Ferill 556. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 556 . mál.


868. Tillaga til þingsályktunar


um vegtengingu um utanverðan Hvalfjörð.

(Lögð fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993–94.)


    Alþingi ályktar að staðfesta samning milli samgönguráðherra og hlutafélagsins Spalar hf., dags. 23. júní 1993, um vegtengingu um utanverðan Hvalfjörð, sbr. 2. gr. laga nr. 45/1990.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.

    Samningur um vegtengingu um utanverðan Hvalfjörð var undirritaður þann 25. janúar 1991 af samgönguráðherra og stjórn Spalar hf. og staðfestur af fjármálaráðherra. Samningurinn var staðfestur af Alþingi 18. mars 1991 með þingsályktunartillögu.
    Í samræmi við samninginn vann Spölur hf. að úttekt á hvort gerð vegtengingar um utanverðan Hvalfjörð væri tæknilega og fjárhagslega fýsileg. Í upphafi var litið til þriggja aðferða við vegtengingu um fjörðinn, þ.e. bergganga, botnstokks og brúar. Allar upplýsingar sem félagið aflaði sér bentu til þess að kostnaður við gerð botnstokks eða brúar yrði verulega hærri en við gerð bergganga og því voru frekari athuganir á gerð botnstokks og brúar lagðar til hliðar þar til séð yrði hvort kostnaðaráætlanir fyrir berggöng yrðu í samræmi við það sem áður hafði verið áætlað.
    Vorið 1991 var að undangengnum útboðum samið við Orkustofnun um jarðeðlisfræðimælingar í Hvalfirði og við Jarðtæknistofuna hf. um gerð jarðfræðikorta af svæðinu kringum Hvalfjörð. Rannsóknirnar beindust fyrst og fremst að tveimur hugsanlegum leiðum yfir fjörðinn, Hnausaskersleið og Kiðafellsleið. Að höfðu samráði við innlenda og erlenda ráðgjafa og eftir úrvinnslu norska félagsins Asplan A/S á umferðarspám samþykkti stjórn Spalar hf. þann 6. janúar 1992 að velja Hnausaskersleið. Ástæður valsins voru einkum þær að líkur væru á meiri tekjum af umferð, vegfarendur losnuðu við illviðrakafla á veginum innan við Tíðaskarð og að leiðin milli Akraness og höfuðborgarsvæðisins yrði 8–9 km styttri en Kiðafellsleið en fyrir aðra ekki lengri sem neinu nemur. Samgönguráðuneytið samþykkti fyrir sitt leyti að Hnausaskersleið yrði valin með bréfi til Spalar hf. þann 16. janúar 1992.
    Spölur hf. fékk síðan til liðs við sig Nomura Bank International í London til fjármálalegrar ráðgjafar. Athuganir fulltrúa Nomura Bank leiddu í ljós að fjármögnun ganga með hlutafé yrði of dýr til þess að framkvæmdin stæði undir sér og að fjármagna yrði göngin með lánsfé. Enn fremur leiddu athuganir þeirra í ljós að ekki yrði hægt að ná nægilega hagstæðum lánasamningum til þess að tekjur af göngunum stæðu jafnframt undir greiðslu virðisaukaskatts af umferðargjaldi. Spölur hf. fór því fram á að fá greiðslu virðisaukaskatts frestað þar til búið væri að greiða niður lán.
    Beiðni Spalar hf. var lögð fyrir ríkisstjórn þann 11. ágúst 1992. Ríkisstjórnin féllst ekki á erindið en ákveðið var að nefnd þriggja ráðuneyta fjallaði um málið, samgöngu-, fjármála- og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyta. Í nefndinni voru Þórhallur Jósepsson frá samgönguráðuneyti, formaður, Steingrímur A. Arason frá fjármálaráðuneyti, Þorkell Helgason frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti. Nefndin fékk til ráðuneytis Jón Birgi Jónsson aðstoðarvegamálastjóra og vann hann með nefndinni frá byrjun.
    Nefndin hélt allmarga fundi með fulltrúum Spalar hf. þar sem farið var yfir hina mismunandi útreikninga og lagðar voru mismunandi forsendur um skattlagningu, ríkisframlag og hlutfall hlutafjár og lánsfjár við fjármögnun. Ekki tókst að finna leið sem tryggði viðunandi arðsemi framkvæmdarinnar að mati ráðgjafa Spalar hf., Nomura Bank.
    Nefndin ákvað þá á fundi hinn 25. nóvember 1992 að kanna nýja leið sem fælist í eftirfarandi grundvallaratriðum:
—    Fjármögnun og áhættu yrði skipt í tvennt, annars vegar framkvæmd, hins vegar rekstur. —    Framkvæmd yrði samkvæmt alútboði sem fæli í sér að verktaki tæki að sér hönnun mannvirkisins að verulegum hluta, fjármögnun þess á framkvæmdatíma, áhættu á framkvæmdatíma og gerð ganganna.
—    Verktaki skilaði fullbúnum göngum á tilsettum tíma, innan þeirra tímamarka yrði gert ráð fyrir að hann annaðist rekstur ganganna í 3–6 mánuði. Við afhendingu ganganna fengi verktaki greidda samningsupphæð, verð ganganna.
—    Að verklokum tæki Spölur hf. við göngunum sem eigandi þeirra og ræki þau samkvæmt samningi við ríkið 25. janúar 1991 (nú samningur dags. 23. júní 1993). Spölur hf. væri þá kaupandi ganganna og aflaði sér hluta- og/eða lánsfjár til að fjármagna kaupin.
    Ávinningur við að fara þessa leið var talinn felast í því að mesti áhættuþáttur ganganna, þ.e. gangagerðin sjálf, yrði færð af Speli hf. yfir á verktaka. Þetta þýddi að verð framkvæmdarinnar gæti hækkað eitthvað en á hinn bóginn þyrfti Spölur hf. ekki að uppfylla kröfur um jafn háa ávöxtun hluta-/lánsfjár vegna minni áhættu í fjárfestingunni. Gert var ráð fyrir að virðisaukaskattur á umferðargjald yrði 14% með fyrirvara um ákvörðun löggjafans um skatthlutfall á samgöngur.
    Þessi hugmynd var kynnt fulltrúum Spalar hf. 29. nóvember 1992. Fyrsta athugun leiddi í ljós að vænlegt væri að skoða nánar þennan möguleika og 30. desember 1992 var ákveðið að kanna til þrautar hvort þessi leið væri fær. Í aðalatriðum sýndu athuganir jákvæða niðurstöðu og staðfestu síðan fulltrúar Nomura Bank það. Á grundvelli þessara hugmynda setti þriggja manna nefndin fram tillögur 2. apríl 1993 um tilhögun framkvæmda og hefur síðan verið unnið samkvæmt þeim við endurskoðun samningsins frá 25. janúar 1991 og eru þær grundvöllur að samningi ríkisins og Spalar hf. sem undirritaður var 23. júní 1993. Í tillögum nefndarinnar fólst eftirfarandi:
    
