Vegáætlun 1995--1998

77. fundur
Fimmtudaginn 26. janúar 1995, kl. 15:34:55 (3569)


[15:34]
     Jón Kristjánsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það sem máli skiptir í þessu vegamáli öllu saman er hvað miklir peningar eru til framkvæmda. Hæstv. ráðherra hefur ekki enn þá svarað fyrirspurn minni um það hvað kemur í hlut einstakra kjördæma. Ég er ekkert að ætlast til að hann svari því í andsvari. Ég er að ætlast til að hann svari því áður en umræðunni lýkur og ég mun bíða eftir því.
    Varðandi þessa framkvæmd í Ártúnsbrekkunni þá er einfaldlega um það að ræða að þar er farið í framkvæmd upp á 400 millj. kr. og hún boðin út rétt áður en vegáætlun er tekin hér til umræðu. Mér er fullkunnugt um að framkvæmdir hafa verið boðnar út sem eru inn á vegáætlun og framkvæmdafé er skipt á eitt, tvö eða jafnvel þrjú ár. Það er mér alveg kunnugt um. En þetta mál er ekki af því tagi. Hins vegar vil ég taka það fram að ég er ekki með neinum hætti að draga úr því að það þurfi að fara í þessa framkvæmd. En vinnubrögðin hér eru alls ólíðandi og yfirlýsingarnar í þessu máli. Þar á hæstv. samgrh. ekki einn hlut að því hann hefur kannski ekki verið eins yfirlýsingaglaður og hæstv. forsrh. um þetta mál sem ætti auðvitað að vera við þessa umræðu og standa fyrir máli sínu um þetta mál sem hann hefur tekið að sér hér í bæ.