Ferill 193. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 193 . mál.


215. Frumvarp til hafnalaga



(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993.)



I. KAFLI


Yfirstjórn hafnamála.


1. gr.


    Samgönguráðherra fer með yfirstjórn hafnamála.

2. gr.


    Samgönguráðherra skipar hafnaráð sér til ráðuneytis um hafnamál. Í hafnaráði skulu eiga sæti fimm fulltrúar. Þar af skulu tveir tilnefndir af Hafnasambandi sveitarfélaga til fjögurra ára í senn. Þrír fulltrúar eru skipaðir af samgönguráðherra og skal einn þeirra vera starfsmaður samgönguráðuneytis og er hann jafnframt formaður ráðsins og skipaður til fjögurra ára í senn. Tvo fulltrúa samgönguráðherra skal skipa að nýju við ráðherraskipti.
    Þóknun til hafnaráðsmanna greiðist úr ríkissjóði.

3. gr.


    Hafnaráð skal fjalla um skipulags-, rekstrar-, starfsmanna- og fjárfestingarmál Hafnamálastofnunar ríkisins og fylgjast almennt með starfsemi hennar.
    Hafnaráð skal fjalla um framkvæmdaáætlanir fyrir einstök ár og til lengri tíma, svo og fjármál hafna, þar á meðal gjaldskrárbreytingar.
    Hafnamálastjóri situr fundi ráðsins með málfrelsi og tillögurétti. Skal hann leggja þar fyrir þau mál sem falla undir verksvið ráðsins samkvæmt framansögðu eða ráðið óskar eftir.

4. gr.


    Hafnamálastofnun ríkisins fer með framkvæmd hafnamála á þann hátt sem ákveðið er í lögum þessum.

5. gr.


    Hafnamálastjóri skal að fenginni umsögn hafnaráðs skipaður af samgönguráðherra til fimm ára í senn. Hann veitir Hafnamálastofnun ríkisins forstöðu, jafnframt því sem hann gegnir starfi vitamálastjóra og annast framkvæmd laga um leiðsögu skipa.
    Hafnamálastjóri ræður starfsfólk Hafnamálastofnunar með ráðningarsamningi.

6. gr.


    Hafnamálastofnun ríkisins skal skipt í deildir samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð.

II. KAFLI


Um stjórn hafna og rekstur.


7. gr.


    Höfn táknar í lögum þessum nánar afmarkað svæði þar sem gerð hafa verið mannvirki til lestunar, losunar og geymslu fljótandi fara hverju nafni sem nefnast, enda skal notkun hennar öllum heimil gegn ákveðnu gjaldi.
    Til þess að um höfn geti verið að ræða samkvæmt lögum þessum þarf henni að hafa verið sett reglugerð er tilgreini mörk hennar, auk annarra nauðsynlegra stjórnunarákvæða.

8. gr.


    Eigendur hafna samkvæmt lögum þessum eru sveitarfélög eða hlutafélög. Hafnir geta verið hluthafar í fyrirtækjum sem tengjast starfsemi þeirra. Ráðherra skal ákveða með reglugerð að höfðu samráði við eigendur viðkomandi hafna að mynduð verði hafnasamlög um rekstur þeirra þar sem landfræðileg skilyrði eru fyrir hendi. Innan hvers hafnasamlags skal rekinn einn hafnarsjóður. Með reglugerð um hvert hafnasamlag skal fylgja áætlun um framkvæmdir samkvæmt hafnáætlun svo sem við á um hlutaðeigandi hafnir.

9. gr.


    Hafnarstjórn, sem kosin er af eigendum hafnar eða hafnasamlaga, skal hafa á hendi stjórn hafnar eða hafnasamlags og hafnarsjóðs í samræmi við reglugerð, sbr. 2. mgr. 7. gr.
    Séu eigendur fleiri en einn fer um kosningu samkvæmt reglugerð og stofnsamningi hafnasamlags. Hafnarstjórn ræður hafnarstjóra og ákveður verksvið hans.

10. gr.


    Ráðherra setur samkvæmt lögum þessum og að fengnum tillögum eigenda hafna reglugerð fyrir hverja höfn. Í reglugerðinni skulu m.a. vera ákvæði um:
    Stærð og takmörk hafnarsvæðis á sjó og landi.
    Kosningu, starfs- og valdsvið hafnarstjórnar.
    Starfsemi og umferð á hafnarsvæði.
    Öryggi við flutninga og varnir gegn mengun.
    Hafnsögu.
    Viðurlög við brotum.

11. gr.


    Eftirtalin gjöld skulu greidd fyrir afnot hafna:
    Skipagjöld á skip þau og báta er nota viðkomandi höfn:
         
    
    Gjöld, miðuð við stærð skipa, dvalartíma á hafnarsvæðinu og veitta aðstöðu.
         
    
    Fastagjöld fiskiskips í heimahöfn.
         
    
    Hafnsögugjöld.
         
    
    Vigtargjöld af öllum sjávarafla.
         
    
    Gjöld af ferjum.
         
    
    Önnur gjöld.
    Vörugjöld af vörum sem umskipað er, lestaðar eða losaðar í höfn, þar á meðal aflagjald sem er vörugjald af sjávarafla sem lagður er á land á hafnarsvæðinu.
    Leiga fyrir afnot annarra mannvirkja eða tækja hafnarinnar.
    Leyfisgjöld fyrir bryggjur og önnur mannvirki sem gerð hafa verið skv. 18. gr.
    Lóðargjöld og lóðarleiga.
    Sérstakt vörugjald til Hafnabótasjóðs.
    Ýmis þjónustugjöld, svo sem fyrir vigtun, móttöku á úrgangi, vatnssölu, rafmagnssölu, festagjöld o.fl.
    Nú á annar aðili en hafnarsjóður bryggju innan hafnarsvæðisins og skal þá greiða vörugjöld í hafnarsjóð af þeim farmi er um þá bryggju fer. Eiganda slíkrar bryggju er óheimilt að innheimta til sín vörugjöld af vörum er fara um bryggjuna nema hafnarstjórn samþykki.

