa langhala nær lengra til norðurs.
     Slétti langhali er algengur við Vestur-, Suður- og Suðausturland en ekki fyrir norðan land og austan. (Sjá mynd 6 í fskj. II.) Hann lifir því almennt í hlýrri sjó en snarpi langhali. Samkvæmt okkar rannsóknum er hann einkum að finna í 4–6°C heitum sjó. Í rannsóknaleiðöngrum hefur reynst mest um hann í 800 metrum og dýpra. Þess ber hins vegar að geta að suðvestan lands yfirgnæfir ungfiskur og seiði í aflanum þegar komið er niður fyrir 1.000 m dýpi. Ungfiskur er einnig mjög útbreiddur, en langmest fékkst af honum suðvestan lands í krikanum vestan við Reykjaneshrygg á um 1.000 m og dýpra.
    Um tíma var því haldið fram að slétti langhali við Ísland kæmi hingað til að hrygna, en ælist upp annars staðar. Samkvæmt okkar rannsóknum er þessu ekki þannig farið því hér við land finnast allar stærðir og þroskastig, frá eggjum og smáseiðum upp í hrygnandi fiska. Við teljum því að hér sé um sérstakan stofn eða stofna að ræða.
    Slétti langhali hefur verið veiddur allvíða, t.d. við austurströnd Norður-Ameríku, vestur af Bretlandseyjum og víðar. Það eru því allmargar þjóðir sem nýta sér hann þótt lítið hafi farið fyrir því hjá Íslendingum. Rússar veiddu hér töluvert af slétta langhala og stunduðu rannsóknir á honum á árunum 1965–1968. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur okkur ekki tekist að afla vitneskju um hve mikill sá afli var. Bestan afla fengu þeir á þessum tíma út af Selvogsdjúpi og út af Berufjarðarál að eigin sögn.
    Samkvæmt athugunum Rússa hrygnir langhalinn á haustin uppi í sjó á meira en 1.000 m dýpi. Okkar rannsóknir benda til þess að nokkur hrygning fari fram allt árið með aðalþunga að hausti til og aftur að vetrarlagi. Hrygningu virðist að mestu lokið í febrúar. Sýni, sem við fengum úr afla togara úti fyrir Suðausturlandi fyrir nokkrum árum, sýndi að slétti langhalinn hafði nýlega lokið hrygningu í mars.
    Rússar veiddu langhalann mest á 500–850 m dýpi. Þeir telja að illa náist til hans í hrygningu með botnvörpu. Sama reynsla er hjá okkur. Rússar segja að samkvæmt lóðningum geti hann verið ýmist þétt eða laus við botn. Á Labrador-svæðinu hafa þeir fengið stærri höl en áður hér við land. Þar er mest ókynþroska fiskur í veiði. Það varð til þess að sumir héldu að hann gengi til Íslands til hrygningar, en það þykir heldur ótrúleg kenning, enda fátt sem bendir til þess.
     Snarpi langhali hefur svipaða útbreiðslu og slétti langhali, svo sem áður er getið, en útbreiðsla hans nær lengra inn á kaldsjávarsvæðið. Talið er að hér við land sé minna um hann en slétta langhala þótt útbreiðslusvæðið sé víðara. Mest er um hann við Dohrn-banka og bæði til austurs og vesturs frá honum, en íslenskar rannsóknir hafa sýnt fram á að hrygningarsvæði hans sé um þær slóðir. Fyrir sunnan land er aðeins um staka fiska að ræða. (Sjá mynd 9 í fskj. II.)
    Veiðar hafa verið stundaðar úr þessum stofni, einkum í tengslum við grálúðuveiðar Rússa og Austur-Þjóðverja á sjöunda og framan af áttunda áratugnum. Hann er ekki eins djúpt og slétti langhali og í leiðöngrum hefur veiðin verið best á 600–800 m dýpi.
     Langhalaveiðar voru lengst af óheftar í Davíðssundi og á þeim slóðum við austurströnd Labrador og Nýfundnalands. Eftir að þessar veiðar hófust (en það var um svipað leyti og hér) jókst aflinn hratt og var kominn í 83 þús. tonn árið 1971. En svo fór að draga úr honum og eftir áratuginn var hann kominn niður í um 4 þús. tonn. Síðan hefur ársaflinn verið 4–8 þús. tonn.
    Víkjum nú að íslenska svæðinu. Rússar stunduðu hér veiðar á árunum 1965–1968 eins og fyrr segir. Ekki hefur tekist að grafa upp hver ársafli þeirra var á þessum tíma. En spyrja má: Hvers vegna hættu þeir eftir 1968? Líklegast er að það hafi verið vegna þess að afli var orðinn mjög tregur. Það hefur ekki verið veitt úr þessum stofni síðan svo orð sé á gerandi. Hann ætti því að vera búinn að ná sér aftur tímans vegna þótt fiskurinn sé hægvaxta. Að minnsta kosti benda til þess stór höl sem nokkur skip fengu af honum út af Austurlandi fyrir nokkrum árum.
    Þótt hér kunni að vera töluvert um langhala er ekki þar með sagt að hann sé auðveiddur. Rússar hafa birt myndir af endurvörpum sem þeir segja af langhala. Benda þeir á, eins og myndirnar reyndar sýna, að hann sé oft laus við botn en slái sér stundum niður og þá aflist vel. Og eitt er víst að hann fæst lítið sem ekkert í botnvörpu þegar hann er að hrygna því sú athöfn virðist fara fram á miklu dýpi en vel frá botni. Líklegt verður þó að teljast að einmitt þá sé hann þéttastur, svo og þegar hann lendir í þéttri ætisgöngu eins og virðist hafa átt sér stað hér um árið út af Austurlandi.
     Gulllax. Umtalsverðar veiðitilraunir hafa verið gerðar á þessari tegund og hafa þær einkum beinst að því að „gera út“ á gulllaxinn. Menn hafa veitt töluvert magn af gulllaxi í þessum veiðitilraunum. En það er oftar en ekki sem karfi er meiri hluti aflans. Þetta er ein af þeim tegundum sem gefa sig til annað slagið og getur þá fengist um takmarkaðan tíma á tilteknu svæði tiltölulega hreinn gulllax. En hitt er tíðara. Þegar möskvinn var smærri en nú var oft umtalsvert magn af gulllaxi sem kom með karfa. Allmargir hafa sýnt áhuga á að nýta gulllax og hafa nú verið gerðar tillögur og sendar sjávarútvegsráðuneytinu um hvernig standa megi að veiðum á þessari tegund. Í því felst m.a. að veiðin verði háð leyfum og meðferðis megi hafa gulllaxvörpu þegar verið er á karfaveiðum. Ef rétt er að staðið teljum við að gulllax gæti orðið dágóð búbót við karfaveiðar.
    Gulllax hefur verið og er eftirsóttur fiskur af ýmsum, þar á meðal af Norðmönnum. Þeir veiða hann nú árvisst og eru með kvóta á honum. Þeir vilja greinilega ekki að fari fyrir þeim eins og gerðist undan ströndum Kanada! Aflinn þar hrapaði á fáum árum úr um 40 þús. tonnum 1972 í minna en 1.000 tonn 1981.
    Við teljum að töluvert sé um gulllax við Ísland. Að vísu hefur sjálfsagt mikið verið drepið af honum við karfaveiðar í gegnum tíðina og ekki vitum við hvaða áhrif það kann að hafa haft á stofninn.
    Þótt gulllax finnist allt í kringum landið er mjög lítið um hann fyrir norðan og austan. Aðalmagnið er vestan og suðaustan lands. Mest er um hann á 300–600 m dýpi í um 6°C hita. Stærðin fer stigvaxandi með auknu dýpi. Hann er jafnstærstur út af Suðausturlandi, en mest er um smælki á veiðislóðum suðvestan lands. (Sjá mynd 11 í fskj. II.) Vöxtur er allhraður fyrstu 8–9 árin, þ.e. fram að fyrstu hrygningu en svo dregur mjög úr honum. Hann er þá um 38–40 sm og vegur um 400 grömm. Hvað hrygningu snertir er ýmislegt óljóst í þeim efnum, hrygnandi gulllax eða fiskur nálægt hrygningu hefur fundist svo til árið um kring. En það eru tvo tímabil sem skera sig þó úr, þ.e. síðla vetrar og á vorin og aftur á haustin. En eins og hjá langhölum er hrygnandi fiskur ekki mjög tíður í botnvörpuafla sem bendir til að hann hrygni upp í sjó þar sem ekki næst vel til hans með botnvörpu.

