Málefni fatlaðra

77. fundur
Fimmtudaginn 26. janúar 1995, kl. 11:47:48 (3525)


[11:47]
     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir sem hér hafa tekið til máls þakka hæstv. ráðherra fyrir þá skýrslu sem hér liggur fyrir. Það hefur ekki orðið umræða um málefni fatlaðra síðan ítarleg umræða fór fram varðandi lagabreytinguna sem tók gildi í september 1992. Þá fór fram mikil umræða um málefni fatlaðra og ég tel að þá hafi náðst samkomulag sem er mjög mikilvægt. Það kom einmitt fram í þessari skýrslu að lögin sem samþykkt voru á hinu háa Alþingi hafa komið skjólstæðingum til góða á flestan hátt. Þó er ýmislegt sem veldur vonbrigðum, það er ávallt þannig. Það var sérstaklega eitt atriði sem ég vil gera að umræðuefni sem við ræddum mikið í tengslum við lagabreytinguna 1992 en það er varðandi Kópavogshælið. Kópavogshæli var skilið eftir nokkuð í lausu lofti og það kemur líka fram í þessari skýrslu að málefni Kópavogshælis eru eins og þau voru þá. Það hefur lítið gerst. Það þurfum við sérstaklega að taka til skoðunar.
    En skýrslan sem hér liggur fyrir er mjög mikilvæg. Hún er mjög mikilvæg við þá endurskoðun sem fer fram á lögunum sem nú eru bráðum þriggja ára gömul. Ég tel því að verkið sé hálfnað við endurskoðunina einmitt með þessari skýrslu. Ég vil taka undir með þeim sem hér hafa talað og sagt að það ætti að vera árlegur viðburður að ræða hér um málefni fatlaðra. Fötluðum hefur verið helgaður einn dagur árlega, 3. des., og við ættum að nýta störf Alþingis 3. des. ár hvert til að ræða þessi málefni þangað til að jafnrétti hefur náðst í þessum málaflokki og við þurfum ekki lengur sérlög varðandi málefni fatlaðra. Það er auðvitað sú stefna sem allir vilja að sé framfylgt.
    Það eru ýmsar spurningar sem vakna og hv. síðasti ræðumaður minntist á ýmis mál sem ég hefði gjarnan viljað koma inn á varðandi það sem ekki stendur í skýrslunni. Ég tel einmitt mjög mikilvægt þegar menn eru að tala um þessa tilfærslu í dag, að færa þennan málaflokk alfarið yfir á sveitarfélögin, að þessi svör liggi fyrir. Þá tek ég sérstaklega t.d. varðandi liðveislu og sérstaka liðveislu. En eins og hv. þm. vita er liðveisla greidd af sveitarfélögum en sérstök liðveisla af ríki sem ég tel kannski ekki gott að svo nátengdur og líkur stuðningur sé greiddur á tvennan hátt. Það á að vera á einni hendi. Ég veit að það er mjög mismunandi hvað sveitarfélögin hafa lagt mikið til þessa málaflokks varðandi liðveisluna.

