Áhafnir íslenskra kaupskipa

77. fundur
Fimmtudaginn 26. janúar 1995, kl. 15:02:49 (3560)

[15:02]
     Guðmundur Hallvarðsson :
    Virðulegi forseti. Það eru örfáar spurningar sem ég vildi leggja fyrir ráðherra varðandi þetta frv. til laga um áhafnir íslenskra kaupskipa. Það er í fyrsta lagi varðandi l-lið 2. gr. Þar segir að fullgildur undirmaður sé sá sem uppfyllt hefur þær kröfur sem gerðar eru til stöðunnar. Til þess að mega gegna vaktstöðu á siglingavakt í brú, í vélarrúmi og hafa á hendi stjórnun björgunarfara, þurfi viðkomandi að hafa tilskilin réttindi frá Siglingamálastofnun ríkisins eða sambærileg réttindi frá öðru viðurkenndu yfirvaldi, eða frá öðru ríki sem aðili er að STCW-samþykktinni.
    Það sem ég vildi spyrja í þessu sambandi er: Hvaða réttindi eru það sem Siglingamálastofnunin veitir nú undirmanni samkvæmt l-lið og frá hvaða tíma hafa þau ákvæði laga verið í gildi hvar menn geta fengið þessi réttindi með tilliti til þess að verði þetta að lögum nú í þessum mánuði eða þeim næsta, þá má ætla að þessi ákvæði laganna taki þegar gildi eins og gert er ráð fyrir í frv.?
    Þá vildi ég í annan stað spyrja um það sem kemur fram í 2. gr. í skilgreiningu r-liðar þar sem segir að utanlandssigling sé hver sú ferð sem farin er milli landa eða til fiskimiða utan íslenskrar fiskveiðilögsögu þótt hafna sé ekki leitað.
    Nú stangast þetta, hæstv. ráðherra, nokkuð á við íslensk tollalög sem segja að utanlandssigling teljist eingöngu sú sigling hvar skip koma, leggja hér úr höfn og koma við í erlendri höfn. Er einhver breyting þarna gerð? Og ég spyr þá líka: Er líka gerð breyting á tollalögum hvað þetta áhrærir? Því það skiptir verulegu máli að vita af því ef lögum um tollheimtu, tolleftirlit og tollalögum um skip hefur verið breytt í þessa veru.
    Þá vildi ég líka spyrjast fyrir um 11. gr., hvort sú sé skoðun ráðherra að ef þetta frv. verður að lögum þá séu með lögum felld úr gildi ákvæði kjarasamninga farmanna hvar tiltekið er um mannafjölda.