Vegalög

77. fundur
Fimmtudaginn 26. janúar 1995, kl. 14:37:42 (3554)


[14:37]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég ætlaði aðeins að bæta inn í þessa umræðu fáeinum orðum sem lúta aðallega að 2. mgr. 1. gr. frv. Það er breyting sem ég er hjartanlega sammála og held að sé löngu tímabær. Því meir sem ég hef hugleitt eða fylgst með þessum málum þeim mun sannfærðari er ég um að menn hefðu fyrir löngu síðan átt að vera komnir inn á þá braut að vinna að þessum friðunarmálum veganna jöfnum höndum með því að girða þá af það sem þar hentar en ekki síður með hinu að taka fyrir lausagöngu búfjár á ákveðnum svæðum þar sem það væri vænlegri og jafnvel ódýrari og einfaldari aðgerð eins og sums staðar er. Ég skal játa að ég er þá sérstaklega með Reykjanesið í huga. Það er satt best að segja búið að taka alveg ótrúlegan tíma að koma því sjálfsagða máli í höfn að taka fyrir lausagöngu búfjár á Reykjanesskaganum eða friða vegsvæðin þar. Þar voru tvær leiðir færar. Önnur var að girða veginn af og hin var að girða búféð af. Og þegar svo er komið að búféð er orðið mjög fátt á viðkomandi svæði og það er tiltölulega einföld og viðráðanleg aðgerð að hafa það innan girðingar og í haldi þá er auðvitað miklu skemmtilegra og eðlilegra á allan hátt að sú leið sé valin. Og þá er jafnframt eðlilegt að Vegagerðin hafi alveg ótvíræðar lagaheimildir til að taka þátt í slíkri aðgerð. Hún er jafngild því og fullkomlega það frá sjónarhóli umferðaröryggis og Vegagerðarinnar að vegsvæðin sjálf séu girt af þannig að ég fagna því alveg sérstaklega að þessi heimild er þarna tekin inn og er að öllu leyti sáttur við hana nema kannski síðasta málsliðinn sem ég veit ekki hvort á endilega að vera að binda með þessum hætti, þ.e. að kostnaðurinn sé algerlega bundinn við það að Vegagerðin megi ekki greiða meira en sem nemur lengd þeirra girðinga sem til hefðu komið ef vegirnir hefðu verið girtir af, ef ég hef skilið þetta rétt.
    Ég held að það sé ekki endilega skynsamlegt að vera bundinn af slíku ákvæði því að stundum getur frá bara almennum sjónarmiðum verið svo miklu æskilegra að velja þennan kost heldur en að girða af vegina beggja vegna að ég tel af efnislegum ástæðum það vel koma til greina að Vegagerðin legði í þetta meira. Ég þykist að vísu alveg vita hvað höfundarnir hafa verið að hugsa. Þetta er hugsuð sem víglína eða varnaraðgerð af hálfu Vegagerðarinnar til að hún verði ekki teymd með samningum inn í að borga þarna meira heldur en minna. Það viðhorf get ég svo sem skilið. En ef menn hafa það sjálfstraust að treysta sér til að fara þannig með heimildir sínar í þessum efnum að þeir geri ekki annað en það sem skynsamlegt er þá hefði mér verið alveg sama þó að þessi málsliður hyrfi út og þessi heimild einfaldlega verið almennt orðuð að Vegagerðin gæti tekið þátt í svona aðgerðum.
    Ég hlýt auðvitað að nefna hér líka mál sem ég hef flutt endurtekið á þingi, hæstv. forseti, og varðar það bann við lausagöngu stórgripa. Enn á ný höfum við verið rækilega minnt á það á þessum vetri og á þessu ári að þetta ófremdarástand sem enn viðgengst á nokkrum stöðum á landinu með lausagöngu stórgripa á vegum er neðan við allar hellur og það er alveg yfirgengilegt að menn skuli ekki hafa tekið á þessu. Menn eru að baka sjálfum sér þvílíkan skaða með því og þá á ég alveg sérstaklega við þá forsvarsmenn landbúnaðarins sem hafa staðið gegn því að þetta mál kæmist í höfn, það er alveg ömurlegt satt best að segja. Sjá menn ekki hversu ákaflega dýrt það er að valda þessum árekstrum og núningi milli umferðarinnar annars vegar og búskaparins í landinu hins vegar? Þetta er mál sem hefði fyrir löngu þurft að vera búið að taka á og koma í höfn að afleggja lausagöngu stórgripa, a.m.k. alls staðar þar sem umferð er á ferðinni því að þetta tvennt fer ekki saman. Um það eru dæmin mörg, bæði gömul og ný og sum sorgleg. Lausaganga sauðfjár er hins vegar allt annað mál og þar gilda allt aðrar aðstæður, enda frá umhverfisöryggissjónarmiðum séð hverfandi vandamál í þeim skilningi og ekki sama ástæða til þess að setja reglur af því tagi þar.