    Hér að framan hefur verið minnst á ýmsar tegundir fiska sem flestum eru kunnar þótt margar þeirra séu lítt nýttar og mætti þar ýmsu við bæta. Til þess að koma slíkum tegundum í verð gegnir Aflakaupabankinn mikilsverðu hlutverki. Hann hefur nú þegar gengist fyrir kaupum og miðlun á ýmsum tegundum sem annars yrði kastað og þannig auðveldað mönnum að koma með þær að landi.
    En mig langar líka til að minnast á tegundir sem sjaldnar ber fyrir augu manna. Við vitum að töluvert er til af sumum þessara tegunda.
     Gjölnir er ein þeirra. Hann er dökkur, miðlungsstór og jafnbola og lifir á mjög miklu dýpi undan ströndum Norðvestur-Evrópu, frá Portúgal og norður til Íslands. Mest af þeim fiski, sem hér hefur veiðst, er 40–70 sm að lengd, en hann getur orðið 90 sm langur. Mjög litlir fiskar þessarar tegundar hafa einnig fengist hér, allt niður í 11 sm. Enn fremur hefur fengist hrygnandi gjölnir, og eru eggin frekar stór, t.d. var meðalþvermál eggjanna 3,8 mm úr 69 sm langri hrygnu. Þessar upplýsingar benda til þess að hér sé líka um íslenskan stofn að ræða. Gjölnir er ein af þeim tegundum sem Aflakaupabankinn er nú þegar að koma í verð.
     Bláriddari er einnig algengur í djúpinu. Það er smár fiskur af þorskfiskaætt sem fæst hér, einkum við Suð- og Suðvesturland aðallega á 600–800 m dýpi. Mest er um 25–35 sm langan fisk í aflanum, en hann fer stækkandi með vaxandi dýpi eins og t.d. gulllax. Hann verður kynþroska um 30 sm að lengd. Þótt þessi fiskur sé frekar smár er vel hugsanlegt að nýta hann, en stundum er töluvert af honum í afla á dúpslóð.
    Fiskar af stinglaxaætt eru mjóir og langir en þykja ágætir matfiskar í suðlægum löndum. Því ekki hér?