12. gr.


    Öll gjöld skv. 11. gr. má taka fjárnámi hjá þeim aðila sem samkvæmt reglugerð er gert að standa skil á greiðslum til hafnarsjóðs.
    Skipagjöld skulu miðuð við stærð skipa samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð og eru þau tryggð með lögveði í viðkomandi skipi eða vátryggingarfé. Gengur það veð í tvö ár fyrir samningsveðskuldum.
    Halda má eftir skráningar- og þjóðernisskírteinum til tryggingar greiðslu skipa- og vörugjalda. Hafnarstjórn er heimilt að krefjast þess að útflytjandi leggi fram tryggingu fyrir vörugjaldi áður en vara fer úr höfn. Vörugjald af vörum sem umskipað er, lestaðar eða losaðar utan löggiltra hafnarsvæða, þar á meðal af sjávarafla, skal ríkissjóður innheimta í samræmi við almenna gjaldskrá skv. 13. gr. og skal gjaldið renna í Hafnabótasjóð. Ákvæði þetta nær þó ekki til skipa undir 10 brúttótonnum að stærð þegar um sjávarafla er að ræða.
    Leiga af lóðum hafna skal almennt reiknuð sem hundraðshluti af fasteignamati lóðar. Sérstakt vörugjald skv. 6. tölul. 1. mgr. 11. gr. skal renna í Hafnabótasjóð. Gjaldið skal vera sem svarar 25% álagi á vörugjöld, önnur en aflagjald, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 11. gr.
    Innheimtuaðilar vörugjalds skv. 2. tölul. 1. mgr. 11 gr. skulu innheimta og standa skil á sérstöku vörugjaldi skv. 6. tölul. 1. mgr. 11. gr.
    Ráðherra skal kveða nánar á um innheimtu og skil á gjaldinu og ákveða hvernig skuli fara með vörslu og daglega afgreiðslu sérstaks vörugjalds samkvæmt lögum þessum.

13. gr.


    Hafnaráð skal að fengnum tillögum Hafnasambands sveitarfélaga gera tillögur til samgönguráðuneytisins, a.m.k. einu sinni á ári, um gjaldskrá skv. 1. tölul. a–b og 2. tölul. 11. gr. Skal gjaldskráin við það miðuð að tekjur hafnarsjóðanna standi almennt undir rekstri og hæfilegu fjármagni til nýbygginga.
    Slík gjaldskrá, staðfest af samgönguráðherra, skal gilda fyrir allar hafnir er lög þessi ná til. Önnur gjöld hafnarinnar ákveður viðkomandi hafnarstjórn. Ráðherra getur heimilað einstökum hafnarstjórnum frávik frá hinni almennu gjaldskrá ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi.

14. gr.


    Tekjum og eignum hafnarsjóðs má einungis verja í þágu hafnarinnar. Hafnarsjóðir skulu undanþegnir hvers konar sköttum til sveitarsjóða. Eigendur hafnar eða hafnasamlags bera ábyrgð á skuldbindingum hafnarsjóðs.

15. gr.


    Ár hvert skal hafnarstjórn semja áætlun um tekjur og gjöld hafnarsjóðs á komandi ári og senda hana Hafnamálastofnun ásamt nauðsynlegum skýringum á tekju- og gjaldaliðum.

16. gr.


    Halda skal reikning fyrir tekjur og gjöld hafnarsjóðs. Reikningsár hafnarsjóðs er almanaksárið. Reikninginn skal endurskoða og úrskurða á sama hátt og reikninga sveitarsjóðs nema hafnarsjóður sé stofnaður með samningi, en þá fer um endurskoðun og úrskurð reikningsins samkvæmt samningnum.
    Hafnarstjórn er skylt að senda Hafnamálastofnuninni ársreikninga og þær upplýsingar sem hún kann að óska eftir og snerta rekstur hafnarinnar.
    Hafnamálastofnuninni ber að senda hafnarsjóði viðskiptareikning síðasta árs fyrir 1. mars ár hvert ef um viðskipti hefur verið að ræða á árinu.

17. gr.


    Óheimilt er án samþykkis ráðuneytisins að selja, veðsetja eða leigja til langs tíma þær eignir hafnarsjóðs er notið hafa ríkisstyrks. Enn fremur er hafnarstjórn óheimilt að hefja kostnaðarsamar framkvæmdir án samþykkis ráðuneytisins.
    Til þess að Hafnamálastofnuninni sé unnt að fylgjast sem best með að ákvæði þessarar greinar séu haldin skal senda henni eftirrit af fundargerðum hafnarstjórnar sé þess óskað.

18. gr.


    Skipulag hafnarsvæðis skal miðast við þarfir hafnarinnar og er skylt að hafa samráð við hafnarstjórn og Hafnamálastofnun við gerð þess.
    Engin mannvirkjagerð má fara fram á hafnarsvæðinu nema með samþykki viðkomandi hafnarstjórnar. Rísi ágreiningur skal málinu vísað til samgönguráðuneytisins til úrskurðar.
    Sé leyfi til mannvirkjagerðar eigi notað innan tveggja ára frá veitingu þess fellur það úr gildi.
    Hafnarstjórn er heimilt, ef nauðsyn krefur, að nema burt á kostnað eiganda bryggjur eða önnur mannvirki í sjó fram sem hætta stafar af eða hafa staðið ónotuð í fimm ár eða lengur.

III. KAFLI


Um framkvæmdir í höfnum, greiðslu kostnaðar við hafnargerð o.fl.


19. gr.


    Frumkvæði um hafnargerð er hjá eiganda hafnar og framkvæmdir á ábyrgð hans.

20. gr.


    Áður en hafnarframkvæmdir hefjast skal Hafnamálastofnun fá staðfest að fjármagn verði handbært til viðkomandi verkáfanga.

21. gr.


