Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 1 . mál.


462. Framhaldsnefndarálit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1994.

Frá minni hluta fjárlaganefndar.



    Fjárlaganefnd hefur haft frumvarp til fjárlaga fyrir árið 1994 til meðferðar eftir 2. umræðu. Farið hefur fram hefðbundin athugun á tekjuhlið, B-hlutastofnunum og 6. gr. frumvarpsins. Þá hafa verið afgreiddar tillögur sem meiri hluti fjárlaganefndar lét bíða 3. umræðu.
    Nefndin hafði alls ekki þann tíma sem hefði þurft til þess að fara rækilega yfir tekjugrein frumvarpsins. Frumvörp til breytinga á skattalögum til samræmis við tekjugrein fjárlagafrumvarpsins komu seint fram. Síðustu afgreiðslur ríkisstjórnar í þessum málum bárust nefndinni aðeins stuttu fyrir lokaafgreiðslu hennar á fjárlagafrumvarpinu.
    Samkvæmt 25. gr. þingskapa vísaði fjárlaganefnd tekjugreininni til umsagnar hjá efnahags- og viðskiptanefnd. Í umsögnum 1. og 2. minni hluta nefndarinnar kemur fram hörð gagnrýni á þann skamma tíma sem nefndin hafði til þess að fjalla um tekjuhliðina og hversu seint og illa upplýsingar bárust frá ríkisstjórninni. Minni hluti fjárlaganefndar tekur undir þessi orð 1. og 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.

Tekjuhliðin.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir verulegum breytingum á skattkerfinu. Að mati minni hlutans gafst fjárlaganefnd ekki tími til að fara yfir þær breytingar með þeim hætti sem nauðsynlegt er vegna þess að ekki liggja fyrir fullnægjandi upplýsingar eða úttekt á áhrifum þessara breytinga. Veigamesta breytingin er sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að lækka virðisaukaskatt á matvælum í 14%. Verði þessi breyting samþykkt við afgreiðslu fjárlaga telur minni hluti fjárlaganefndar að verulega þurfi að auka allt eftirlit með framkvæmd virðisaukaskattslaganna ef breytingin á að ná því markmiði sem til er ætlast, þ.e. lækka verð á matvöru. Minni hlutinn átelur hversu illa hefur verið unnið að undirbúningi að þessum skattkerfisbreytingum af hálfu ríkisstjórnarinnar og dregur stórlega í efa að hægt sé að framkvæma þær 1. janúar verði þær samþykktar við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins. Lækkun matarskatts felur samkvæmt upplýsingum fjármálaráðuneytis í sér tekjutap ríkissjóðs upp á 2,6 milljarða kr. Til þess að mæta þessu tekjutapi var m.a. gert ráð fyrir að komið yrði á fjármagnstekjuskatti auk annarra aðgerða. Ríkisstjórnin hikstaði enn einu sinni á þeirri framkvæmd. Minni hluti fjárlaganefndar dregur í efa að þær aðgerðir, sem ríkisstjórnin boðar nú til þess að mæta tekjutapi ríkissjóðs vegna áformaðrar lækkunar á virðisaukaskatti á matvælum, skili þeim tekjum sem til er ætlast.
    Önnur veigamikil breyting á skattkerfinu er sú að nú á að festa í sessi skattlagningu á einstaklinga í stað aðstöðugjaldsins sem fellt var niður á fyrirtækjum um áramótin 1992–1993. Við niðurfellingu aðstöðugjaldsins var tekjuskattur einstaklinga hækkaður um 1,5%. Skattahækkun þessi átti að vera tímabundin til þess að mæta tekjutapi sveitarfélaga vegna aðstöðugjaldsins. Nú er gert ráð fyrir að færa 1,5% úr tekjuskatti yfir í útsvör sveitarfélaganna og bæta þar 0,2% við þannig að hámarksútsvarsálagningin fer úr 7,5% í 9,2%.
    Tekjuskattinn á síðan að hækka um 0,35%. Samanlögð skattprósenta einstaklinga á næsta ári getur því orðið 41,9% en var 39,85%. En ríkisstjórnin ætlar ekki aðeins að ákveða hámarksútsvarsprósentu fyrir sveitarfélögin heldur setur skilyrði um lágmarksálagningu. Sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaga er þannig stórlega skertur frá því sem nú er.
    Í upphaflegum tillögum ríkisstjórnarinnar var gert ráð fyrir að um áramót yrði 14% virðisaukaskattur lagður á ferðaþjónustu, þar með taldar almenningssamgöngur. Þegar þetta er skrifað nokkrum tímum fyrir áætlaða afgreiðslu frumvarps til fjárlaga er áformað að draga þessa skattlagningu til baka að hluta, þ.e. allt nema skattlagningu á gistingu. Minni hluti fjárlaganefndar fagnar þeirri breytingu en telur að fella hefði átt niður alla skattlagningu á ferðaþjónustuna. Reiknað er með að gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu hafi aukist um 2.500 millj. kr. á síðasta ári og beinar tekjur ríkissjóðs um a.m.k. 500 millj. kr. Ferðaþjónustan er vaxandi atvinnugrein og það er engin skynsemi að draga úr vaxtarmöguleikum hennar með stóraukinni skattlagningu í því atvinnuástandi sem nú ríkir.
    Við 1. og 2. umræðu fjárlaga bentu fulltrúar minni hluta fjárlaganefndar á þær stórfelldu skattahækkanir sem orðið hafa í tíð þessarar ríkisstjórnar og þær stóru hallatölur sem eru í ríkisbúskapnum ár hvert. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1994 segir á bls. 245: „Lykilatriði í efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar er að fylgt verði trúverðugri stefnu í ríkisfjármálum þar sem markvisst verði dregið úr halla ríkissjóðs á næstu árum án þess að hækka skatta.“ Niðurstaðan er hins vegar sú að aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru í litlu samræmi við yfirlýsingar eða loforð.
    Barnabætur hafa verið lækkaðar. Ýmiss konar þjónustugjöld hafa verið hækkuð verulega og aukið útgjöld heimilanna frá því sem áður var. Tekjuskattar verða hækkaðir og skattar færðir af fyrirtækjum á einstaklinga, persónuafsláttur skertur og bifreiðagjöld hækkuð.
    Nú boða tillögur ríkisstjórnarinnar að tekjuskattur einstaklinga hækki um 0,35% sem þýðir 600 millj. kr. skattahækkun, bifreiðagjald hækkar um 35% eða 450 millj. kr. Ef sveitarfélögin nýta sér hámarksálagningu útsvars þýðir það 200 millj. kr. viðbótarskattlagningu á almenning í landinu. Ofan á þetta er síðan bætt auknum þjónustugjöldum, aukinni þátttöku í lyfjakostnaði og hækkun á öðrum sértekjum stofnana ríkisins.
    Þá hafa orðið verulegar breytingar á ýmsum liðum í staðgreiðslunni, flestar til skattahækkunar. Ef persónufsláttur ársins 1988 er framreiknaður miðað við fast verðlag hefði hann átt að nema 299.441 kr. árið 1993 en nam 286.935 kr. Skattleysismörk ættu að vera 850.685 kr. en eru 689.724 kr. og lækkuðu frá árinu 1992 um 32.000 kr. Húsnæðisbætur ættu að nema 74.128 kr. á árinu 1993 en námu 62.619 kr.
    Ef aðeins er tekin breytingin frá árinu 1990 ætti persónuafsláttur að vera 297.366 kr. en er 286.935 kr., vaxtabætur ættu að vera 212.880 kr. en eru 203.310 kr., húsnæðisbætur ættu að vera 65.332 kr. en eru 62.619 kr. og skattleysismörk ættu að vera 747.339 kr. en eru 689.724 kr.
    Ofan á allt þetta er ríkissjóður rekinn með gífurlegum halla og stefnir nú í stærri hallatölur en nokkurn tíma hafa sést.

