Vegáætlun 1995--1998

77. fundur
Fimmtudaginn 26. janúar 1995, kl. 16:11:46 (3583)


[16:11]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. Alþingi tók ákvarðanir um það að endurnýja ferjurnar og auðvitað kostaði það mikla peninga en ég held að það velkist nú enginn í vafa um að þær ferjur sem nú eru reknar við landið eru allar nauðsynlegar og ég skil satt að segja ekki hvers vegna hæstv. ráðherra er að leggja það sífellt á sig að fjargviðrast út af þessum fjárfestingum. Þetta er eitthvað sem við þurftum að gera. Menn geta svo sem deilt um það hvort skip hefði getað kostað meira eða minna en það var farið mjög vandlega í gegnum þá hluti á sínum tíma og ég held að t.d. efist enginn um það að við Íslendingar erum bærilega vel settir með þetta góða skip sem núna siglir milli lands og Eyja og fullkomlega hafi verið nauðsyn á því að þar væri skip á ferðinni sem hefði fullt öryggi, væri með tvær vélar o.s.frv. Ég veit ekki hvers konar þráhyggja það er hjá hæstv. ráðherra að vera sífellt að tönnlast á þessum hlutum. Við höfum rekið aðrar ferjur hér sem skipta máli og hafa bæði hagræði í för með sér og sparnað fyrir landið í heild. Ég tel að það sé ekki nokkur ástæða til þess að endurskoða t.d. rekstur Akraborgarinnar á meðan ekki liggur ljóst fyrir að aðrar samgöngubætur komi í staðinn. Ég held að það hafi verið fullkomin samstaða um þessi mál.
    Hitt að vera sífellt að kenna þessum hlutum um vandræðaganginn í kringum fjármögnun á vegaframkvæmdum er einfaldlega bara það að hæstv. ráðherra hefur ekkert annað til að verja sig með. Mér finnst aftur á móti full ástæða til að vekja athygli á því að hæstv. ríkisstjórn og hæstv. ráðherra leggja sig alveg ótrúlega fram um það að slá ryki í augun á fólki og gera þetta framkvæmdaátak sinnum tveir, miklu stærra í augum almennings en það er í raun og veru. Mér finnst svoleiðis talnaleikfimi óþarfi. Þetta framkvæmdaátak stendur alveg fyrir sínu.