    Hver landeigandi er skyldur til að láta af hendi mannvirki og land er þarf til þess að gera höfn samkvæmt lögum þessum, svo og til þess að gera brautir og vegi í því sambandi og til að leyfa að tekin verði í landi hans grjót, möl og önnur jarðefni og þola þær eignakvaðir, óhagræði og takmörkun á afnotarétti sem hafnargerðin hefur í för með sér, allt þó gegn því að fullar bætur komi fyrir. Náist ekki samkomulag um bæturnar skulu þær ákveðnar með mati tveggja dómkvaddra manna að tilkvöddum báðum málsaðilum. Kostnaður við matið greiðist af hafnarsjóði þeim sem hlut á að máli.
    Nú vill annar hvor málsaðili ekki una mati og getur hann þá krafist yfirmats, en það skal gert innan 14 daga frá því að matsgerð er lokið. Yfirmat skal framkvæma af þremur dómkvöddum mönnum og greiðist kostnaður vegna þess samkvæmt venju.

22. gr.


    Hafnarframkvæmdir, er njóta ríkisstyrks, skulu unnar undir tækni- og fjárhagslegu eftirliti Hafnamálastofnunar ríkisins og skulu allar áætlanir og uppdrættir sendar stofnuninni til samþykktar, svo og öll þau reikningsgögn er þarf til að annast nauðsynlega endurskoðun kostnaðar.
    Hafnamálastofnun annast framkvæmd frumrannsókna í samráði við viðkomandi hafnarstjórn. Hafnarframkvæmdir, er njóta ríkisstyrks, skulu að jafnaði unnar samkvæmt tilboði á grundvelli útboðs. Ef verk er þess eðlis eða aðstæður slíkar að öðru leyti að útboð telst ekki muni gefa góða raun er heimilt að fenginni umsögn Hafnamálastofnunar að víkja frá útboði.
    Fari hafnarstjórn þess á leit annast Hafnamálastofnun auk frumrannsókna framkvæmdir eftir því sem við verður komið, skipulagningu hafnarsvæða, hönnun einstakra mannvirkja og gerð kostnaðaráætlana.

23. gr.


    Hafnarframkvæmdir eru kostaðar af sjálfsaflafé hafnarinnar og framlagi frá eigendum. Enn fremur greiðir ríkissjóður hluta af kostnaði við hafnargerðir eftir því sem ákveðið er í lögum þessum.

24. gr.


    Eftirfarandi hafnarframkvæmdir geta notið framlags úr ríkissjóði:
    Undirbúningsrannsóknir og hönnun, þar með talið skipulag hafna og hafnarsvæða, svo og kostnaður við útboð einstakra styrkhæfra framkvæmda.
    Framkvæmdir við hafnargarða, bryggjur, viðlegukanta, ferjuaðstöðu, dýpkun og uppfyllingar sem teljast nauðsynlegur hluti viðlegumannvirkja.
    Dreifikerfi rafmagns, skolps og vatns sem nauðsynleg eru vegna starfsemi hafnarinnar samkvæmt staðfestingu Hafnamálastofnunar hverju sinni.
    Umferðaræðar innan marka hafnarmannvirkja samkvæmt staðfestingu Hafnamálastofnunar hverju sinni.
    Framkvæmdir við siglingamerki, mengunar- og slysavarnir.
    Framkvæmdir á hafnarsvæðum við upptökumannvirki fyrir skip.
    Niðurrif hafnarmannvirkja í eigu hafnarsjóðs telst hafnarframkvæmd, enda sé það liður í nýbyggingu, til umhverfisbóta eða mannvirkið í vegi fyrir notkun annarra styrkhæfra hafnarmannvirkja.
    Sé mannvirki svo illa farið að til álita komi að endurbyggja það skal slík endurbygging því aðeins teljast styrkhæf að mannvirkið hafi hlotið eðlilegt viðhald að dómi hafnamálastjóra.
    Styrkhæfur telst einnig vaxtakostnaður, svo og lántöku- og annar fjármögnunarkostnaður, ásamt kostnaði vegna hækkunar verðtryggðra lána og gengistaps, verði hann til vegna hluta ríkissjóðs í framkvæmdinni og hafi verið stofnað til hans með heimild ráðuneytisins og fjárlaganefndar Alþingis.
    Til viðhalds hafnarmannvirkja teljast almennar viðgerðir og venjulegt viðhald, svo sem endurnýjun á þybbum, þekjum og lögnum, og er slíkt viðhald ekki styrkhæft.
    Landa- og lóðakaup hafna, svo og landgerð, njóta ekki ríkisstyrks. Styrkhæfni framkvæmda skal ákveðin áður en þær hefjast. Rísi ágreiningur um styrkhæfni framkvæmda skal málinu skotið til ráðherra til úrskurðar.

25. gr.


    Skilyrði fyrir greiðslu úr ríkissjóði skv. 24. gr. eru:
    Að eigendur hafnar eða hafnasamlags hafi stofnað hafnarsjóð til þess að eiga og reka höfn og standa undir hafnarframkvæmdum og fengið til þess samþykki ráðuneytisins.
    Að hafnarsjóður hafi tryggt sér eignarrétt á því landsvæði á strandlengju hafnarinnar sem talið er þurfa undir hafnarmannvirki og þá starfsemi sem fram fer við höfnina. Ekki verður það þó gert að skilyrði að hafnarsjóður kaupi í þessu skyni íbúðar- eða verslunarhús eða varanlegar byggingar af öðru tagi.
    Að unnið sé að framkvæmdum samkvæmt tæknilegri og fjárhagslegri áætlun varðandi útgjöld og greiðslu kostnaðar sem eigendur hafnar hafa samþykkt, svo og ráðuneytið, að fenginni umsögn hafnaráðs og hafnamálastjóra.

26. gr.