    Ég vona að það verði hægt að koma einhverju áleiðis í þessum málum og það þarf að endurskoða bæði þær reglur sem gilda um vörsluna sjálfa eða lausagönguna sjálfa, um bótahliðina og tryggingahliðina, sem komið hefur upp upp á síðkastið, m.a. í kjölfar dómsniðurstaðna og það kemur inn á þetta mál líka hvaða leiðir eru valdar í sambandi við það að girða af vegsvæði eða taka fyrir lausagöngu búfjár vegna þess að ég tel einmitt að sú aðferð að sleppa því að þvera með girðingum heilar sveitir beggja vegna vega en velja í staðinn hitt að búpeningnum sé haldið afmarkað innan girðinga, a.m.k. á þeim svæðum sem að umferð snýr, sé mjög vænlegur kostur í þessum efnum og oft og tíðum ódýrari og eðlilegri. Ef bændur megi velja um það að fá stuðning við að búa út hagagirðingar fyrir sína stórgripi annars vegar eða hins vegar að girt sé beggja vegna vega í gegnum þeirra land þá er ég ekki viss um nema þeir taki fyrri kostinn í mörgum tilvikum því að það getur verið augljóst hagræði að því í búskapnum að fá slíkar hagagirðingar, fá stuðning við að gera slíkar hagagirðingar, frekar en fá landið þvergirt meðfram vegum. Þetta þyrfti að skoðast í samhengi, sérstaklega þegar stórgripirnir eiga í hlut, og það verður að komast fyrir þetta vandamál. Þetta gengur ekki svona.
    Reglum um búfjárhald var breytt fyrir nokkru og var von manna að í kjölfarið myndu sveitarfélögin almennt setja sér samþykktir um þessi efni og fjölmörg þeirra hafa gert það, mjög mörg þeirra hafa bannað lausagöngu stórgripa, sérstaklega hrossa sem oftast eiga í hlut, en nokkur þeirra hafa ekki gert það af einhverjum ástæðum, kannski af heimapólitískum ástæðum hafa menn ekki haft stöðu til þess eða kjark til þess eða hvað sem það er að taka á þessu vandamáli og á nokkrum stöðum á Norðurlandi og Suðurlandi þar sem umferð er mikil er enn þetta ófremdarástand.
    Ég er svo þeirrar skoðunar að það þurfi að gera áætlun um þetta mál, það eigi að gera samhliða vegáætlun sérstaka áætlun um það hvernig umferðarþyngstu vegirnir í landinu verði friðaðir fyrir búfé og hún eigi einfaldlega að byggja á því annars vegar að lausaganga stórgripa verði aflögð og hins vegar að það verði lagt af stað með friðun umferðarmestu veganna út frá helstu þéttbýlissvæðum landsins. Það er löngu tímabært t.d. að setja bara upp áætlun um það að umferðaræðarnar út frá höfuðborginni og suðvesturhorninu, Suðurnesjavegurinn, sem vonandi er nú að friðast endanlega, Suðurlandsvegur og Vesturlandsvegur í báðar áttir út frá höfuðborginni verði friðaðir og ég teldi að það væri lágmark að koma því t.d. á hvað Suðurlandsveginn snertir að hann yrði friðaður eitthvað austur eftir Suðurlandi, austur fyrir Hvolsvöll eða svo og þá meina ég algerlega friðaður þannig að vegurinn girtur af beggja vegna ef lausaganga er þá ekki aflögð með sveitasamþykktum eða öðru slíku og það yrðu reist hlið við veginn og hægt að ganga um það ef vel færi. Sama ætti við um Vesturlandsveg, a.m.k. upp í Hvalfjörð, vegina út frá Akureyri í báðar áttir o.s.frv. Að þessu á bara að vinna samkvæmt skipulagðri áætlun þannig að það fari að myndast á vegakerfinu þar sem umferðin er þyngst kaflar þar sem engir árekstrar verða milli búfjár og umferðar og síðan væri það afmarkað með aðvöunarskiltum hvenær menn væru komnir út af því svæði og hvenær menn mættu fara að búast við eða þyrftu að hafa vara á sér vegna hugsanlegra samskipta við búfénað á eða við veginn. Það þekkja það sjálfsagt flestir sem hafa ekið erlendis að þar er náttúrlega ágangur búfjár á vegum óþekktur þar sem umferð er mikil, en ef menn keyra til að mynda á Alpasvæðunum eða úti í Þýskalandi, ef menn keyra þar út í sveit eða upp til fjalla, þá kemur stundum að því að menn aka yfir ristarhlið og þar koma skilti mikil sem vara menn við því að nú megi menn fara að búast við búfénaði, dádýrum eða einhverju öðru á vegunum og þurfi að hafa varann á. Og alveg eins ætti að hafa þetta hér þó að vísu þyrfti ekkert að vara mikið við dádýrum. Þó gæti verið skynsamlegt að hafa skilti sem minnti menn á tilvist hreindýra, til að mynda á Austurlandi þar sem búast mætti við þeim á vegum, þó að þau hafi að vísu mikla hæfileika til að forða sér undan ökutækjum eins og kunnugt er.
    En hvað um það, hæstv. forseti. Ég tel að þetta sé þörf breyting og sjálfsagt að stuðla að afgreiðslu hennar á þingi en ég hefði viljað sjá tekið meira á í þessum efnum og ég hefði viljað sjá það þingmál sem ég hef flutt hér endurtekið ásamt með fleiri þingmönnum um að lausaganga stórgripa yrði aflögð með einum eða öðrum hætti fá afgreiðslu í tengslum við þetta mál, vegáætlun og önnur slík sem eru til umfjöllunar. Ég hef fylgst með því síðan ég fór fyrst að vinna efni í það mál hvernig þróunin hefur verið í sambandi við árekstra stórgripa og umferðar og því miður verður að segja þá sögu eins og hún er að sennilega erum við að upplifa eða vorum að upplifa á síðasta ári eitt af verri árum í þeim efnum ef ekki það versta.