Alútboð.
    Framkvæmdir verði samkvæmt alútboði. Það felur í sér að verktaki fjármagnar framkvæmdina og tekur áhættu henni samfara. Verktaki skuldbindur sig til að skila göngum fullbúnum innan ákveðins tíma og fær þá greitt. Gert er ráð fyrir að áður en verktaki skilar göngunum hafi hann rekið þau í allt að þrjá mánuði og tryggi þannig betur en ella að hugsanlegir ágallar á framkvæmd verði lagfærðir áður en verktaki skilar endanlega af sér göngunum.
    
Rannsóknir.
    Mikilvægt er að tæknilegur undirbúningur sé vandaður. Í því skyni fóru fram frekari jarðlagarannsóknir á fyrirhuguðu gangastæði síðastliðið sumar og haust til að draga úr óvissu og stuðla þannig að lægra verði í tilboðum verktaka. Kostnaður vegna rannsóknanna var áætlaður 50 milljónir króna og var fé til þeirra lánað úr ríkissjóði og endurgreiðist ásamt öðrum kostnaði um leið og gert verður upp við verktaka.
    Þessum rannsóknum lauk í janúar 1994. Niðurstöðurnar staðfestu fyrri ályktanir um aðstæður og gáfu mikilsverðar viðbótarupplýsingar. Þær hafa meðal annars verð notaðar til að ákvarða endanlega legu ganganna og til að endurskoða fyrri kostnaðaráætlun. Þrátt fyrir nokkra lengingu ganganna reyndist kostnaðaráætlun sú sama og áður, þar eð óvissukostnaður lækkaði með aukinni þekkingu á aðstæðum.
    