    Eftirfarandi ákvæði skulu gilda um greiðsluþátttöku ríkissjóðs í hafnarframkvæmdum:
    Ríkissjóður greiðir allt að 100% kostnaðar við frumrannsóknir samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð.
    Ríkissjóður greiðir allt að 90% stofnkostnaðar við eftirtaldar framkvæmdir:
        hafnargarða (öldubrjóta),
        dýpkun hafnar og innsiglingar,
        siglingamerki,
        sérbúnað fyrir ekjuskip og ferjur.
    Ríkissjóður greiðir allt að 60% stofnkostnaðar við eftirtaldar framkvæmdir:
        bryggjur og viðlegukanta,
        uppfyllingar og umferðaræðar á hafnarsvæði,
        upptökumannvirki fyrir skip,
        mengunar- og slysavarnir,
        vatns-, raf- og holræsalagnir um hafnarmannvirkin,
        skipulag hafna og hafnarsvæða.
        niðurrif hafnarmannvirkja.

27. gr.


    Umsóknir um framlög úr ríkissjóði til hafnarframkvæmda skulu sendar Hafnamálastofnun sem vinnur úr tillögunum og leggur fyrir hafnaráð og samgönguráðuneyti. Ráðherra leggur fyrir Alþingi tillögur sínar að fenginni umsögn hafnaráðs.
    Við mat á greiðsluþátttöku ríkissjóðs í einstökum verkefnum skal tekið tillit til fjárhagslegrar getu hafnarsjóðs til að standa undir nauðsynlegum hafnarframkvæmdum, þó með þeim takmörkunum um hámark sem kveðið er á um í 26. gr.
    Greiðsluþátttaka ríkissjóðs í einstökum verkefnum skal ákveðin um leið og verk eru tekin inn á hafnaáætlun og tekin til endurmats á tveggja ára fresti við endurskoðun hafnaáætlunar. Við mat á greiðsluþátttöku ríkissjóðs skal tekið tillit til fjárhagslegrar getu hafnarsjóðs.
    Skerðing á hámarki framlaga skv. 26. gr. skal miðast við fjárhagslega stöðu hafnarsjóðs og skulu settar um það nánari reglur í reglugerð. Þrátt fyrir slíkar reglur getur ráðherra ákveðið að framkvæmdir í höfnum, sem mynda hafnasamlag, njóti tímabundið hámarksframlags skv. 26. gr.

28. gr.


    Heimilt er að gera sérstakar ráðstafanir til að létta greiðslubyrði þeirra hafnarsjóða sem hafa ekki nægar tekjur til að standa undir fjárhagslegum skuldbindingum vegna styrkhæfra hafnarframkvæmda. Við fjárlagagerð hvers árs skal samgönguráðuneytið gera Alþingi sérstaka grein fyrir fjárþörf í þessu efni. Ráðherra skal gera tillögu til fjárlaganefndar og Alþingis um skiptingu fjárins og skal við skiptinguna hafa hliðsjón af tekjum og gjöldum hafnarsjóðs, framlagi sveitarfélags til hafnarsjóðs, fólksfjölda og öðrum þeim atriðum sem hafa áhrif á greiðslugetu hafnarsjóðsins.

IV. KAFLI


Um framkvæmdaáætlanir.


29. gr.


    Hafnamálastofnun skal vinna að gerð áætlana um hafnarframkvæmdir til nokkurra ára í senn, en þó aldrei skemur en til fjögurra ára.
    Við þessa áætlanagerð ber Hafnamálastofnuninni að hafa samráð og samstarf við viðkomandi hafnarstjórn, Hafnasamband sveitarfélaga og hafnaráð.
    Við áætlanagerðina og forgangsröðun framkvæmda skal leggja til grundvallar mat á þörf fyrir framkvæmdir í einstökum höfnum, landshlutum og landinu í heild.
    Sérstök fjögurra ára áætlun um hafnargerðir skal gerð á tveggja ára fresti. Áður en gengið er endanlega frá áætluninni skal hafnamálastjóri senda stjórn hverrar hafnar tillögur sínar um framkvæmdir á áætlunartímabilinu við þá höfn og gefa hafnarstjórnum tiltekinn frest til að koma með athugasemdir og breytingartillögur.
    Áætlunin skal síðan lögð fyrir Alþingi til samþykktar. Ráðherra skal árlega leggja fyrir Alþingi skýrslu um framkvæmdir í hafnamálum árið áður.

V. KAFLI


Um Hafnabótasjóð.


30. gr.


    Hafnabótasjóður er eign ríkisins og fer hafnaráð með stjórn sjóðsins í umboði samgönguráðherra. Hlutverk sjóðsins er að veita lán og styrki til hafnargerða og bæta tjón á hafnarmannvirkjum.

31. gr.


    Tekjur Hafnabótasjóðs eru þessar:
    Vörugjald af vörum sem umskipað er, lestaðar eða losaðar utan löggiltra hafnarsvæða, sbr. 5. mgr. 12. gr.
    Tekjur af starfsemi sjóðsins.
    Sérstakt vörugjald skv. 6. tölul. 1. mgr. 11. gr.
    Framlag úr ríkissjóði samkvæmt ákvörðun Alþingis.

32. gr.


    Hafnabótasjóði er heimilt að taka lán til starfsemi sinnar samkvæmt ákvörðun Alþingis hverju sinni.

33. gr.


    Ráðherra ráðstafar fé Hafnabótasjóðs á eftirgreindan hátt að fengnum tillögum Hafnamálastofnunar og hafnaráðs og með samþykki fjárlaganefndar Alþingis:
    Sjóðurinn veitir hafnarsjóðum lán til framkvæmda með hliðsjón af fjárþörf í hverju tilviki.
    Sjóðnum er heimilt að bæta tjón á hafnarmannvirkjum sem skemmst hafa af völdum náttúruhamfara eða af öðrum óviðráðanlegum orsökum, þar með talið tjón sem ekki fæst að fullu bætt úr Viðlagasjóði eða vegna ákvæða IX. kafla siglingalaga um takmarkaða ábyrgð útgerðarmanna.
    Sjóðnum er heimilt að veita lán og/eða styrk umfram ríkisframlag til nýrra hafnarframkvæmda sem nemi allt að 30% af heildarframkvæmdakostnaði til staða sem eiga við verulega fjárhagsörðugleika að stríða vegna dýrrar mannvirkjagerðar, fólksfæðar eða annarra gildra orsaka. Styrkir mega aldrei nema meira en 15% af heildarframkvæmdakostnaði.
    Sjóðnum er heimilt að veita sérstaka styrki til að greiða fyrir stofnun hafnasamlaga umfram það sem segir í 3. tölul.
    Sjóðnum er heimilt að veita hafnarsjóðum lán út á væntanleg ríkisframlög samkvæmt lögum þessum.
    Samanlagt mega styrkir og lán úr Hafnabótasjóði að viðbættu ríkisframlagi aldrei fara yfir 90% af styrkhæfum framkvæmdakostnaði.