Breyttar þjóðhagsforsendur.
    Þjóðhagsstofnun hefur nýlega kynnt nýjar horfur í þjóðarbúskapnum. Þar er um að ræða örlítið betri útkomu á þessu ári en spáð hafði verið. Útflutningstekjur munu aukast um 3,7% í stað 2%. Viðskiptahalli verður nokkru minni en áætlað var eða um 3 milljarðar kr. í stað 5,5 milljarða kr. Þetta breytir þó litlu um stöðuna í heild sinni. Horfur á næsta ári breytast lítið þrátt fyrir bata þessa árs. Áfram er gert ráð fyrir að hreinar erlendar skuldir verði um 60% af landsframleiðslu á næsta ári eða um 175% af útflutningstekjum, þar er því ekki um bata að ræða.
    Hagvöxtur hefur aukist en erfitt verður að viðhalda þeirri aukningu ef hlutfall fjárfestingar af landsframleiðslu hækkar ekki verulega. Hlutfallið er nú í sögulegu lágmarki, 15,5%. Til þess að ná meðaltali OECD-landanna þyrfti heildarfjárfesting að aukast um rúm 5% eða 20 milljarða kr. umfram það sem nú er.
    Með áliti þessu eru birtar töflur úr sérprenti ríkisskattstjóra (sjá fskj. I).

