Vegalög

77. fundur
Fimmtudaginn 26. janúar 1995, kl. 14:18:19 (3550)


[14:18]
     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil fagna því að þetta mál er komið til umræðu. Á sl. vetri var mjög mikið fjallað um þetta mál í samgn. og ég var mikill áhugamaður fyrir því og beitti mér mjög fyrir því að tekið yrði á þessu mikla vandamáli. Vissulega er það svo að menn hafa gert það hér og fyrir það ber að þakka en ég tek undir það sem menn hafa sagt áður að ég tel að skort hafi að það hefði mátt flýta fyrir afgreiðslu þessa máls hér og nú með því að sú nefnd sem skipuð var til þess að fara yfir þetta mál hefði haft samstarf og samráð fyrr við samgn. þingsins um þessar hugmyndir sínar. Það hefði verið betra en menn verða að sætta sig við að það þurfi að taka einhvern örlítið lengri tíma í samgn. að ræða um málið og skiptast á skoðunum við þá smiði sem ráðherra kallaði til að koma þessu saman.
    Ég legg áherslu á að hér er um mikið og brýnt vandamál að ræða, þ.e. um lausgöngu búfjár og hvernig við getum losnað við það af vegum landsins en þó með skikkanlegu móti þannig að réttur og skilningur á högum bænda sé þar ekki fyrir borð borinn. Það er auðvitað mikið mál samhliða því sem við hljótum að huga að öryggi þeirra sem um vegina fara. Þetta þarf að fara saman og á því byggðist mikið sú umræða sem fór fram í nefndinni sl. vetur og er kveikja að þessu frv. sem hér liggur fyrir.
    Um þetta mál var sett upp nefnd og ég sé að í henni hafa átt sæti fulltrúar frá Stéttarsambandi bænda, Ari Teitsson, og svo einnig frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, Valgarður Hilmarsson oddviti og Gísli Einarsson oddviti, þannig að fulltrúar frá þessum aðilum hafa vissulega komið að þessari smíð. En engu að síður eru nokkur atriði sem ég tel mig þurfa að fá frekari skýringar við en geri það ekki hér. Ég á sæti í samgn. og mun leita eftir ákveðnum upplýsingum þegar við fjöllum um þetta mál í nefndinni.
    Það eru þarna nokkrir athyglisverðir punktar og ég vil benda á það sem segir í 3. gr. sem mér finnst að mörgu leyti athyglisvert sem kemur þarna fram þar sem segir:
    ,,Viðhaldskostnaður girðinga með stofnvegum og tengivegum greiðist að jöfnu af veghaldara og landeiganda. Þó skal veghaldari greiða allan viðhaldskostnað ef girðingin er reist eingöngu til þess að fría vegsvæði frá búfé, þ.e. af afréttum og öðrum sameiginlegum sumarbeitilöndum búfjár.``
    Hér finnst mér vissulega verið tekið á stórum málum og hafa verið nokkuð vel gert. Það verður að segja eins og er.
    Það segir einnig í athugasemdum við 3. gr. sem mér finnst að þurfi aðeins að fá fyllri upplýsingar um í nefndinni þar sem segir:
    ,,Í 3. mgr. er gert ráð fyrir sams konar fyrirkomulagi og verið hefur varðandi viðhaldskostnað girðinga með safnvegum og landsvegum.``
    Ég segi fyrir mig að ég þarf aðeins að fá betri útskýringar á þessum þætti þar sem átt er við að óbreytt ástand verði um girðingar hvað varðar safnvegina og landsveginn.
    Ég held, virðulegi forseti, að ég þurfi ekki að segja mikið meira um þetta hér og nú. Mér gefst tækifæri til þess eins og ég hef áður sagt í samgn. að fjalla um frv. Mér finnst það gott mál sem við erum hér komnir með en við þurfum auðvitað að vanda okkur við þessa smíð eins og aðra og reyna að koma

sem bestri skipan á í þessum málum því að það er hverjum manni ljóst sem um þjóðvegi landsins fer og ekkert síður þeim sem hafa búsetu, lögbýli við þessar miklu og hröðu umferðaræðar sem orðnar eru í dag að það er mikil þörf á að reyna að finna þarna þokkalega sátt hvernig þessi mál verða leyst.