Málefni fatlaðra

77. fundur
Fimmtudaginn 26. janúar 1995, kl. 12:35:23 (3529)


[12:35]
     Tómas Ingi Olrich :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með þeim hv. þm. sem hafa fært hæstv. félmrh. þakkir fyrir þessa skýrslu. Skýrslan varpar ljósi á þennan mikilvæga málaflokk og tekur á mjög mörgum upplýsandi þáttum um hann.
    Ég ætla ekki að fara efnislega í innihald þessarar skýrslu en vil nota tækifærið sem mér býðst til þess að spyrja hæstv. félmrh. um málefni sem kannski má flokka undir eins konar jaðarmálefni af þessu

tilefni. Það er svo að mörgum sjúkdómum fylgir veruleg fötlun. Eftir því sem ég best veit er það svo t.d. með flogaveika að sá sjúkdómur leiðir ekki til þess að þeir sem þjást af honum falli undir málaflokk fatlaðra þó svo að þessum sjúkdómi fylgi mjög veruleg fötlun, tímabundin oft að vísu, en sem getur fylgt gífurlegt álag á fjölskyldur þeirra sem flogaveikir eru. Flogaveiki getur verið á svo háu stigi að fjölskyldurnar geti nánast ekki sinnt öðru en að þjóna þeim sem þennan erfiða sjúkdóm bera. Svo má einnig líta á um krabbameinssjúka og t.d. sykursjúka að þar er um að ræða skilgreiningu á sjúkdómi fyrst og fremst og þeim sem eru haldnir þessum sjúkdómum ég vona að hæstv. ráðherra geti upplýst mig um það, að standa fyrst og fremst til boða þau úrræði sem sjúkum standa til boða en ekki þau sem fötluðum standa til boða. Án þess að ég sé að gera þá kröfu til hæstv. félmrh. að hann svari tæmandi um þessi atriði, það gefst tækifæri til að taka það til umfjöllunar í þinginu aftur síðar með ýmsum hætti, þykist ég vita að hæstv. félrmh. geti upplýst þingheim um stöðu þessara mála. Ég held að það væri gagnlegt í þessari umræðu nú ef hann vildi koma inn á þessa þætti hvort eitthvað er að gerast þarna, hvort hreyfing er á málum þannig að þau úrræði sem bjóðast fötluðum geti náð til fötlunar sem sprottin er af þessum sökum. Ég ætla ekki að lengja umræðuna að öðru leyti en óska eftir því ef hæstv. ráðherra vildi vera svo vinsamlegur að koma inn á þetta líka í tengslum við skýrslu sína.