Sjúkratryggingar.
    Við atkvæðagreiðslu við 2. umræðu um fjárlagafrumvarpið dró meiri hlutinn til baka tillögur sínar um 180 millj. kr. lækkun útgjalda til sjúkratrygginga. Nú hefur komið í ljós við undirbúning 3. umræðu að þetta var gert vegna þess að skáka þurfti til fjárveitingum innan heilbrigðisráðuneytisins þar sem fallið hafði verið frá innheimtu gjalds af svokölluðum heilsukortum upp á 400 millj. kr. Breytingar þær, sem nú eru boðaðar á útgjöldum sjúkratrygginganna, eru ekki trúverðugar þegar litið er á málið í heild.
    Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því í greinargerð fjárlagafrumvarpsins að framlög til sjúkratrygginga lækki um 730 millj. kr. Þar munaði mestu um áðurnefnda sölu heilsukorta. Auk þess var gert ráð fyrir að endurskoða greiðslufyrirkomulag til lækna og átti það að lækka útgjöld um 30 millj. kr. Í þriðja lagi áttu tillögur um endurskoðaða greiðslu fyrir röntgenmyndatöku og rannsóknir að lækka útgjöld um 120 millj. kr. Í fjórða lagi átti endurskoðun á fyrirkomulagi lyfjaverðlagningar að spara 150 millj. kr. og loks átti að bjóða út tannlækningar og spara með því 30 millj. kr.
    Þegar ákveðið var að falla frá útgáfu heilsukorta var ljóst að leita yrði nýrra leiða til þess að lækka útgjöld sjúkratrygginga ef ekki ætti að koma til skattheimta í einhverju öðru formi. Talið var að svigrúm væri á sjúkratryggingaliðnum fyrir frekari sparnaðaraðgerðir. Ekki kom þó fram við nýlega afgreiðslu fjáraukalaga að svigrúm væri til að lækka útgjöld til sjúkratrygginga. Í bréfi til fjárlaganefndar, dags. 2. desember, eru taldir upp nokkrir liðir sem eiga að geta mætt þessu 400 millj. kr. tekjutapi. Þar eru fyrst nefnd hjálpartæki og á að lækka útgjöld vegna þeirra um 100 millj. kr. og á að gera það m.a. með magnafslætti frá framleiðendum, með útboðum og betra eftirliti með kostnaðaráætlunum. Í öðru lagi átti á spara með lækkun á erlendum sjúkrakostnaði um 60 millj. kr.
    Þá á enn að spara í tannlæknakostnaði um 100 millj. kr. Þá átti að breyta reglum um sjúkradagpeningagreiðslur með því að herða á eftirliti með greiðslum til einstaklinga sem dvelja til lengri tíma á stofnunum og spara með því 20 millj. kr. Með nýjum og endurskoðuðum reglum um kostnað vegna sjúkraþjálfunar á að spara 20 millj. kr. og 100 millj. kr. með enn meiri sparnaði í lyfjakostnaði. Eru þar sérstaklega nefndar sértækar aðgerðir til lækkunar á kostnaði vegna magasárslyfja.
    Þá kom í ljós að enn var eftir að finna 180 millj. kr. til að mæta þeim niðurskurði sem boðaður var við 2. umræðu. Svo undarlega bar við að enn var höggvið í sama knérunn og lækka á útgjöld vegna hjálpartækja um 50 millj. kr. og sömu rök tínd til og áður um magnafslátt framleiðenda, útboð og eftirlit með kostnaðaráætlun. Draga á úr erlendum sjúkrakostnaði vegna fækkunar hjartaaðgerða upp á 15 millj. kr. Sjúkradagpeningagreiðslur skal lækka um 15 millj. kr. og sömu rökum beitt. Svo kemur þessi ágæta setning í bréfi, sem dags. er 6. desember, frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu: „Gengið verði enn lengra en forsendur fjárlagafrumvarps gera ráð fyrir í sparnaði lyfjakostnaðar þannig að til viðbótar fyrri áformum náist 100 millj. kr. sparnaður, m.a. með sértækum aðgerðum til lækkunar kostnaði vegna magasárslyfja.“ Hljómar þessi setning óneitanlega nokkuð líkt þeirri sem var í bréfinu frá 2. desember og var hluti af 400 millj. kr. sparnaði á móti heilsukortaútgáfunni.
    Sagan er ekki öll sögð enn. Í bréfi frá fjármálaráðuneytinu, dags. 16. desember, kemur fram að fyrirhugaður sparnaður í lífeyristryggingum upp á 200 millj. kr. með eignatekjutengingu lífeyrisgreiðslna mun ekki ná fram að ganga og verður að leita nýrra leiða til að spara á móti þessu. Með samningum við lækna á að spara 100 millj. kr. Auk þess eru svo tíndir til ýmsir smærri liðir innan heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins til þess að mæta þeim 100 millj. kr. sem enn vantar.
    Vonandi tekst að lækka útgjöld ríkissjóðs með raunhæfum aðgerðum, en hætt er þó við að eitthvað af því sem hér er talið og flest tvítalið muni út af standa. Heilbrigðisráðherrann hefur verið kominn í þrot með að finna leiðir innan síns fjárlagaramma til að standa við það sem áður hafði verið samið um við fjárlagagerðina. Undirstrikar þetta enn betur en nokkru sinni fyrr það álit stjórnarandstöðunnar að hinir ýmsu þættir fjárlagafrumvarpsins séu lítt á rökum reistir.

