Áhafnir íslenskra kaupskipa

77. fundur
Fimmtudaginn 26. janúar 1995, kl. 15:05:51 (3561)


[15:05]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. L-liður 2. gr. er nýmæli og eru öll gögn, kennslugögn og annað þvílíkt tilbúið til þess að hægt sé að veita þá fullgildingu undirmanna sem hér er gert ráð fyrir frá Siglingamálastofnun ríkisins. Eins og ég sagði áður, þá legg ég áherslu á það að við erum hér að tala um að nauðsynlegt sé fyrir okkur að hafa svigrúm og heimildir til að fullgilda alþjóðasamþykktina frá 1978, STCW. Það er mergurinn málsins í þessu sambandi og eins það ákvæði sem hv. þm. spurði um varðandi það hvað séu utanlandssiglingar, þ.e. r-lið, en sá liður hljóðar svo: ,,Utanlandssigling er hver sú ferð sem farin er milli landa eða til fiskimiða utan íslenskrar fiskveiðilögsögu þótt hafna sé ekki leitað.``
    Ég skil það svo að þetta sé í alþjóðasamþykktinni og sé þess vegna óhjákvæmilegt að taka þetta ákvæði inn, en hitt er svo annað mál hvort tollurinn vilji fallast á sömu skilgreiningu. Það mál hefur ekki verið rætt milli samgrn. og fjmrn. og skal ég ekki um það segja.
    Það er rétt hjá hv. þm. að hér er gert ráð fyrir öðrum reglum en áður um fjölda yfirmanna og má vera að það stangist í einhverjum atriðum á við gildandi kjarasamninga. Ég hef ekki athugað það sérstaklega en ég vek athygli á að þessi frumvörp eru samþykkt af nefnd þar sem fulltrúar frá Vélstjórafélaginu, Farmannasambandinu og Stýrimannafélaginu eiga aðild og þeir hafa fallist á frumvarpsdrögin eins og þau liggja fyrir og ég tel að af þeim sökum sé ekki um neinn ágreining við þessi stéttarfélög að ræða.