    Hingað til hefur eingöngu verið talað um beinfiska. En á miklu dýpi eru ýmsir háffiskar mjög algengir og veiðast sumir þeirra í umtalsverðu magni þegar því er að skipta. En áður en minnst er á háfana er rétt að geta trjónufisks og langnefs sem eru allstórir fiskar og skyldir geirnyt. Sá síðastnefndi er nú þegar nýttur hér við land. Fréttir um vaxandi áhuga á þessum tegundum berast utan úr heimi. Þetta voru taldir sjaldgæfir fiskar, ekki bara hjá okkur heldur í heiminum allt fram á sjötta áratug þessarar aldar. Þeir fyrstu sem fengust við Ísland veiddust í Háfadjúpi í leiðangri 1957. Síðan hefur komið í ljós að töluvert er um þá á djúpslóðinni við Suður- og Suðvesturland. En víkjum nú að háfunum sem eru mun fyrirferðarmeiri í afla. Þegar togað er á mjög djúpu eru háffiskar oft helmingur aflans eða meira. Fyrir allmörgum árum voru nokkrar þessara tegunda teknar til bragðprófunar hjá Rannsóknastofnun Fiskiðnaðarins. Meðal þeirra var að finna ljúffenga matfiska. Svartháfur og dökkháfur eru heldur litlir háfar, oftast 60–90 sm að lengd og finnast báðum megin Atlantshafs, allt frá Afríku norður um til Íslands að austanverðu og suður til Nýja-Englands að vestan. Þorsteinsháfur er einnig mjög algengur, hann er líka heldur smávaxinn háfur. Gljáháfur er alltíður í aflanum. Þetta er stór og bústinn háfur og jafnan lifrarmikill eins og reyndar margir háfanna. Hér hafa veiðst ýmsar stærðir af honum og margir töluvert á annan metra á lengd. Flatnefur kemur oft fyrir í aflanum, einkum mjög djúpt. Stundum er töluvert um hann. Þetta er miðlungi stór háfur, heldur mjósleginn og er mikið af þeim sem hér hefur veiðst um og yfir 1 m að lengd, en hann getur orðið töluvert stærri. Útbreiðsla beggja síðastnefndu tegundanna er talin nokkuð svipuð, þ.e. allt frá Miðjarðarhafi og hingað norðureftir.