Málefni sjúkrahúsanna í Reykjavík.
    Við 2. umræðu um fjárlagafrumvarpið kom fram að umfjöllun um stóru sjúkrahúsin þrjú í Reykjavík, Ríkisspítala, Borgarspítalann og St. Jósefsspítalann á Landakoti, biði 3. umræðu. Var það álit minni hlutans að sú frestun væri til þess að geta fjallað ítarlega um málefni þessara stofnana og hvernig tekið skyldi á þeim rekstrarvanda sem vissulega blasir þar við. Nú er hins vegar ljóst að sú umfjöllun hefur ekki verið ítarleg, a.m.k. ekki með þátttöku minni hlutans. Hins vegar hefur verið tilkynnt í fjárlaganefnd sú ákvörðun ríkisstjórnar og meiri hluta nefndarinnar að engar lagfæringar yrðu gerðar á þeim tillögum sem er að finna í fjárlagafrumvarpinu. Þó er í tillögum meiri hlutans í nokkrum tilvikum dregið úr fjárveitingu til Ríkisspítala. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að lækka fjárveitingar til mannvirkjagerðar á landspítalalóð, svokallaðrar K-byggingar, um 30 millj. kr. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að lækka viðhaldslið sjúkrahússins, sem verður þó að teljast í algeru lágmarki, um 5 millj. kr. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir því að fyrirhugaður sparnaður í rekstri áfengisdeilda sjúkrahússins, og hækkunr sértekna með innheimtu meðferðargjalda á áfengisdeildum, en sá sparnaður átti að nema um 20 millj. kr., verði nú fluttur til annarra rekstrarþátta sjúkrahússins. Ekki verður þó séð á tillögum meiri hlutans hvernig taka eigi á þeim þætti sem varðar sértekjumálin. Á að innheimta sértekjur vegna annarra rekstrarþátta á spítalanum og hætta þá við innheimtu meðferðargjaldsins eða hvaða aðrar hugmyndir er hér verið að leggja til?
    Forsvarsmenn þessara þriggja stóru spítala, sem komið hafa til viðtals við fjárlaganefnd, hafa dregið mjög í efa að skipulagsbreytingar þær, sem reynt hefur verið að knýja fram á undanförnum missirum, hafi leitt til raunverulegs sparnaðar í rekstri stofnananna.
    Ljóst er að umrót hefur fylgt þessum breytingum og í skýrslu, sem Ríkisendurskoðun tók saman að beiðni fyrrverandi heilbrigðisráðherra, kemur fram að heildarsparnaður hafi numið um 500 millj. kr. á árinu 1992. Meginhlutinn af þeim sparnaði virðist þó hafa náðst í rekstri Ríkisspítalanna, en þar voru þó ekki gerðar neinar grundvallarskipulagsbreytingar varðandi verkefnatilfærslu eða sameiningu stofnana. Þær tilfærslur áttu sér fyrst og fremst stað á verkefnum milli Landakots og Borgarspítalans og þar er ekki að sjá að sparnaður hafi orðið umtalsverður.
    Í nýútkominni skýrslu landlæknis um afköst, kostnað og biðlista í heilbrigðisþjónustunni kemur fram það álit hans að þessar svokölluðu hagræðingar og rekstrarbreytingar kunni að hafa leitt til meiri breytinga á rekstri sjúkrahúsanna en mönnum hafi í upphafi verið ljóst. Nú séu að koma betur í ljós áhrifin sem af þessu hljótast þegar til lengri tíma er litið. Þar er m.a. bent á að biðlistar virðast frekar hafa lengst frá árinu 1991, mikið álag og vinnuhraði sé á sjúkrahúsunum og hafi aukist mjög á undanförnum missirum. Megi jafnvel rekja til þess nokkur slysatilvik, beint eða óbeint. Landlæknir varar við áframhaldandi róttækum breytingum á starfsemi Landakotsspítala og telur að vel hafi gefist að reka hann sem sjúkrahús fyrir göngu- og dagdeildaraðgerðir sem hægt sé að gera á sjúklingum sem teknir eru inn á stofnunina af biðlista þar sem sjúkrahúsið er ekki lengur bráðavaktasjúkrahús. Það mundi geta skapað mikil vandræði og erfiðleika á öðrum sjúkrahúsum ef þessari þjónustu á Landakoti yrði nú hætt eða dregið úr henni.
    Í upplýsingum frá fulltrúum St. Jósefsspítala á Landakoti kemur fram að útgjöld hafa lækkað um 340 millj. kr. milli áranna 1991 og 1993. Munar þar mest um að Landakot var lagt niður sem bráðaþjónustusjúkrahús og verkefni flutt að mestu til Borgarspítalans. Með þeim verkefnaflutningi voru fjárveitingar til Borgarspítala hækkaðar um rúmar 200 millj. kr. Nú er komið í ljós að fjárvöntun á Landakotsspítala fyrir árið 1992 var um 100 millj. kr. sem búið er að bæta með fjáraukalögum á þessu ári og verður þá ekki sýnt að sparnaðurinn af þessum tilfærslum hafi orðið nokkur. Þar að auki má svo nefna að í upplýsingum frá Borgarspítalanum blasir við að rekstrarhalli í ár muni verða um 120 millj. kr. Hér sýnist því að í raun hafi orðið um útgjaldaauka að ræða en ekki sparnað.
    Og enn er höggvið að rekstri St. Jósefsspítalans á Landakoti. Nú er gert ráð fyrir að lækka fjárveitingar til hans um 150 millj. kr. á næsta ári. Verulegur hluti þeirrar upphæðar mun vera vegna hugmynda um að flytja þjónustu barnadeildarinnar á Borgarspítala eða Landspítala. Enn hefur ekki verið tekin ákvörðun um það hvort sjúkrahúsið muni taka við þjónustunni og engar fjárveitingar eru veittar til þeirra sjúkrahúsa til þess að taka við verkefnum ef þeim er ætlað að veita þessa þjónustu. Forsvarsmenn Landakots hafa ekki heldur fengið neinar upplýsingar eða hugmyndir um það frá heilbrigðisráðuneytinu eða heilbrigðisráðherra hvernig á að reka sjúkrahúsið áfram miðað við svo mikið skert fjárframlög. Í upplýsingum frá fulltrúum Borgarspítalans kemur fram að í viðbót við áðurnefndan rekstrarhalla sem blasir við á þessu ári að upphæð 120 millj. kr. sé fjárvöntun í fjárlagafrumvarpnu fyrir næsta ár a.m.k. 180 millj. kr. þótt aðeins sé gert ráð fyrr að halda þar óbreyttum rekstri. Það er því ljóst að fjárvöntun til þessarar stofnunar miðað við óbreytt rekstrarumfang er um 300 millj. kr. á þessum tveimur árum.
    Í ítarlegri greinargerð, sem fulltrúar Ríkisspítala lögðu fyrir fjárlaganefndina, kemur fram að lækkaðar fjárveitingar og niðurskurður á fjárlögum 1991–1992 til þessara sjúkrahúsa muni nema um 500 millj. kr. Er það í samræmi við þær upplýsingar sem fram komu í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Eigi að halda óbreyttum rekstri á Ríkisspítölum á næsta ári telja forsvarsmenn stofnunarinnar að u.þ.b. 320 millj. kr. vanti eigi að halda óbreyttu rekstrarumfangi. Stjórnendur Ríkisspítalanna telja lágmark að þeim verði gert kleift að halda upp sambærilegri starfsemi á árinu 1994 og á yfirstandandi ári. Stjórnendur telja að með samstilltu átaki starfsfólksins hafi náðst sá árangur að halda starfsemi Ríkisspítalanna innan ramma fjárlaga sl. tvö ár. Það hafi verið gert með mikilli hagræðingu, nokkrum samdrætti í þjónustu, þ.e. lokunum deilda og með því að fresta verkefnum og kaupum á nauðsynlegum tækjabúnaði. Þess var því vænst að Ríkisspítalar fengju nú að njóta þess árangurs sem þegar hefur náðst þannig að ekki sannaðist sú skoðun sem víða hefur heyrst að það borgi sig ekki að spara í rekstri ríkisstofnana því að það verði aðeins til þess að krafist verði enn meiri sparnaðar.
    Í tillögum stjórnenda sjúkrahússins var auk þess beðið um nokkur nýmæli. Meðal annars var talið nauðsynlegt að fjölga sérfræðingum kvennadeildar og var vísað í því sambandi til skrifa landlæknis þess efnis að vegna fárra lækna á kvennadeild sé öryggi sængurkvenna oft og tíðum ábótavant. Þá var einnig lögð mikil áhersla á það af hálfu Ríkisspítalanna að fá viðbótarfjárveitingu til þess að efla og styrkja vísinda- og rannsóknastarfsemi stofnunarinnar. Var það talið í samræmi við vísindastefnu þá sem ríkisstjórnin hefur boðað. Þetta var talið nauðsynlegt til þess að tryggja stöðu Landspítalans sem háskólasjúkrahúss þannig að hann standi jafnvel að vígi og sambærilegar erlendar stofnanir. Undir þetta sjónarmið vill minni hluti fjárlaganefndar eindregið taka.
    Enn er haldið við þá ákvörðun sem fram kemur í fjárlagafrumvarpinu að innheimta sérstök meðferðargjöld af sjúklingum vegna áfengismeðferðar á sjúkrastofnunum. Er þetta gert þrátt fyrir ítrekuð og ákveðin mótmæli Geðlæknafélags Íslands og Geðverndarfélagsins. Í áskorunum þessara aðila til alþingismanna kemur m.a. fram að talið er að farið sé inn á mjög varhugaverða braut sem leitt geti til þess að sjúklingar leiti ekki meðferðar fyrr en þeir eru komnir með alvarlega fylgikvilla. Bent er á að flestir áfengissjúklingar séu haldnir öðrum geðsjúkdómum og/eða líkamlegum sjúkdómum þegar þeir leita meðferðar á sjúkrahúsum og verður áfengismeðferðin þá ekki aðskilin frá annarri læknismeðferð. Innheimta meðferðargjalda er talin sýna skilningsleysi á eðli sjúkleika þeirra sem til geðdeilda leita og er þessari aðför að grundvallaratriðum velferðarkerfisins, þ.e. jafnrétti sjúklinga til að fá bestu fáanlega meðferð án tillits til kynferðis, aldurs, efnahags eða sjúkdóms, mótmælt harðlega.