    Það var fleira sem hv. þm. kom inn á sem ég tel mikilvægt að verði í næstu skýrslu sem verður vonandi 3. des. næsta ár varðandi geðfatlaða og ferðaþjónustu fatlaðra og aðgengi fatlaðra. Það er eitt af því þegar við förum að tala um flutning yfir til sveitarfélaga þá væri gaman að taka hvert sveitarfélag út af fyrir sig varðandi aðgengi fatlaðra og hvar menn eru staddir þar.
    Mig langar að spyrja sérstaklega varðandi stuðningsfjölskyldurnar. Hv. 18. þm. Reykv. kom inn á það áðan. Það er þannig, því miður, að þrátt fyrir það að stuðningsfjölskyldur hafa reynst afskaplega vel, bæði foreldrum og þeim einstaklingum sem hafa notið þess að vera á heimilum sem hafa tekið að sér fatlaða, þá næstum fyrirverða foreldrar sig fyrir að þurfa að fá slíkar stuðningsfjölskyldur vegna þess að greiðslan til þeirra er svo skammarlega lág. Mig langar til að fá nákvæmar tölur frá hæstv. ráðherra um hvað stuðningsfjölskyldum er greitt fyrir þetta mikilvæga starf. Eins að við fáum svör við spurningum sem hv. 18. þm. Reykv. spurði áðan varðandi skattlagninguna.
    Mig langar líka að spyrja varðandi Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Það kemur fram í þessari skýrslu að það eru 150 nýir einstaklingar ár hvert sem nýta sér þjónustu Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins og 300 einstaklingar sem koma þar árlega. Greiningarstöðin er byggð upp á mjög mikilli sérfræðiþekkingu og til þessarar þjónustu koma einstaklingar alls staðar að af landinu. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki sé til umræðu að sérfræðingar fari meira út á land og nálgist þá einstaklinga sem þurfa þessarar aðstoðar við vegna þess að það er mjög mikið rask fyrir þær fjölskyldur sem þurfa kannski að vera langdvölum í Reykjavík vegna fatlaðra barna sinna.
    Mig langar að fara aðeins inn á atvinnumál fatlaðra en það sem er kannski elst í skýrslunni er varðandi atvinnumálin. Sumt af því er nokkuð úrelt, þær upplýsingar eru frá 1992. Ég tel að á allra síðustu tímum hafi málefnin varðandi verndaða vinnustaði og atvinnumál fatlaðra farið sífellt halloka í þjóðfélaginu. Það er æ erfiðara fyrir fatlaða að fá vinnu úti á hinum almenna vinnumarkaði og á sama tíma eru verndaðir vinnustaðir að draga saman seglin vegna fjárskorts. Þetta er því afskaplega erfitt mál. Þær upplýsingar sem hér eru eru ekki nákvæmar varðandi þessi mál því ég hef fylgst með þeim. Svo bætist við að nú eru komnar nýjar reglur á vernduðum vinnustöðum þannig að allir sem eru 67 ára og eldri hætta störfum. Það er líka nýtt. Ég tel það vera rétta stefnu að fatlaðir einstaklingar séu úti á hinum almenna vinnumarkaði og verndaðir vinnustaðir séu þjálfunarstöðvar fyrir hinn almenna vinnumarkað. Og ég tel afskaplega hollt fyrir heilbrigða einstaklinga að vinna með fötluðum einstaklingum. Þó ekki sé horft nema á það eitt þá sé það mjög mikilvægt fyrir okkur sem heilbrigð eigum að kallast að kynnast þrautseigju þessara fötluðu einstaklinga svo ekki sé talað um það hvað fatlaðir einstaklingar eiga betur heima í hinu almenna lífi en lokaðir inni á vernduðum vinnustöðum þó ágætir séu og nauðsynlegir.
    Mig langar að fara nokkrum orðum um það málefni sem hér er nú kannski efst á baugi varðandi málefni fatlaðra þessa dagana, þ.e. hvort eigi að færa málaflokkinn alfarið yfir til sveitarfélaga. Hér hefur komið fram að nokkur sveitarfélög, mér skilst að fimm sveitarfélög hafi beðið um að taka þessi málefni til reynslu og mig langar að fá upplýsingar um það hjá hæstv. félmrh. hvaða fimm sveitarfélög það eru sem vilja taka þennan málaflokk að sér. Mig grunar nefnilega að það séu allt stór sveitarfélög. Út af fyrir sig er allt gott um það að segja en málið er einfaldlega það að í stærri sveitarfélögum er búið að byggja þennan málaflokk tiltölulega vel upp af ríkinu. En aftur á móti hafa minni sveitarfélög notið þessarar þjónustu og farið til stærri sveitarfélaga og fatlaðir einstaklingar hafa flutt þangað til að njóta þessarar þjónustu. Ég er að tala um þetta vegna þess að ég er hrædd um að minni sveitarfélög verði út undan við þennan tilflutning og það má ekki gerast. Það verður að ganga þannig frá endum að allir séu jafnir gagnvart þessum lögum. Við vitum að það er miklu auðveldara í stærri sveitarfélögum að þjóna þessum einstaklingum heldur en í þeim minni. Það verður að ganga frá öllum þessum endum áður en tilflutningur á sér stað.
    Skoðum kjördæmin, förum hringinn í kringum landið. Ég hef skoðað aðbúnað fatlaðra í flestum kjördæmum landsins. Hann er afskaplega mismunandi og við erum afskaplega mismunandi langt komin. Ég ætla ekki að gera upp á milli kjördæma en ég ætla að segja það hér að ég hef hvergi séð myndarlegri uppbyggingu en í Suðurlandskjördæmi. Ef við komum á Selfoss og sjáum aðbúnað fatlaðra þar þá er hann til algjörrar fyrirmyndar og kannski akkúrat á þeirri braut sem við vildum sjá þetta alls staðar í landinu. Ég segi þetta vegna þess að ég óttast að það verði enn þá meiri mismunun þegar þessi tilflutningur hefur átt sér stað en er í dag. Spurningin er þessi: Þurfum við ekki að vera búin að byggja nokkuð jafnt upp áður en þessi tilflutningur á sér stað?
    Spurning mín var einfaldlega þessi: Eru einhver minni sveitarfélög sem hafa sýnt því áhuga að taka þennan málaflokk yfir? Með þessum orðum er ég alls ekki að segja að það sé ekki framtíðin að flytja hann yfir en það þarf að gera það að mjög yfirveguðu ráði og tryggja að það verði ekki mismunun og skörun eftir því í hvaða sveitarfélagi fatlaðir einstaklingar búa.