    Hér hefur nú verið minnst á ýmsar tegundir á djúpslóð, en langt er frá því að allt sé talið. Af þeim tegundum, sem hér hafa verið nefndar, er ugglaust mest um úthafskarfa og er hann í raun dæmi um stofn sem tiltölulega nýlega er farið að nýta og hægt er „að gera út á“.
    Hvað þetta snertir koma sennilega næst langhalar og gulllax, en þar vantar enn þá veiðireynslu. Litli karfi er hugsanlega einn úr þessum hópi, en þar skortir bæði tilraunaveiðar og veiðireynslu.
    Hvað blálöngu snertir er veiðireynsla nú fyrir hendi og líka nokkur á búrfiski. Margt virðist vera líkt með þessum tveimur tegundum. Það er hins vegar opin spurning hvort eða hvar þær sé að fá á öðrum stöðum hér við land. Við teljum þó að þar séu vissir möguleikar.
    Vel má vera að auka megi nokkuð lönguafla, en nú þegar þarf að fara með gát, hvað keiluna snertir, því aflinn er nú þegar að nálgast sögulegt hámark.
    Á aðrar tegundir, sem hér eru nefndar, verður líklegast að líta frekar sem uppbót við veiðar á djúpslóð, almennt séð. Þó er vel hugsanlegt að sumar háftegundirnar gætu orðið áberandi hluti í afla.
    Eins og skýrt var frá að framan hefur reynslan verið sú að afli hefur dregist mjög hratt saman þar sem óheftum veiðum hefur verið beitt á fiska á djúpslóð, t.d. á gulllaxi og langhala. Það er því auðsætt að fara verður með gát ef menn ætla sér að nýta þessar auðlindir til frambúðar. Hitt er annað mál að það hlýtur að vera fagnaðarefni að menn reyna að bera sig eftir björginni þegar kreppir að í hefðbundnum veiðum. Ég held að það hljóti að vera vænlegra til árangurs en að skamma fiskifræðinga.2
Fylgiskjal IV.


Jakob Magnússon, Vilhelmína Vilhelmsdóttir
og Sólmundur T. Einarsson:


Könnun á djúpslóð. Leiðangur á Reykjaneshrygg á


Bjarna Sæmundssyni og Sjóla í mars 1993.




(Repró, 18 síður.)



Neðanmálsgrein: 1
 SL = standard lengd, þ.e. lengdin frá snjáldri til enda styrtlu (sporðblaðkan ekki mæld með).