Fjárveiting til vísinda og rannsóknar- og þróunarverkefna.
    Við 2. umræðu um fjárlagafrumvarpið kom fram hjá menntamálaráðherra sú fullyrðing að engin ríkisstjórn hefði gert meira á sviði vísinda og rannsókna en sú sem nú situr. Samkvæmt upplýsingum sem fjárlaganefnd hafa borist frá Rannsóknaráði ríkisins er þetta alröng fullyrðing eins og sjá má á meðfylgjandi fylgiskjali. Þar kemur fram að allar stofnanir, sem fást við vísinda- og rannsóknastörf á vegum opinberra aðila, hafa fengið minni fjárveitingar síðustu ár samanborið við árin 1987–1991 og umsvif þessara stofnana hafa þar með dregist saman (sjá fskj. III). Samanburður við fjárveitingar fyrir árið 1993 er ekki marktækur því að þar er gert ráð fyrir 300 millj. kr. fjárveitingu sem skilyrt var og bundin við 20% af söluandvirði ríkisstofnana ef einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar næðu fram að ganga. Nú er sýnt að svo verður ekki og áætluð sala upp á 1.500 millj. kr. verður aðeins um 100 millj. kr. þannig að fjárveiting ætti samkvæmt því að vera 20 millj. kr. í stað 300 millj. kr. Að vísu var í fjáraukalögum samþykkt að veita 45 millj. kr. til Rannsóknasjóðs til að bæta upp nokkuð af því sem vilyrði hafði verið gefið fyrir en langt er frá að staðið sé við það sem lofað var eins og menntamálaráðherra fullyrti þó í ræðu við 2. umræðu um fjárlög. Það dugar því skammt þótt ríkisstjórnin láti semja vísindastefnu og gefi yfirlýsingar henni tengdar ef fjárveitingar fylgja ekki með þeim fögru fyrirheitum.
    Sé litið á tölurnar í fjárlagafrumvarpinu kemur í ljós að fjárveiting til Rannsóknasjóðs er áætluð 115 millj. kr. eða óbreytt frá því sem er í ár. Gert er ráð fyrir 85 millj. kr. að auki en sú upphæð skilyrt við sölu ríkisfyrirtækja svo að hér er aðeins um væntingar að ræða en alls óljóst með efndirnar. Minni hlutinn telur að af hálfu Rannsóknaráðs sé nú unnið að mikilvægri stefnumótun á ýmsum sviðum og eins og ástandið er nú í þjóðfélaginu séu ef til vill ekki önnur verkefni meira áríðandi en að efla vísinda-, þróunar- og rannsóknarstarfsemi með hærri og tryggari fjárveitingum en fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.
    Nefndin tók sérstaklega til umræðu málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna og lagði framkvæmdastjóri sjóðsins fram gögn um rekstur hans á yfirstandandi ári og þróun lánveitinga og námsmannafjölda á síðustu árum.
    Meiri hluti fjárlaganefndar leggur til að framlag til Lánasjóðsins verði skorið niður um 70 millj. kr. og veitt lán lækki úr 3.000 millj. kr. í 2.870 millj. kr.
    Ný lög um Lánasjóð íslenskra námsmanna voru sett 15. maí 1992 og vöruðu námsmenn þá sérstaklega við afleiðingum 6. gr. laganna um eftirágreiðslur lána og einnig of háu endurgreiðsluhlutfalli sem er allt að 7% heildartekna.
    Það hefur komið á daginn að á árinu 1992 og 1993 hefur lánþegum fækkað mjög og voru þeir 4.001 á síðasta ári og 4.101 á yfirstandandi ári. Skólaárið 1991–1992 voru lánþegar 5.725.
    Að mati námsmanna hafa afleiðingar nýrra úthlutunarreglna m.a. verið þær að fjölmargir námsmenn hafa hætt námi vegna þess að þeir treysta sér ekki til að taka lán banka og sparisjóða sem bjóðast með háum vöxtum allt að 20% í formi yfirdráttar. Dæmi eru um það að námsmenn hafi ekki fengið bankalán.
    Í úthlutunarreglum LÍN er þess krafist að námsmenn skili 100% námsframvindu samkvæmt skipulagi skóla. Í ljós hefur komið að þessar kröfur eru ekki í samræmi við kröfur skóla, og hefur m.a. komið fram að mat Háskóla Íslands á eðlilegri námsframvindu námsmanns dugir honum ekki til þess að fá fullt námslán. Sama er að segja um Iðnskólann í Reykjavík. Dæmi eru um það að nemendur, sem sitja heilsársnámskeið, hafa ekki fengið nema 75% lán að loknu haustmissiri og afgang lánsins þegar próf eru afstaðin að vori. Komi upp veikindi hjá námsmanni veita hinar nýju reglur ekkert svigrúm.
    Fjölgun nemenda í námi hjá Háskóla Íslands stafar m.a. af því að fólk, sem hefur stundað grunnskólanám erlendis, á ekki lengur kost á því að fá lán til þess náms og stundar því frekar nám hér heima.
    Færri konur stunda nú nám en fyrir breytingar á reglum Lánasjóðsins og einstæðum mæðrum og námsmönnum með börn á framfæri hefur fækkað.
    Minni hluti fjárlaganefndar varar við því að jafnrétti og möguleikar allra til náms sé skert með breyttu námslánakerfi.

