Skráning skipa

77. fundur
Fimmtudaginn 26. janúar 1995, kl. 13:51:27 (3542)


[13:51]
     Páll Pétursson :
    Herra forseti. Á sl. vori var breytt lögunum um skráningu skipa í framhaldi af frumvarpsflutningi sem ég stóð fyrir þannig að hægt væri að skrá hér á landi hentifánaskip sem talsvert var orðið af í flotanum, en hætta að skrá þau í Belís og allra handa ríkjum þar sem þau höfðu verið skráð.
    Ég vil spyrja hæstv. samgrh. hvað hafi gengið að skrá þessi hentifánaskip. Mér er kunnugt um að þau eru ekki öll komin undir íslenskan fána sem ég tel eðlilegt að þau séu. Á hverju stendur eða hverju bera menn við? Hvers vegna skrá menn þau ekki undir íslenskan fána? Þetta er fyrsta spurningin.
    Önnur athugasemd mín fjallar um texta í 1. gr. sem mér finnst nú ekki vera beint skýr eða skilmerkilega orðaður og ég vildi gjarnan að hæstv. samgn. skoðaði nánar þegar hún tekur þetta mál til meðferðar og beini ég því sérstaklega til herra forseta sem jafnframt er formaður hv. samgn. Þar segir í 1. gr.:
    ,,Rétt er að skrá skip hér á landi þegar íslenskir ríkisborgarar, sem eiga lögheimili hér á landi eða íslenskir lögaðilar, sem eiga heimili hér á landi, eiga það. Þennan rétt hafa einnig ríkisborgarar annarra ríkja Evrópska efnahagssvæðisins frá og með gildistöku samnings um hið Evrópska efnahagssvæði samkvæmt nánari ákvæðum sem ráðherra setur með reglugerð. Til fiskveiða hér á landi má aðeins skrá skip og báta sem eru í eigu íslenskra ríkisborgara sem eiga lögheimili hérlendis og lögaðila sem eiga heimili hér á landi og eru að öllu leyti eign íslenskra ríkisborgara sem eiga lögheimili hér á landi.``
    Þessi texti finnst mér ekki nægilega markviss og vil nú óska eftir því að hv. samgn. athugi hvort ekki væri skynsamlegra að hnika þarna til orðum eða orðaröð þannig að tvímælum sætti ekki. Í öðru lagi er þarna minnst á að ráðherra muni setja reglugerð um þessa skráningu hvað varðar aðild að hinu Evrópska efnahagssvæði. Mig langar til að spyrja hver undirbúningur sé hafinn að reglugerðarsetningunni og heppilegast væri ef hv. samgn. gæti fengið tækifæri til að fara yfir þessa reglugerð eða drög að reglugerð áður en hún afgreiðir frá sér frv.