Fjármögnun og eignarhald.
    Verktaki fjármagnar framkvæmd við göngin og á þau þar til þau verða afhent fullbúin að loknum reynslutíma.
    Spölur hf. fjármagnar með eigin hlutafé undirbúning að meðtalinni gerð útboðsgagna annan en jarðlagarannsóknir þær sem að ofan greinir.
    Kaupverð ganga verður fjármagnað með lánsfé, að 2/3 hlutum frá erlendum lánveitendum, að 1/3 hluta frá innlendum. Lántakandi verður Spölur hf. Endurgreiðslutími lána er áætlaður 16 ár, erlendra lána 10 fyrstu árin. Samkvæmt því er áætlað að endurgreiðslu lána verði lokið 18–19 árum eftir að framkvæmdir hefjast.
    Göngin verða í eigu Spalar hf. samkvæmt samningi og afhendast ríkinu til eignar að loknum endurgreiðslutíma lána.
    
Vegagerð.
    Vegagerð að göngum verður lokið þegar göngin eru tilbúin til notkunar. Vegagerð ríkisins annast gerð veganna með sama hætti og annarra þjóðvega. Kostnaður er áætlaður um 700 millj. króna. Samkvæmt samningnum verður ekki farið í meiri háttar styttingar á veginum fyrir Hvalfjörð ef af framkvæmdum við göngin verður. Hins vegar liggur fyrir að verði ekki af framkvæmdum þarf að ráðast í umfangsmiklar vegabætur fyrir Hvalfjörð.
    
Skuldbindingar ríkisins.
    Tillagan byggir á að ekki komi til ríkisábyrgðar á lánum eða annarri fjármögnun (undanskildar jarðlagarannsóknir og gerð vega að göngum) enda hafa fulltrúar Spalar hf. og Nomura Bank International lýst því yfir að ekki sé þörf slíkrar ábyrgðar. Tillagan byggist á því að virðisaukaskattur á umferðargjald verði 14%.
    
Samningur við Spöl hf.
    Fjármögnunaraðferð sú, sem þessi tilhögun byggir á, hafði í för með sér að nauðsynlegt var að endurskoða samning Spalar hf. og ríkisins. Það hefur nú verið gert og var hinn breytti samningur undirritaður 23. júní 1993 af samgönguráðherra, fjármálaráðherra og stjórnarmönnum Spalar hf.
    
Samningur ríkis og Spalar hf. frá 23. júní 1993.
    Ríkisstjórn Íslands samþykkti á fundi sínum 22. júní 1993 tillögu samgönguráðherra um breytingu á samningi ríkisins og Spalar hf. frá 25. janúar 1991 um vegtengingu um utanverðan Hvalfjörð sem staðfestur var af Alþingi 18. mars 1991. Samningurinn sem hér er leitað staðfestingar á er að mestu samhljóða þeim samningi. Breytingin nú felur í sér að rekstrartími ganganna í höndum félagsins styttist og að virðisaukaskattur á umferðargjald verði í 14% skattþrepi. Enn fremur heimilaði ríkisstjórnin samgönguráðherra að gefa út yfirlýsingu um 50 milljóna króna lán úr ríkissjóði til Spalar hf. til þess að fjármagna jarðlagarannsóknir.
    Ákvörðun ríkisstjórnarinnar leiddi til þess að Spölur hf. gat hafið lokaundirbúning framkvæmda við göng undir Hvalfjörð. Sá undirbúningur fólst í jarðlagarannsóknum á fyrirhuguðu gangastæði og samningagerð um fjármögnun ganganna. Gert er ráð fyrir að niðurstöður allra þátta liggi fyrir innan tíðar. Verði þær jákvæðar gætu framkvæmdir hafist á þessu ári. Áætlað er að gerð ganganna taki 2 1 / 2 –3 ár.
    Gert er ráð fyrir að um Hvalfjarðargöng gildi eftirfarandi, verði göngin gerð:
    Lengd ganga með vegskálum: 5,8 km.
    Áætlaður kostnaður við vegi að gangamunnum: 700 milljónir króna.
    Áætlaður sparnaður í vegagerð í Hvalfirði: 800–900 milljónir króna.
    Stytting vegalengdar miðað við akstur fyrir fjörðinn: 45–50 km.
    Stytting vegalengdar milli Akraness og höfuðborgarsvæðis: 60 km.
    Áætlað umferðargjald: 595 krónur án vsk.
    Áætlaður endurgreiðslutími framkvæmdalána: 16 ár frá afhendingu ganga.



Fylgiskjal I.
    
    
    

Samningur um vegtengingu við utanverðan Hvalfjörð frá 23. júní 1993.

    



Fylgiskjal II.
    

    

Yfirlýsing samgönguráðherra til Spalar hf. dags. 23. júní 1993.