Vegáætlun 1995--1998

77. fundur
Fimmtudaginn 26. janúar 1995, kl. 16:05:08 (3580)


[16:05]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það eru aðeins tvö eða þrjú atriði. Í fyrsta lagi er þingmaðurinn mjög andvígur því að taka upp nýjar reglur í sambandi við greiðslur á fé úr Vegasjóði til einstakra kjördæma. Nú eru horfur á því að jarðgöng komi undir Hvalfjörð og ber þá að skilja orð þingmannsins svo að ríkisstjórninni beri að láta greiða kostnað við umferðaræðar að jarðgöngunum af fé þeirra sem búa Vesturland eingöngu? Eða getur hann hugsað sér einhverjar breytingar frá allsherjarreglunni ef það kemur hans eigin kjördæmi til góða en undir öðrum kringumstæðum ekki?
    Kjarni málsins er sá að auðvitað hlýtur það að koma til endurskoðunar frá einu áætlunartímabili til annars hversu fé er varið úr Vegasjóði og mér finnst satt að segja undarlegt að heyra hve margir þingmenn telja að slíkt geti verið ákveðið í eitt skipti fyrir öll og væri þá fróðlegt að fá að vita við hvaða ár eigi að miða. Það er algjör misskilningur hjá hv. þm. að það sé í fyrsta skipti nú sem greitt er í ríkissjóð úr Vegasjóði framlag og ætti hann að rifja upp ráðherraferil forvera míns, Steingríms J. Sigfússonar sem er góður flokksbróðir hans og getur kannski upplýst hann eitthvað um þau mál. Hv. þm. bað mig að bera saman það sem þessi ríkisstjórn hefði gert í samgöngumálum við það sem síðasta ríkisstjórn hefði lofað en treystir sér á hinn bóginn ekki til að leggja verk síðustu ríkisstjórnar á borðið á móti verkum þessarar ríkisstjórnar og sýnir það raunar glögglega hversu mikill munur þar er á. Í sambandi við uppsafnaðar skuldir og skuldbindingar vil ég einungis rifja upp að greiðslubyrði Vegasjóðs til ferja og flóabáta var 399 millj. árið 1993, 542 millj. á síðasta ári og samkvæmt gildandi vegáætlun 469 millj. og 455 millj. á þessu ári og hinu næsta og sýnir það auðvitað betur en flest annað viðskilnaðinn í samgöngumálum.