Málefni fatlaðra

77. fundur
Fimmtudaginn 26. janúar 1995, kl. 12:38:46 (3530)



[12:38]
     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég var komin þar í máli mínu áðan að ég var að ræða starfsþjálfun fatlaðra og undirstrika að það þyrfti að vinda bráðan bug að því að efla þá starfsemi þar sem langt er því frá að starfsþjálfunarfólk geti annað umsóknum. Ég var þar komin að árið 1964 gengu rauðir hundar hér á landi og þá fæddust allmörg börn sem nú er um þrítugt en sakir þess að mæður þeirra fengu rauða hunda á meðgöngutímanum fæddust þau heyrnarlaus. Þessi börn eru dreifð um land allt en stór hluti er á Reykjavíkursvæðinu. Nú hafa Félag heyrnarlausra og Þroskaþjálfaskóli Íslands uppi áætlanir um að koma af stað námi fyrir þetta fólk vegna þess að sum þeirra hafa misst vinnu nú þegar harðnað hefur á dalnum á vinnumarkaðnum. Annað fólk er hrætt um að missa vinnu sína og kennir um að fyrst og fremst hafi það ekki þá starfsþekkingu og þá almennu þekkingu sem þarf til að halda vinnunni eða fá vinnu. Þeim hefur, að því ég best veit, gengið fremur illa að fá fjármagn til að koma af stað þessari kennslu. Kennslan er í raun og veru mjög tengd því hvort fólk getur haldið vinnu eða fengið vinnu á vinnumarkaðnum og ætti þar af leiðandi að vera styrkt. Mig langar að spyrja hæstv. félmrh. hvernig þessu sé varið og hvort ekki standi til að greiða úr málefnum þessa hóps. Hann mun vera á milli 20 og 30 manns hér á Reykjavíkursvæðinu.
    Í annan stað vildi ég taka undir þau orð sem fallið hafa um menntun fatlaðra barna og unglinga og hversu nauðsynlegt er að styrkja hana og bæta. Það hafa orðið ýmsar úrbætur nú á síðustu árum en mér er kunnugt um það, og það veit þingheimur sjálfsagt allur því það hefur verið rætt áður í vetur, að Menntaskólinn við Hamrahlíð hefur orðið að vísa frá nemendum vegna þess að hann hafði ekki fjármagn eða bolmagn til að veita öllum þeim fötluðu nemendum aðstoð sem inn vildu komast. Þetta er líka hlutur sem er mjög alvarlegur og hefur auðvitað valdið geysilegum vonbrigðum meðal þessara ungmenna. Það verður aldrei undirstrikað nóg hversu mikilvægt það er að veita fötluðum börnum góða undirstöðumenntun og búa þau undir lífið, ekki bara menntunarlega séð heldur líka til að þau hafi það sjálfsöryggi og sjálfstraust sem til þarf til að takast á við erfiðleika þess lífs sem bíður fólks. Það er ekkert fjallað um þetta í þessari skýrslu enda sennilega álitið að það heyri undir menntmrn. En það heyrir líka undir félmrn. og ég get ekki séð annað en að félmrn. verði að láta það til sín taka svo framarlega sem þjónustan verður ekki veitt innan menntakerfisins.
    Í þessari skýrslu er lögð áhersla á það að fólk komist úr í atvinnulífið, fólk geti öðlast eigið húsnæði og dreifst sem þýðir það að ferlimálin þurfa að vera enn þá betur úr garði gerð en hefur verið. Því dreifðari sem byggð og bústaðir fatlaðra verða þeim mun meira þurfa þeir á flutningi að halda og þeim mun meira þurfa þeir á bættri aðstöðu í ferlimálum að halda á allan hátt. Það hafa ýmsir rætt um ferlimál hérna og ég ætla aðeins að benda á að þessi stefna sem við höfum tekið og ég er fylgjandi krefst miklu betri aðstöðu í ferlimálum heldur en verið hefur.
    Mig langar síðan að benda á þann mikilvæga þátt sem trúnaðarmaður fatlaðra getur átt í tilveru hinna fötluðu. Ég held að tilkoma þeirra, en þetta er alveg ný skipan mála, sé af hinu sérlega góða.
    Í þessari skýrslu er síðan rætt um starfsmenntun í atvinnulífinu, þ.e. starfsmenntun þeirra sem þjónustuna veita. Ég tel eiginlega undarlegt að þessi menntun skuli ekki hafa komist á fyrr en árið 1993. Þessi menntun er eingöngu miðuð við meðferðar- og uppeldisfulltrúa en ég held að það sé rétt að taka fram að Starfsmannafélagið Sókn, en ýmsir á þeirra félagssvæði vinna við umönnun og aðstoð fatlaðra, hefur haft í sínum kjarasamningum fræðslu fyrir fólk sem vinnur við þessi störf í meira en 15 ár og það ekki bara 160 tíma eins og nefnt er hérna heldur fer það upp í 230 til 240 tíma ef allir tímarnir eru taldir. Þannig hefur þetta verkalýðsfélag haft forsjálni til að bera sem er lofsverð. En þetta skref sem hér er fyrst stigið árið 1993 eða 1994, að koma á skipulegri fræðslu fyrir uppeldis- og meðferðarfulltrúa, er mjög mikilvægt en því miður kemur í ljós í skýrslunni að 70 sóttu um námskeiðið, þetta er bara eitt námskeið sem