Atvinnuleysistryggingasjóður.
    Gert er ráð fyrir 5–5,5% atvinnuleysi á næsta ári. Nú hefur atvinnuleysi vaxið hröðum skrefum í nóvember og það sem af er desember. Á afmörkuðum svæðum hefur það allt að tvöfaldast milli mánaða. Því er útlit fyrir að það haldi áfram að aukast eftir áramót. Heildarfjárveiting til Atvinnuleysistryggingasjóðs á árinu 1994 er áætluð 2.950 millj. kr. Heildarútgjöld sjóðsins eru áætluð 4 milljarðar kr. Sjóðnum er ætlað að afla tekna með sölu á skuldabréfum sjóðsins fyrir 200 millj. kr. og framlag sveitarfélaga til atvinnuskapandi verkefna hefur verið ákveðið 600 millj. kr. Á yfirstandandi ári lögðu sveitarfélögin fram 500 millj. kr. og átti að vera þeim til atvinnuskapandi verkefna. Ekki er útlit fyrir að til þeirra verkefna verði veitt meira en 300 millj. kr. í ár og því mun þetta fé ekki nýtast allt eins og til var ætlast. Lögum um Atvinnuleysistryggingasjóð var breytt á síðasta þingi á þann veg að m.a. sjálfstæðir atvinnurekendur ættu rétt á bótum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Í ár eru komnar 100–200 umsóknir en aðeins 25 uppfylla tilskilin skilyrði. Telja má fullvíst að skilyrði um að einstaklingar með sjálfstæðan atvinnurekstur sýni fram á að þeir séu hættir rekstri séu of ströng. Verkefnaskortur getur verið mjög tilfinnanlegur en menn lifa í voninni um að úr rætist og því er erfitt að loka fyrirtækinu alveg.
    Nokkur fjölgun réttindahafa hefur orðið með nýjum lögum og fleiri munu bætast við á næsta ári. Það er því allt útlit fyrir að a.m.k. 1 milljarð kr. vanti til þess að sjóðurinn geti staðið við lögboðnar skuldbindingar.

