Vegalög

77. fundur
Fimmtudaginn 26. janúar 1995, kl. 14:35:09 (3553)


[14:35]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að gagnrýna það að þetta frv. skuli ekki hafa komið fram fyrr. Það var auðvitað nógur tími til þess að undirbúa það frá því í fyrravetur en hæstv. ráðherra skipaði ekki nefnd í málið fyrr en 7. sept. og það var kannski ekki við því að búast að málið yrði þá komið til þingsins nægilega snemma því að það var meiningin þegar talað var um að þetta frv. kæmi að það yrði hægt að afgreiða það fyrir áramótin. Mér sýnist í fljótu bragði að það hafi bærilega tekist til við samningu frv. og það sé í samræmi við þær tilætlanir sem menn voru nokkuð sammála um en auðvitað munum við fara yfir það í hv. nefnd. Það er eitt sem ég staldra svolítið við og langar til að nefna. Það er í 3. gr. þar sem talað er um viðhaldskostnað. Þar er sagt: ,,Þó skal veghaldari greiða allan viðhaldskostnað ef girðingin er reist eingöngu til þess að fría vegsvæði frá búfé, þ.e. á afréttum og öðrum sameiginlegum sumarbeitilödnum búfjár.`` Ég hef svolitlar áhyggjur af því að það verði erfitt að úrskurða í þessu efni stundum og það muni vera það mikið hagsmunamál bænda sem þarna er á ferðinni að það geti orðið býsna erfitt að úrskurða um það hvort um er að ræða sumarbeitilönd eða hluta af öðrum löndum viðkomandi bújarðar. Þetta þarf kannski að skoða svolítið nánar en ég held að það sé mjög mikilsvert að þessar reglur verði eins skýrar og mögulegt er. Ég ætla svo sem ekki að lengja þessa umræðu neitt en fagna því að þetta frv. skuli þó vera komið fram og vonast til þess að tíminn til þess að afgreiða það verði fyrir hendi. Ég held reyndar að það sé mikill vilji í samgn. til þess að afgreiða þetta mál og það muni ekki standa á mönnum þar að mæta til starfa en það hefði verið betra að frv. hefði komið fram fyrr.