Skráning skipa

77. fundur
Fimmtudaginn 26. janúar 1995, kl. 13:44:37 (3538)


[13:44]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Með þessu frv. eru lagðar til breytingar á lögum um skráningu skipa, nr. 115/1985. Með 24. gr. laga um breytingu á lagaákvæðum er varða fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri o.fl., nr. 23/1991, var 1. gr. laga um skráningu skipa, nr. 115/1985, breytt. Breyting var fólgin í því að kveða skýrar á um skilyrði eignaraðildar til þess að hægt sé að skrá skip hér á landi.
    Með 24. gr. laga nr. 23/1991 féll niður 2. og 3. mgr. 1. gr. laga um skráningu skipa, nr. 115/1985, en þær kváðu á um að heimilt væri að skrá hér á landi kaupskip sem íslensk útgerð rekur samkvæmt samningi þar um þó svo ekki væri fullnægt skilyrðum 1. mgr. um eignarhald. Með 2. mgr. frumvarps þessa er ákvæði þetta tekið inn í lögin á nýjan leik, enda var ekki miðað við að það félli úr gildi á sínum tíma.
    Með 10. gr. laga um breytingu á lagaákvæðum er varða samgöngumál vegna aðildar að Evrópska

efnahagssvæðinu, nr. 62/1993, var kveðið á um að ríkisborgarar aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins njóti sama réttar og íslenskir ríkisborgarar.
    Ég sé ekki ástæðu til að rekja frekar einstakar greinar frv. en legg til að því verði vísað til 2. umr. og samgn.