Ríkisútvarpið.
    Fjárhagur Ríkisútvarpsins er heldur slakur og kemur þar ýmislegt til. Reiknað er með að sala auglýsingatíma dragist saman á næsta ári um 8%. Afnotagjaldið var síðast hækkað 1. febrúar sl. um 4% og var þar í raun um að ræða hækkun sem ákveðið hafði verið að tæki gildi á árinu 1992. Engin hækkun afnotagjalda hefur því verið leyfð í ár, þrátt fyrir að gert hefði verið ráð fyrir 4,5% hækkun og er ekki fyrirhuguð á næsta ári. Ríkisútvarpið hefur í mörg ár fellt niður afnotagjöld hjá um 8.000 tryggingaþegum og mun það á næsta ári jafngilda 190 millj. kr. tekjutapi.
    Þá hafði gengisfellingin þyngjandi áhrif á útgjöld stofnunarinnar þar sem mikið af aðföngum er keypt erlendis eins og kvikmyndir og tækjabúnaður ýmiss konar. Þá hefur kostnaður við að bæta móttöku afskekktra sveitabæja á sendingum RÚV aukist við að eftirlit með því verki var falið Fjarskiptaeftirliti ríkisins.
    Minni hlutinn telur að mikil nauðsyn sé á að styrkja teknahlið Ríkisútvarpsins, en þess sér engan stað í tillögum meiri hluta fjárlaganefndar. Ekki hefur verið tekin nein ákvörðun um að reisa nýtt langbylgjumastur þrátt fyrir að mikil þörf sé fyrir slíkan búnað til þess að sendingar útvarpsins heyrist um allt land og einnig á miðunum kringum landið. Hugmyndir eru á sveimi um að nýta Lóranstöðina á Rifi, en það er allt í lausu lofti enn sem komið er. Lóranstöðin gegnir lykilhlutverki í öryggismálum á hafinu og við staðsetningu skipa, og ekki er sjáanlegt að aðrir leysi það hlutverk hennar í næstu framtíð.