34. gr.


    Hafnamálastofnun ríkisins annast vörslu, daglega afgreiðslu og bókhald Hafnabótasjóðs. Lánasýsla ríkisins veitir sjóðnum aðstoð við öflun lánsfjár.

35. gr.


    Ráðherra ákveður vexti og önnur kjör þeirra lána er sjóðurinn veitir með tilliti til þess að sjóðurinn sé skaðlaus af starfsemi sinni.

36. gr.


    Hafnabótasjóður er undanþeginn öllum sköttum til ríkis og sveitarfélaga, svo og stimpilgjöldum af eigin lántökum.

37. gr.


    Umsóknir um lán og styrki úr Hafnabótasjóði skulu sendar til Hafnamálastofnunar ríkisins. Umsóknum skulu fylgja ítarleg gögn og rökstuðningur, þar á meðal reikningar hafnarinnar síðasta ár og almennar upplýsingar um fjárhag og fjárþörf hennar.

VI. KAFLI


Ýmis ákvæði.


38. gr.


    Hvers konar bótakröfum fyrir tjón, sem skip kunna að valda á eignum hafnarsjóða, fylgir lögtaksréttur.

39. gr.


    Með mál út af brotum gegn lögum þessum eða reglugerðum, sem settar eru samkvæmt þeim, skal farið að hætti opinberra mála og varða brot sektum.
    Til tryggingar greiðslum sektar og vangoldinna gjalda samkvæmt lögum þessum er kyrrsetning heimil.

40. gr.


    Ráðherra skal fyrir árslok 1992 setja reglugerð um framkvæmd þessara laga.

41. gr.


    Með lögum þessum eru úr gildi felld hafnalög, nr. 69 28. maí 1984, svo og 68. og 69. gr. laga nr. 108/1988 og 29.–32. gr. laga nr. 1/1992.

42. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Þrátt fyrir ákvæði 24. og 26. gr. laga þessara skulu ákvæði laga nr. 69/1984, um allt að 40% ríkisframlaga til stofnkostnaðar við hafnarvogir, hafnsögubáta og löndunarkrana, gilda til ársloka 1994.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp það, sem hér liggur fyrir til nýrra hafnalaga, er endurskoðuð útgáfa af gildandi hafnalögum, nr. 69/1984. Frumvarpið var lagt fyrir 116. löggjafarþing 1992–93, en varð þá eigi útrætt, og er nú flutt óbreytt.
    Nefnd til þessarar endurskoðunar var skipuð með bréfi samgönguráðherra, Halldórs Blöndals, dags. 28. ágúst 1991. Í nefndinni áttu sæti Árni M. Mathiesen alþingismaður, Guðmundur Einarsson, aðstoðarmaður iðnaðarráðherra, Hermann Guðjónsson hafnamálastjóri, Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, Kristján Ragnarsson, formaður Landssambands íslenskra útvegsmanna, Ólafur S. Valdimarsson ráðuneytisstjóri og Sturla Böðvarsson, alþingismaður og formaður Hafnasambands sveitarfélaga, sem jafnframt var formaður nefndarinnar. Sveinn Hj. Hjartarson hagfræðingur, varamaður Kristjáns Ragnarssonar, hefur í forföllum hans setið flesta fundi nefndarinnar. Ritari nefndarinnar var Rúnar Guðjónsson, deildarstjóri í samgönguráðuneytinu. Nefndin hélt samtals 16 bókaða fundi og var sammála um tillögur að frumvarpi því til nýrra hafnalaga sem hér er lagt fram.
    Aðalbreytingarnar í því frumvarpi, sem hér liggur fyrir frá gildandi hafnalögum, eru sem hér segir:
    Í 8. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir því að eigendur hafna geti auk sveitarfélaga einnig verið hlutafélög. Jafnframt er gert ráð fyrir því að hafnir geti orðið hluthafar í fyrirtækjum sem tengjast starfsemi þeirra. Hafnir gætu t.d. samkvæmt þessu ákvæði orðið hluthafar í fiskmörkuðum.
    Í 8. gr. er einnig gert ráð fyrir því að mynduð verði hafnasamlög um rekstur hafna þar sem landfræðileg skilyrði eru fyrir hendi. Í fylgiskjali með frumvarpinu eru hugmyndir nefndarinnar sýndar um það hvernig mætti hugsa sér stofnun þessara hafnasamlaga og hvernig þau hvert fyrir sig mundu koma út fjárhagslega. Með stofnun hafnasamlaganna er stefnt að hagræðingu í nýtingu hafna og framkvæmdum, enda gert ráð fyrir að milli þeirra sé almennt gott vegasamband árið um kring. Þannig er ekki gert ráð fyrir að hafnasamlag á Vestfjörðum verði raunhæft fyrr en lokið er gerð jarðganga milli Ísafjarðar, Suðureyrar og Flateyrar. Nefndin telur eðlilegt að ríkisvaldið stuðli að sínu leyti að því að hafnasamlög verði mynduð, m.a. með gerð sérstakra framkvæmdaáætlana fyrir hvert einstakt hafnasamlag og betri fyrirgreiðslu varðandi ríkisframlög til framkvæmda en einstakar hafnir innan samlaganna gætu annars vænst.
    Ákvæði um kostnaðarþátttöku ríkissjóðs er nú breytt á þann hátt að ýmis ytri mannvirki hljóta 90% ríkisframlag. Ber þar aðallega að nefna hafnargarða (öldubrjóta) og dýpkanir hafna og innsiglinga auk siglingamerkja og sérbúnaðar fyrir ekjuskip og ferjur, en þessar framkvæmdir njóta nú 75% ríkisframlags. Í þessum styrkflokki var áður aðeins dýpkun aðalsiglingaleiðar að höfn. Allar aðrar styrkhæfar hafnarframkvæmdir hljóta 60% ríkisstyrk en 40% styrkflokkurinn er felldur niður. Jafnframt er fellt niður 40% ríkisframlag til hafnarvoga, hafnsögubáta og fastra krana til löndunar úr smábátum en ríkisframlag til upptökumannvirkja fyrir skip hækkar í 60% stofnkostnaðar.
                  Nefndin telur að þegar á heildina er litið taki ríkissjóður svipaðan þátt í hafnargerðum og verið hefur þrátt fyrir þessar breytingar.
    Í frumvarpinu eru ákvæði um 25% álag á vörugjald er renni í Hafnabótasjóð. Þetta er í samræmi við 29.–32. gr. laga nr. 1/1992. Sú breyting er gerð að álagið er látið renna til lán- og styrkveitinga úr sjóðnum en ekki sem framlag ríkisins til almennra hafnarframkvæmda eins og þau lög gerðu ráð fyrir. Miðað við núgildandi gjaldskrá má ætla að tekjur af sérstöku álagi á vörugjald nemi um 125 m. kr. á ári og með hliðsjón af því er framlag ríkisins nú gert háð ákvörðun Alþingis hverju sinni.
    Aðrar breytingar, sem nefndin hefur gert á gildandi hafnalögum, hafa minni áhrif og oft er aðeins um að ræða að sniðnir hafa verið agnúar af gildandi lögum. Fyrir þessum breytingum verður gerð nánari grein í athugasemdum með einstökum greinum frumvarpsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Orðið „allra“ er fellt út.

