Vitamál

77. fundur
Fimmtudaginn 26. janúar 1995, kl. 13:33:46 (3532)


[13:33]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Með frv. þessu er lagt til að gerð verði breyting á lögum um vitamál, nr. 56/1981, og lögum um lögskráningu sjómanna, nr. 43/1987.
    Frv. þetta er samið af nefnd sem samgrh. skipaði í mars sl. til að gera tillögur til samgrn. um nauðsynlegar breytingar á lögum og reglugerðum vegna breyttra reglna um mælingar skipa sem tóku gildi 18. júní sl.
    Í nefndinni áttu sæti fulltrúar frá samgrn., Sambandi íslenskra kaupskipaútgerða, Hafnasambandi sveitarfélaga, Landssambandi íslenskra útvegsmanna og Siglingamálastofnun ríkisins.
    Reglur nr. 244/1987 um mælingar skipa kveða á um að frá og með 1. júlí 1987 skuli mæla skip samkvæmt alþjóðasamþykkt um mælingu skipa (International Convention on Tonnage Measurement of Ships) sem undirrituð var í London 23. júní 1969 og tók gildi 18. júlí 1982. Þar er miðað við að nýjar mælingareglur taki ekki til gamalla skipa fyrr en 18. júlí 1994, þ.e. 12 árum eftir gildistöku alþjóðasamþykktarinnar. Alþjóðasamþykktin tekur til allra skipa er stunda alþjóðlegar siglingar, eru lengri en 24 metrar og skráð eru hér á landi. Ísland var aðili að þessari alþjóðasamþykkt og hefur skuldbundið sig til að taka upp reglur hennar, en auglýsing um gildistöku alþjóðasamnings um mælingar skipa var birt í C-deild Stjórnartíðinda nr. 11/1987.
    Með nýjum mælingareglum alþjóðasamþykktarinnar frá 1969 er tekin upp mælieiningin brúttótonn (Gross tons --- GT) í stað mælieiningarinnar brúttórúmlest (Gross register tons --- GRT) sem ákveðin var með alþjóðasamþykkt sem undirrituð var í Ósló 10. júní 1947. Mælingaaðferðir og mælieiningar þessara alþjóðasamþykkta eru mismunandi og í sumum tilfellum mælast skip samkvæmt nýrri samþykktinni miklu stærri en samkvæmt þeirri eldri. Af þessum sökum er nauðsynlegt að breyta ýmsum lagaákvæðum og gjaldskrám og miða við brúttótonn í stað brúttórúmlesta þannig að ekki verði breytingar á upphæð gjalda í kjölfar breyttra mælingareglna skipa.
    Samkvæmt 10. gr. laga um vitamál, nr. 56/1981, skal greiða vitagjald af skipum sem sigla við Íslandsstrendur og hafa hér viðkomu. Tekjum af vitagjaldi má einungis ráðstafa til að standa straum af kostnaði við rekstur Vitastofnunar Íslands. Á árinu 1992 voru tekjur af vitagjaldi 44.909 þús. kr. og kostnaður af rekstri Vitastofnunar Íslands 105.000 þús. kr. Gjaldið er tekið af öllum íslenskum skipum á skipaskrá einu sinni á ári og er miðað við brúttórúmlestatölu skips eins og hún er mest. Erlend skip sem setja

farþega eða vörur á land greiða vitagjald við hverja komu til landsins sem svarar 1 / 5 af vitagjaldinu, mest fimm sinnum á ári.
    Í 1. mgr. er lagt til að 11. gr. laga um vitamál verði breytt þannig að taka vitagjalds verði miðuð við brúttótonnatölu skips í stað brúttórúmlestatölu þess.
    Í 2. mgr. er lagt til að erlend skip greiði vitagjald sem svarar til 1 / 4 af vitagjaldinu en ekki 1 / 5 eins og nú er.
    Í 2. gr. frv. er lagt til að skylt verði að lögskrá alla skipverja sem ráðnir eru til starfa á íslenskum skipum sem eru 12 brúttótonn eða stærri. Núgildandi reglur miða við 12 rúmlestir brúttó í þessu efni.
    Ég sé ekki ástæðu til að rekja frekar einstakar greinar frv. en legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og samgn.