Köfun

77. fundur
Fimmtudaginn 26. janúar 1995, kl. 13:37:04 (3533)

[13:37]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Með frv. þessu er lagt til að sett verði ný heildarlög um köfun sem ætlað er að leysa af hólmi núgildandi lög um kafarastörf sem eru frá árinu 1976. Frv. var samið í samgrn. að höfðu samráði við Siglingamálastofnun og hagsmunaaðila, þar á meðal siglingamálaráð, Félag íslenskra kafara og Félag sportkafara. Ábendingar þessara aðila voru hafðar til hliðsjónar við gerð frv.
    Með gildandi lögum nr. 12/1976, um kafarastörf, var þeim mönnum sem stunda atvinnuköfun í fyrsta skipti tryggður ákveðinn starfsgrundvöllur. Jafnframt voru settar ákveðnar reglur um réttindi og skyldur þessara manna í starfi. Með lögunum var einnig verið að tryggja verkkaupanda hæfan og ábyrgan kafara og tryggja eftir föngum að kafari sakir vanhæfni eða kunnáttuleysis færi sjálfum sér eða öðrum ekki að voða. Voru lög þessi enn fremur viðleitni löggjafans til að samræma íslensk lög við stefnu annarra norðlægra strandríkja í köfunarmálum. Hins vegar hafa ákveðnir annmarkar á núgildandi lögum um kafarastörf frá 1976 komið í ljós á undanförnum árum, m.a. vegna mismunandi túlkunar á hugtakinu atvinnuköfun.
    Í 1. mgr. 1. gr. frv. kemur fram sú meginregla að þeir sem stunda atvinnuköfun verði að uppfylla ýmis skilyrði sem sett eru fram í 3. gr. frv. Sú skylda er því lögð á herðar vinnuveitenda að ráða ekki til kafarastarfa aðra en handhafa atvinnuköfunarskírteina. Er tilgangur þessa ákvæðis augljós sem er fyrst og fremst sá að sporna við því að réttindalausir einstaklingar taki að sér slíka vinnu og skapi hættu.
    Í 2. gr. frv. eru ýmsar orðaskýringar. Á undanförnum árum hefur það verið miklum vafa undirorpið hvernig skilgreininga beri atvinnuköfun og hefur verið mikið ósamræmi í túlkun þess. Vafi hefur leikið á því hvort athafnir kafara í skipulagðri sjálfboðavinnu eða annarri þjónustustarfsemi svo sem kafanir björgunarsveita, lögreglu eða slökkviliðs falli undir umrætt hugtak. Enn fremur má nefna sem dæmi söfnun ígulkera, ljósmyndaköfun og leiðbeinendur við köfun og fleira.
    Hér er valin sú leið að hafa skilgreiningu á atvinnuköfun rúma svo það ráði ekki úrslitum með hvaða hætti greiðsla kemur fyrir köfun. Hins vegar er gert ráð fyrir því að gera megi mismunandi menntunar- og hæfniskröfur eftir eðli starfsins. Þannig á að vera tryggt að þeir sem stunda köfun hljóti ákveðna lágmarksþjálfun.
    Þessi skilgreining er einnig til þess fallin að eyða þeim mikla vafa sem verið hefur á túlkun hugtaksins atvinnuköfun og hvatt til ósamræmis. Með mismunandi menntunar- og hæfniskröfum í reglugerð verður síðan unnt að koma til móts við þarfir t.d. neyðarþjónustunnar (lögreglu, slökkviliðs og björgunarsveita).
    Áhugaköfun eða sportköfun er skilgreind sem allar athafnir sem teljast köfun skv. 2. gr. en er ekki atvinnuköfun í skilningi 1. mgr. þessarar greinar. Er ljóst að þörf er á því að greina að atvinnuköfun annars vegar og áhugaköfun hins vegar.
    Í 3. gr. frv. koma fram þau skilyrði sem aðili er áformar að stunda atvinnuköfun þarf að fullnægja. Í fyrsta lagi þarf viðkomandi að vera fullra 20 ára. Í öðru lagi þarf hann að hafa gengist undir fullnægjandi læknisskoðun þar sem athugað hefur verið líkamlegt ástand viðkomandi með tilliti til athafna undir yfirborði sjávar. Í þriðja lagi er kveðið á um að aðili þurfi að uppfylla menntunar- og hæfniskröfur þær sem Siglingamálastofnun ríkisins setur fram. Í fjórða lagi gefur svo Siglingamálastofnun út svokallað atvinnuköfunarskírteini um að viðkomandi sé hæfur til að stunda atvinnuköfun.
    Í 3. gr. eru einnis sett fram skilyrði sem áhugakafarar verða að uppfylla til að mega stunda slíka köfun. Hættueiginleikar köfunar kalla á aukið aðhald með þeim aðilum sem stunda köfun sér til ánægju og yndisauka. Er þess krafist að áhugakafarar fullnægi skilyrðum um læknisskoðun og séu orðnir 17 ára að aldri. Ber m.a. leiðbeinendum og öðrum þeim aðilum er sjá um kennslu að athuga hvort viðkomandi áhugamaður fullnægi þessum skilyrðum.

    Samkvæmt lögum um Siglingamálastofnun annast hún framkvæmd laga og reglugerða um kafarastörf.
    Í 6. gr. frv. er kveðið á um þetta eftirlit og umsjónarstarf stofnunarinnar. Eðli málsins samkvæmt telst það heppilegur kostur að láta Siglingamálastofnun hafa eftirlit með því að farið sé eftir ákvæðum þessara laga sem fjalla um svo mjög sérhæft svið. Stofnunin hefur yfir að ráða þeirri sérfræðiþekkingu sem nauðsynleg er til að faglegt og öflugt eftirlit sé viðhaft. Samgrn. mun hins vegar hafa yfirumsjón með málum er falla undir gildissvið laga þessara.
    Tilgangur 7. gr. er að færa rannsókn slysa frá hinum opinbera eftirlitsaðila, Siglingamálastofnun, til óháðs aðila. Jafnframt er miðað við að ávallt sé til staðar aðili með sérþekkingu í köfun.
    Ég sé ekki ástæðu til að rekja frekar einstakar greinar frv. og legg til að því verði vísað til 2. umr. og samgn.