Um 2. gr.


    Skipun hafnaráðs er nú breytt á þann veg að fjölgað er í hafnaráði um tvo fulltrúa, en tveir varamenn eiga hins vegar ekki lengur rétt til setu á fundum ráðsins með málfrelsi og tillögurétti. Í stað eins fulltrúa, sem tilnefndur er af Hafnasambandi sveitarfélaga, verða fulltrúarnir nú tveir. Þrír fulltrúar eru skipaðir af samgönguráðherra og er einn þeirra, eins og áður, starfsmaður samgönguráðuneytis og jafnframt formaður ráðsins, skipaður til fjögurra ára, en tvo fulltrúa samgönguráðherra skal skipa að nýju við ráðherraskipti. Þetta er í samræmi við þær skoðanir sem hafa verið að ryðja sér til rúms að eðlilegt sé að ráðherra hverju sinni ráði því hverjir eru fulltrúar hans í föstum nefndum og ráðum og hann hafi möguleika á að skipta um þá fulltrúa sem fyrrverandi ráðherra skipaði án tilnefningar, hugsanlega skömmu áður en ráðherraferli lauk.

Um 3. gr.


    Minni háttar orðalagsbreytingar hafa verið gerðar á þessari grein.

Um 4.–5. gr.


    Núverandi 4. gr. hafnalaganna hefur í þessu frumvarpi verið skipt upp þannig að hér er gerð tillaga um að einungis 1. mgr. hennar sé í 4. gr., en hinn hlutinn tilheyri 5. gr., enda er svo mikill eðlismunur á efni þessara málsgreina að eðlilegt þykir að skipta þeim milli lagagreina.
    Breytingar á greininni að öðru leyti eru fyrst og fremst þær að ekki þykir ástæða til að ráðherra skipi yfirmenn deilda, heldur skuli þeir ráðnir af hafnamálastjóra eins og annað starfsfólk. Óþarfi þykir að hafa ákvæði um heimild til endurráðningar hafnamálastjóra en með niðurfellingunni er ekki verið að breyta núverandi fyrirkomulagi. Jafnframt er felld niður núverandi 5. gr. þar sem segir að Hafnamálastofnun skuli „hafa umráð yfir tækjum sem nauðsynleg eru til að annast þau verkefni sem henni eru falin og hafa í þjónustu sinni sérþjálfað starfslið og sérhæfð tæki. Sérstaklega skal stofnunin búin fullnægjandi rannsóknarbúnaði.“ Þessi niðurfelling er í samræmi við breytt starfssvið og tilgang Hafnamálastofnunar.

Um 6. gr.


    Greinin er óbreytt frá gildandi lögum.

Um 7. gr.


    Tekin eru út orðin „samkvæmt staðfestu deiliskipulagi“.

Um 8. gr.


    Eins og getið er um í athugasemdunum hér að framan eru veigamiklar breytingar frá gildandi lögum í þessari grein. Þannig er gerð tillaga um að eigendur hafna samkvæmt lögunum geti verið sveitarfélög eða hlutafélög. Hér er opnað fyrir þann möguleika að hlutafélög með aðild einkaaðila geti fallið undir hafnalögin og notið fyrirgreiðslu ríkissjóðs við hafnarframkvæmdir á sama hátt og er um hafnir sveitarfélaga í dag. Jafnframt er höfnum heimilað að gerast hluthafar í fyrirtækjum sem tengjast starfsemi þeirra, svo sem fiskmörkuðum, eins og áður er getið um.
    Í þessari grein er einnig gert ráð fyrir því að samgönguráðherra ákveði með reglugerð að höfðu samráði við eigendur viðkomandi hafna að mynduð verði hafnasamlög um rekstur þeirra þar sem landfræðileg skilyrði eru fyrir hendi. Um þetta atriði er nánar fjallað í almennu greinargerðinni.

Um 9. gr.


    Á þessari grein eru gerðar smávægilegar orðalagsbreytingar sem ekki er ástæða til að skýra nánar.