virðist vera búið að halda, og 30 manns komust að. Á því sést hversu geysileg þörfin er og hún er náttúrlega miklu meiri en 70 manns, hún er langt fram yfir það. Þetta er þáttur sem þarf að margefla í þessari starfsemi. Ekki síst vegna þess að eftir því sem búseta og dreifing hinna fötluðu verður meiri og einstaklingsþjónustan verður þar af leiðandi meiri þá vinnur hver uppeldis- og meðferðarfulltrúi meira án leiðsagnar yfirmanna eða menntaðs fólks í fræðunum og þeim mun meiri þörf er fyrir þessa aðila að hafa staðgóða grunnmenntun. Þess vegna kallar stefnan á meiri menntun þessa fólks og ég tel að það sé gott að þetta er komið inn í kerfið og kennslan farin af stað en það þarf margfalt meira heldur en enn er komið af stað.
    Ég vildi að lokum koma aftur að aðstöðu geðfatlaðra því hún hefur nánast verið afskaplega slæm hér á Íslandi. Hv. þm. Jón Kristjánsson nefndi það að um aldamót hefðu menn á Austurlandi eytt heilum hreppsnefndarfundi í að athuga hversu stór klumpurinn ætti að vera sem hinn geðfatlaði væri hlekkjaður við. Þetta er náttúrlega óhugnanleg frásögn og mikið vatn runnið til sjávar síðan en þegar við lítum bara nokkur ár aftur í tímann hér í Reykjavík og sjálfsagt víðar þá sjáum við líka óhugnanlegar myndir. Við sjáum fólk sem á hvergi höfði sínu að að halla, jafnvel ekki einu sinni þak yfir höfuðið. En þetta hefur sem betur fer heldur lagast. Með tilkomu þessara áfangastaða sem nú eru komnir í lög þá ættu aðstæður geðfatlaðra að batna stórkostlega mikið. Að vísu eru það aðeins tíu geðfatlaðir sem geta búið á því heimili sem komið er upp en ég er ekki í nokkrum vafa um að það þurfi meira og ég vildi gjarnan vita frá hv. félmrh. hvort það er búið að gera greiningu á því hversu þörfin fyrir þessa þjónustu er mikil.
    Hvað viðkemur menntun geðfatlaðra þá er hún oft líka í molum eins og gefur að skilja og þarf mjög mikla natni og nákvæmni við að koma hinum geðfötluðu aftur í nám. Ég þekki þetta mjög vel af eigin raun eftir að hafa tekið þátt í slíku starfi. Það er í rauninni alveg stórkostlegt að sjá hvað geðfatlaðir einstaklingar geta margeflst við að finna að þeir geta lært á borð við aðra. Menntun geðfatlaðra er eitt af því sem er stórmikilvægt átaksverkefni sem félmrh. og raunar öll ríkisstjórnin ætti að standa að.
    Ég ætla ekki hafa orð mín fleiri að svo komnu máli. Ég vil undirstrika það að sú stefna sem við höfum tekið og ég fylgi krefst meiri menntunar allra aðila. Hún krefst þjónustu sem er af þó nokkuð ólíkum toga heldur en verið hefur og við þurfum að endurskoða þessi lög. Við þurfum að fá aftur skýrslu eftir eitt eða eitt og hálft ár um hvernig miðar því að það er svo greinilegt að margt þarf að laga. Einkum og sér í lagi finnst mér það varhugavert hvað Reykjavíkur- og Reykjanessvæðið eiga í miklum erfiðleikum með að sinna öllum þeim þörfum sem hér eru uppi. Þetta eru mannflestu kjördæmi landsins og á sama tíma og verið er að nota Framkvæmdasjóð fatlaðra til að fjármagna starfsemi þá vantar fé til að byggja upp aðstöðu á Reykjavíkur- og Reykjanessvæðinu. Ég tel það mjög slæmt að Reykjavíkur- og Reykjanessvæðið skuli vera svo afskipt sem raun ber vitni. Það þarf miklu meira fé í þennan málaflokk í heild. Við sjáum að hvar sem litið er á þessa þjónustu þá þarf meira fé heldur en veitt hefur verið og ég tel að hið háa Alþingi eigi að sjá til þess að þessir bræður okkar og systur sem við fötlun eiga að etja fái a.m.k. það fé sem til þarf til þess að þau geti lifað sæmilegu lífi.