Ferill 193. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 193 . mál.


394. Nefndarálit



um frv. til hafnalaga.

Frá meiri hluta samgöngunefndar.



    Frumvarp þetta var flutt á síðasta Alþingi og þá athugað ítarlega í samgöngunefnd. Meiri hluti nefndarinnar flutti þá allmargar breytingartillögur við frumvarpið en það náði þó eigi afgreiðslu Alþingis. Frumvarpið var endurflutt á þessu þingi með þeim breytingum sem meiri hluti nefndarinnar lagði til fyrir þinglok sl. vor.
    Nefndin hefur athugað frumvarpið að nýju, einkum með tilliti til athugasemda sem fram komu við 1. umræðu um málið og í starfi nefndarinnar. Fram hefur komið að nýju umsögn um frumvarpið frá hafnarstjórn Reykjavíkur. Þá kom á fund nefndarinnar Jón Birgir Jónsson, ráðuneytisstjóri í samgönguráðuneytinu.
    Nefndin varð eigi sammála um afgreiðslu málsins. Meiri hluti nefndarinnar leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu og flytur breytingartillögur á sérstöku þingskjali. Breytingarnar eru eftirfarandi:
    Lagt er til að fellt verði niður ákvæði um að hlutafélög geti orðið eigendur hafna samkvæmt lögum þessum. Þetta er gert vegna þess að eigi fengust skýlaus svör við því hver yrði staða hafna í eigu hlutafélaga gagnvart skattalögum.
    Fellt verði niður ákvæði um að ráðherra skuli setja reglugerð fyrir „hverja höfn“. Í stað þess setji hann reglugerð um hafnir með tilliti til þess að ein reglugerð gæti gilt fyrir hafnir sem standa sameiginlega að hafnasamlagi.
    Fellt verði niður ákvæði um að ráðherra skuli setja í reglugerð ákvæði um hafnsögu en það fellur undir ákvæði laga um leiðsögu skipa.
    Lagt er til að tekin séu af tvímæli um að hið sérstaka 25% vörugjald skuli lagt á samkvæmt almennri gjaldskrá, sem staðfest er af samgönguráðherra, þannig að hugsanleg frávik frá þeirri gjaldskrá hafi eigi áhrif á innheimtu þess.
    Lagt er til að bætt verði við ákvæði sem er í samræmi við 6. gr. laga nr. 112/1993, um efnahagsaðgerðir vegna kjarasamninga, þannig að einstökum hafnarstjórnum verði heimilt að lækka gjöld af sjávarafla.
    Lagt er til að ákvæðum um bótagreiðslur verði breytt þannig að bætur verði ákveðnar samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms þar sem samkomulag næst eigi.
    Lagt er til að ákvæði 36. gr. og 2. mgr. 39. gr. verði felld brott þar sem þau höfðu þegar verið felld brott úr lögum nr. 68/1984.
    Lagt er til að ráðherra verði eigi settur frestur til setningar reglugerðar um framkvæmd laganna og jafnframt að inn verði tekin ákvæði 6. gr. laga nr. 62/1993 um breytingu á lagaákvæðum er varða samgöngumál, vegna aðildar að Evrópska efnahagssvæðinu, sem samþykkt voru 5. maí 1993.
    Loks er lagt til að felld verði niður eldri lög ásamt öllum breytingum sem á þeim hafa verið gerð.
    Meiri hlutinn telur það ótvírætt að ef hafnarsjóðir eiga aðild að hlutafélögum, sbr. 8. og 14. gr. frumvarpsins, verði þau hlutafélög skattlögð sem hver önnur slík starfsemi. Jafnframt telur meiri hlutinn einboðið að þar sem hafnarsjóðir verja fé til slíkrar starfsemi verði framlög ríkisins til framkvæmda skert frá hámarki skv. 26. gr. Um slíka skerðingu ríkisframlaga verði sett ákvæði í reglugerð svo sem kveðið er á um í 27. gr.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þessum breytingum.

Alþingi, 15. des. 1993.



Pálmi Jónsson,

Petrína Baldursdóttir.

Sturla Böðvarsson.


form., frsm.



Egill Jónsson.

Árni Johnsen.