Um 10. gr.


    Í stað þess að ráðuneytið setji reglugerð samkvæmt þessari grein er nú kveðið á um að ráðherra setji hana.

Um 11. gr.


    Við 1. tölul. í þessari grein er hér bætt vigtargjöldum af öllum sjávarafla og gjöldum af ferjum. Í 5. tölul. er bætt lóðarleigu og teknir eru upp nýir liðir, 6. og 7. tölul., þar sem annars vegar er um að ræða sérstakt vörugjald til Hafnabótasjóðs, sbr. lög nr. 1/1992, og ýmis þjónustugjöld.

Um 12. gr.


    Í þessa grein eru tekin inn ákvæði um innheimtu sérstaks vörugjalds í samræmi við ákvæði í áðurgreindum lögum, nr. 1/1992. Skal gjaldið vera sem svarar 25% álagi á vörugjöld, önnur en aflagjald. Einnig er skotið inn heimild fyrir hafnarstjórn til að krefjast þess að „útgerðarfélag leggi fram tryggingu fyrir vörugjaldi áður en vara fer úr höfn“.
    Með ákvæðum þessarar greinar er því breytt að gjöld skv. 11. gr. séu heimtanleg með lögtaki og þarf nú fjárnám til.

Um 13. gr.


    Óbreytt frá 13. gr. gildandi laga að öðru leyti en því að skotið er inn setningunni „önnur gjöld hafnarinnar ákveður viðkomandi hafnarstjórn“ og að kveðið er um að ráðherra veiti nú heimildir til frávika frá hinni almennu gjaldskrá í stað ráðuneytis áður.

Um 14.–17. gr.


    Orðalagsbreytingar sem þarfnast ekki skýringa.

Um 18. gr.


    Greinin er óbreytt frá gildandi lögum.

Um 19. gr.


    Orðin „við þær“ falla brott.

Um 20. gr.


    Orðalagsbreytingar sem þarfnast ekki skýringa.

Um 21. gr.


    Greinin er óbreytt frá gildandi lögum.

Um 22. gr.


    Meiri áhersla er lögð á það í þessari grein en í gildandi lögum að hafnarframkvæmdir, sem njóta ríkisstyrks, skuli unnar samkvæmt tilboði á grundvelli útboðs. Sé hins vegar talið að aðstæður séu slíkar að útboð muni ekki gefa góða raun er heimilt að fenginni umsögn Hafnamálastofnunar að víkja frá útboði.

Um 23. gr.


    Greinin er óbreytt frá gildandi lögum.

Um 24. gr.


    Hér er felldur niður 7. tölul. úr gildandi lögum sem er stofnkostnaður við hafnarvogir og fasta krana til löndunar úr smábátum. Enn fremur er tekið fram að landgerð njóti ekki frekar en landa- og lóðakaup hafna ríkisstyrks. Með landgerð er átt við uppfyllingar sem gætu m.a. nýst sem byggingarlóðir. Aðrar breytingar þurfa ekki skýringa við.

Um 25. gr.


    Úr 25. gr. gildandi laga er hér felldur niður síðari hluti 1. tölul. sem nefndin lítur svo á að sé óþarfur.

Um 26. gr.


    Hér er um veigamiklar breytingar að ræða og vísast um þær til almennu greinargerðarinnar hér að framan.

Um 27. gr.


    Hér er um að ræða nokkrar breytingar frá gildandi lögum þar sem gert er ráð fyrir að fjárlaganefnd Alþingis geti skert fjárframlög til hafna að fenginni umsögn hafnamálastjóra og hafnaráðs. Til að tryggja betur framkvæmd skerðingarákvæða er gert ráð fyrir í frumvarpinu að ráðherra setji reglugerð sem kveði á um framkvæmdina.
    Í núgildandi lögum eru ákvæði um að mismunur framlaga úr ríkissjóði sem þannig myndast skuli renna sem tekjur í Hafnabótasjóð. Þetta ákvæði hefur aldrei verið framkvæmt og er það fellt niður í frumvarpinu.

Um 28. gr.


    Greinin er óbreytt frá gildandi lögum.

Um 29. gr.


    Í greinina er bætt nýrri málsgrein svohljóðandi: „Við áætlanagerðina og forgangsröðun framkvæmda skal leggja til grundvallar mat á þörf fyrir framkvæmdir í einstökum höfnum, landshlutum og landinu í heild.“
    Nefndin leggur ríka áherslu á að Alþingi afgreiði fjögurra ára hafnaáætlun á formlegan hátt sem ályktun Alþingis.

Um 30. gr.


    Hér er gerð sú breyting frá gildandi lögum að gert er ráð fyrir að hafnaráð fari með stjórn sjóðsins í umboði samgönguráðherra. Jafnframt er hlutverk sjóðsins tilgreint.

Um 31. gr.


    Í 3. tölul. er bætt ákvæðum um sérstakt vörugjald sem tekjulið fyrir Hafnabótasjóð. Framlag ríkisins er nú háð ákvörðun Alþingis hverju sinni. Frekari umfjöllun um þessa grein er að finna í almennu athugasemdunum hér að framan.

Um 32. gr.


    Í stað þess að veita Hafnabótasjóði heimild til lántöku miðað við ákveðna upphæð er lántakan gerð háð ákvörðun Alþingis.

Um 33. gr.


    Hér er skilgreint frekar en í gildandi lögum hverjar lán- og styrkveitingar geti orðið til einstakra hafna. Í 3. tölul. er tekið fram að lán og/eða styrkur umfram ríkisframlag geti ekki numið hærri fjárhæð en 30% af heildarframkvæmdakostnaði og styrkirnir aldrei hærri fjárhæð en 15%. Jafnframt er tekið fram að styrkir og lán úr Hafnabótasjóði geti að viðbættu ríkisframlagi aldrei farið fram úr 90% af framkvæmdakostnaði, en það hefur verið sú óskrifaða regla sem fylgt hefur verið í mörg undanfarin ár. Þá er gert ráð fyrir að samþykki fjárlaganefndar þurfi ekki fyrir ráðstöfun fjár úr sjóðnum.