Rafmagnsveitur ríkisins.
    Fjárveitingar til styrkingar rafdreifikerfum í sveitum hafa á undanförnum 14 árum lækkað úr 194,7 millj. kr. á verðlagi í október 1993 í um 15 millj. kr. á yfirstandandi ári. Að mati Rafmagnsveitna ríkisins er fjárþörfin á ári hverju um 200 millj. kr. og þarf á næstu fimm árum að verja um 900 millj. kr. til þessa verkefnis að mati Rarik til þess að dreifikerfin geti talist rekstrarhæf.
    Ástandið í þessum málum er með þeim hætti að Rafmagnsveitur ríkisins hafa séð sig tilneyddar til að leggja verulegt fé úr rekstri til þessara verkefna eða um 75 millj. kr. árlega. Á næsta ári er áætlað að verja 85 millj. kr. til þessara verkefna af hálfu Rafmagnsveitnanna. Margoft hefur verið á það bent að brýn þörf væri á auknu framlagi úr ríkissjóði til að fjármagna framkvæmdir við dreifikerfi í sveitum en jafnan verið talað fyrir daufum eyrum (sjá fskj. III). Rafmagnsveitum ríkisins er samt ætlað að greiða 50 millj. kr. arð til ríkisins á næsta ári.

Póstur og sími.
    Póstur og sími stendur árlega í miklum fjárfestingum vegna ljósleiðaralagningar um landið og einnig yfir Atlantshafið, en það er gert í samstarfi við erlend símafyrirtæki. Til þess verkefnis fara á næsta ári um 600 millj. kr. Þá er mikil uppbygging í stafræna símakerfinu og einnig í farsímakerfinu. Íslendingar hafa fjárfest meira í farsímum á skömmum tíma en flestar aðrar þjóðir. Óhætt er að segja að Póstur og sími sé vel rekið opinbert fyrirtæki og afsanni algerlega kenninguna um að fyrirtæki þurfi að vera rekin í hlutafélagsformi eða einkarekin til þess að skila arði. Póstur og sími hefur í mörg ár greitt hundruð milljóna í ríkissjóð og svo er einnig áætlað á næsta ári eða 850 millj. kr.

6. grein.
    Minni hlutinn telur að fara verði með gát í að opna heimildarákvæði í 6. gr. til úthlutunar fjármuna og telur að ef of langt sé gengið í þeim efnum sé brotin sú regla að Alþingi hafi fjárveitingavaldið. Tvö ný ákvæði í 6. gr. eru dæmi um þetta. Gert er ráð fyrir að fjármálaráðherra sé heimilt að fengnum tillögum samgönguráðherra að lækka heildargjöld stofnana samgönguráðuneytisins í A- og B-hluta fjárlaga 1994 um allt að 0,4% hjá hverri stofnun að hámarki og afla með því 40 millj. kr. til þess að leggja í sjóð til sérstaks markaðsátaks erlendis til þess að lengja ferðamannatíma á Íslandi vor og haust. Flugleiðir leggi síðan 50 millj. kr. á móti og frá Framleiðnisjóði landbúnaðarins komi 10 millj. kr.
    Minni hlutinn telur málefnið þarft og leggst ekki efnislega á móti stofnun sjóðsins. Hins vegar er með öllu óeðlilegt að veita ráðherrum heimildir í 6. gr. fjárlaga til þess að skerða rekstrar- og stofnkostnaðarfjárveitingar eins ráðuneytis sem fjárlaganefnd hefur nýlega ákveðið. Rétt er að nefndin ákveði hvernig þessara 40 millj. kr. verði aflað og hvar niðurskurður á að lenda ef þeirra er aflað með þeim hætti.
    Sama er að segja um ákvæði um að greiða skuli í samráði við landbúnaðarráðherra sérstakar bætur til bænda sem verst hafa orðið úti vegna harðæris vorið og sumarið 1993. Minni hlutinn telur að leysa verði vandamál þessara bænda en ákveða eigi til þess fjármuni á fjárlögum og setja ákveðnar reglur með tilliti til þess en ekki leysa þau mál með opinni heimildargrein til handa landbúnaðarráðherra.
    Það færist stöðugt í vöxt að ráðherrar, sem eru fulltrúar framkvæmdarvaldsins, vilja seilast inn á svið löggjafarvaldsins í úthlutun fjármuna, en það er ekki góð stjórnsýsla.
    Að lokum vísa fulltrúar minni hluta til álita 1. og 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar um tekjuhlið fjárlaga fyrir árið 1994. Álit þessi eru fylgiskjöl með framhaldsnefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar.
    Einstakir nefndarmenn áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja breytingartillögum sem fram kunna að koma.

Alþingi, 18. des. 1993.



Margrét Frímannsdóttir,

Guðmundur Bjarnason.

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir.


frsm.



Jón Kristjánsson.






Fylgiskjal I.

Ríkisskattstjóri:


(Repró 4 síður töflur.)





Fylgiskjal II.

Rannsóknaráð ríkisins:

(Repró 3 síður.)






Fylgiskjal III.

Rafmagnsveitur ríkisins:

Fjármagn til styrkingar rafdreifikerfum til sveita á orkuveitusvæði


Rafmagnsveitna ríkisins á síðustu árum.


(Í millj. kr. á verðlagi BV=195,7.)




1980          
194
,7
1981          
190
,1
1982          
159
,5
1983          
118
,3
1984          
87
,5
1985          
51
,7
1986          
59
,5
1987          
89
,2
1988          
55
,5
1989          
51
,4
1990          
29
,7
1991          
34
,5
1992          
15
,2
1993          
15
,0