Um 34. gr.


    Í 35. gr. gildandi laga er gert ráð fyrir að Seðlabanki Íslands annist „í umboði ráðherra vörslu, daglega afgreiðslu og bókhald Hafnabótasjóðs“, jafnframt því sem hann veitir sjóðnum aðstoð við öflun lánsfjár. Hér er gert ráð fyrir því að þessi starfsemi færist að hluta yfir til Hafnamálastofnunar og er það m.a. gert vegna innheimtu á sérstaka vörugjaldinu. Þá er gert ráð fyrir að Lánasýsla ríkisins veiti sjóðnum aðstoð við öflun lánsfjár.

Um 35. gr.


    Greinin er samhljóða 34. gr. gildandi laga.

Um 36. gr.


    Greinin er óbreytt frá gildandi lögum.

Um 37. gr.


    Hér er gert ráð fyrir þeirri breytingu að umsóknir um lán og styrki úr Hafnabótasjóði séu sendar beint til Hafnamálastofnunar ríkisins í stað þess að senda þær til samgönguráðuneytisins.

Um 38.–39. gr.


    Greinar þessar eru óbreyttar frá gildandi lögum.

Um 40.–42. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.




Fylgiskjal I.


Hugmynd að hafnasamlögum og aðrar hafnir,


tekjur þeirra og gjöld árið 1990.



TAFLA REPRÓ

Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til hafnalaga.


    Með frumvarpinu er sett ný heildarlöggjöf um hafnamál. Aðalkostnaðarþáttur þess er styrkveitingar ríkissjóðs til hafnarmannvirkjagerðar sveitarfélaga. Samkvæmt frumvarpinu breytist styrkhlutfall ríkissjóðs til einstakra framkvæmda eins og hér segir:


TAFLA REPRÓ























    Aukin þátttaka ríkissjóðs í framkvæmdum sem mótast af náttúruumhverfi hafna, svo sem gerð hafnargarða og dýpkanir, er rökstudd í greinargerð frumvarpsins með því að verið sé að jafna aðstöðumun einstakra sveitarfélaga til hafnargerða. Engu að síður verður að hafa hugfast að 90% þátttaka ríkissjóðs í framkvæmdum sem þessum mun auka þrýsting á að farið verði út í dýrar framkvæmdir án þess að hagkvæmnisjónarmið fái þar um ráðið.
    Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að heildarframlag ríkissjóðs til hafnarframkvæmda verði að mestu óbreytt frá því sem gildandi löggjöf kveður á um. Sérfræðingar vita- og hafnamálaskrifstofu hafa tekið saman yfirlit yfir hafnarframkvæmdir síðastliðin sex ár og borið saman útgjöld ríkissjóðs samkvæmt ákvæðum frumvarpsins og ákvæðum gildandi laga. Niðurstaða þeirrar úttektar er eftirfarandi:


  Gildandi


lög

  Frumvarp



1987           277
,9
255 ,3
1988           381
,6
358 ,3
1989           453
,8
458 ,5
1990           481
,0
472 ,8
1991           821
,6
774 ,2
1992           803
,7
779 ,2


    Á heildina litið má sjá að útgjöld samkvæmt frumvarpinu eru ívið lægri en samkvæmt gildandi lögum. Hins vegar ber að hafa í huga að hin breytta kostnaðarhlutdeild í einstökum framkvæmdum gæti vel haft áhrif á val þeirra framkvæmda sem ráðist verður í á næstu árum.
    Í frumvarpinu er það nýmæli að heimilt er að stofna hafnasamlög til að koma á virkri verkaskiptingu milli hafna innan ákveðins svæðis. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að slík hafnasamlög geti leitt til mikillar hagræðingar. Tekið er undir það sjónarmið.
    Hins vegar er erfitt að sjá hvað muni hvetja einstök sveitarfélög til að sameinast um slík samlög þar sem styrkur ríkissjóðs til stofnkostnaðar þeirra framkvæmda, er snýr að hinu rekstrarlega umhverfi hafna, er enn mjög hár, eða 60%, og Hafnabótasjóði er heimilt að bæta við allt að 30% kostnaðar. Þannig vegur sjálfsaflafé hafna ekki mjög þungt við fjármögnun slíkra framkvæmda.
    Þá er vakin athygli á að ríkissjóði er ætlað að greiða 60% í kostnaði vegna upptökumannvirkja fyrir skip, þ.e. stofnkostnað dráttarbrauta. Hér er um að ræða hækkun frá gildandi lögum eins og fram kemur á ofangreindri töflu og verður að skoðast sem hreinn ríkisstyrkur til reksturs dráttarbrauta.
    Ákvæðum um starfsemi Hafnabótasjóðs er einnig breytt. Hið sérstaka vörugjaldsálag er lækkað úr 25% í 20% og rennur nú til starfsemi Hafnabótasjóðs, sem ætlað er að létta kostnaðarhluta hafnarsjóða og hafnasamlaga, í stað þess að koma til hækkunar á framlagi ríkisins eins og núverandi lög kveða á um.
    Þá er gert ráð fyrir að sjóðnum sé sjálfkrafa heimilt að taka lán að fjárhæð helmings almennra framlaga til hafnarmannvirkja. Fjármálaráðuneytið telur þetta ákvæði stangast á við 13. gr. laga nr. 84/1985, um breyting á lögum nr. 52/1966, um ríkisbókhald, gerð ríkisreiknings og fjárlaga, þar sem segir að nýting lántökuheimilda í sérlögum skuli ávallt vera innan þeirra marka sem kveðið er á um í lánsfjárlögum hverju sinni. Að auki er sjóðurinn ekki það stór að hagkvæmt sé fyrir hann að fara á erlenda lánamarkaði. Loks skal þess getið að það er Lánasýsla ríkisins, ekki Seðlabanki Íslands, sem aðstoðar aðila sem þessa við lánsfjáröflun.